Alþjóðasamfélagið hefur um langt skeið staðið frammi fyrir þeirri þraut að finna lausn á vandanum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Átökin á milli Ísraela og Palestínumanna hafa verið ofarlega á baugi í fréttaflutningi með reglulegu millibili í áraraðir.

Alþjóðasamfélagið hefur um langt skeið staðið frammi fyrir þeirri þraut að finna lausn á vandanum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Átökin á milli Ísraela og Palestínumanna hafa verið ofarlega á baugi í fréttaflutningi með reglulegu millibili í áraraðir. Af og til eru margar aðrar þjóðir nefndar til sögunnar í þessu óviðráðanlega samhengi, sem vitaskuld er til vitnis um hversu vandinn er djúpstæður. Vesturlönd eiga drjúgan þátt í þeim blóðugu átökum sem þarna eru í algleymingi – þau hafa haft ítök í þessum heimshluta svo lengi að ábyrgð þeirra er mikil. Ávinningurinn af tilraunum þeirra til að vinda ofan af vandanum er þó mjög vafasamur – ekki síst ef hann er mældur í þjáningum almennings.

Í fréttaflutningi Vesturlanda hafa menn keppst við að reyna að greina ástandið á þessu svæði í áratugi. Fjallað hefur verið um stjórnmálaástandið með þeim hætti er oft einkennir söguskýringar og pólitísk skrif þegar verið er að fást við það sem er í mikilli fjarlægð. Enda er fjarlægð það meðal sem iðulega er notað til að dreifa brennipunktinum; komast hjá því að gangast við þjáningum einstaklinga.

Þegar fréttir tóku að berast af því að almenningur væri tekinn að streyma í gegnum rofinn múrinn er umlykur Gaza og yfir til Egyptalands í vikunni breyttist þó brennipunktur fréttanna. Á fréttavef BBC var til að mynda sagt frá manni sem lyft var yfir höfuð mannfjöldans og inn í sjúkrabíl sem beið hans handan við múrinn. Jafnframt af fjölskyldum sem tvístrast höfðu vegna múrsins og gátu nú sameinast. Myndir af konum með börn í fanginu hafa blasað við heimsbyggðinni, því þúsundir manna nýttu tækifærið til að afla fjölskyldum sínum lífsviðurværis og eldsneytis.

Allt þetta minnir á það þegar annar múr féll árið 1989 í Berlín. Áhrifin á heimsbyggðina og langvarandi valdastrúktúr hennar eru kannski ekki þau sömu, en tilfinningar fólksins sem streymir yfir hljóta að vera áþekkar. Ef eitthvað er er fólkið á Gaza-svæðinu hungraðra og fátækara á öllum sviðum – innviðir samfélags þess eru í molum auk þess sem það býr við blóðug átök með reglulegu millibili.

Múrinn er öllum samningaviðræðum óþægur ljár í þúfu og það að hann hefur verið rofinn markar þáttaskil. Múrar vekja upp óhugnanlega minningar um sögulega fortíð bæði fyrir og eftir síðari heimsstyrjöld. Minningar tengdar útrýmingu saklauss fólks og síðar valdníðslu einræðis gagnvart heilum þjóðum.

Heimsbyggðin verður að vakna til meðvitundar um það að átökin á Gaza-svæðinu snúast ekki bara um skæruhernað og pólitík; þau snúast líka um aðgengi lítilla barna að mat, menntun, eldsneyti og öðrum grundvallarlífsgæðum. Þau snúast um aðgengi þeirra að mannsæmandi framtíð.