Bless Björn Ingi Hrafnsson fékk hlýtt faðmlag frá borgarfulltrúum þegar hann kvaddi borgarstjórn í gær.
Bless Björn Ingi Hrafnsson fékk hlýtt faðmlag frá borgarfulltrúum þegar hann kvaddi borgarstjórn í gær. — Árvakur/Ómar
BJÖRN Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði af sér á borgarstjórnarfundi í gær. Hann segir að afsögn sína megi rekja til átaka innan Framsóknarflokksins.

BJÖRN Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sagði af sér á borgarstjórnarfundi í gær. Hann segir að afsögn sína megi rekja til átaka innan Framsóknarflokksins.

Björn Ingi birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem hann segir að fátt sé skemmtilegra en góð rökræða við pólitískan andstæðing og í þeim efnum sé engin ástæða til að kveinka sér þótt stundum sé tekist hressilega á. „En til er önnur hlið á þeim peningi. Hún er sú að jafnan standa stjórnmálamenn veikast þegar að þeim er sótt úr eigin röðum. Þá verða til sárindi sem erfitt er að græða, traustið veikist og ánægjan hverfur. Þegar gleðin er horfin, stendur lítið eftir.“

Björn Ingi sagði í samtali við Morgunblaðið að hann teldi þessa ákvörðun rétta og hann væri sáttur við hana. Hann sagðist líka telja þetta best fyrir Framsóknarflokkinn.

Spurður hvort þessi ákvörðun þýddi að hann væri að kveðja stjórnmálin fyrir fullt og allt sagði Björn Ingi: „Ég get ekki svarað því hvað gerist í framtíðinni. Ég hef ekki skráð mig úr Framsóknarflokknum. Þetta er eitthvað sem ég tel að hafi verið rétt fyrir mig að gera á þessum tímapunkti, enda eru ýmsir eldar búnir að brenna á mér. Og einhverjir eru þeirrar skoðunar að ég og einhverjir fleiri hafi verið vandamál innan Framsóknarflokksins. Nú kemur í ljós hvort það var rétt.“ Björn Ingi sagði ekkert liggja fyrir um hvað hann tæki sér fyrir hendur á næstunni.

Fulltrúar allra flokka kvöddu Björn Inga í ræðum sínum á fundi borgarstjórnar og voru ummæli þeirra öll hlý í hans garð. Var honum lýst sem svipmiklum og duglegum stjórnmálamanni sem ætti gott með að sjá björtu hliðarnar á öllum málum og hugsaði óvenjulega langt fram í tímann. Húmorista sem þætti fátt skemmtilegra en pólitískar rökræður við andstæðinga sína.

Yfirlýsingu Björns Inga má sjá í heild sinni á mbl.is: http://www.mbl.is/mm/frettir/

innlent/2008/01/24/bjorn_ingi_haettir/