Mynstur með notagildi Snæfríð er iðnhönnuður að mennt, Sigríður prófessor í vöruhönnun. Bakvið þær sést Samhengis í Gallery Turpentine.
Mynstur með notagildi Snæfríð er iðnhönnuður að mennt, Sigríður prófessor í vöruhönnun. Bakvið þær sést Samhengis í Gallery Turpentine. — Árvakur/Árni Sæberg
Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is HÖNNUÐIRNIR Snæfríð Þorsteins og Sigríður Sigurjónsdóttir opna kl. 18 í dag hönnunarsýningu í Gallery Turpentine í Ingólfsstræti í Reykjavík, þá fyrstu í sögu gallerísins.

Eftir Helga Snæ Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

HÖNNUÐIRNIR Snæfríð Þorsteins og Sigríður Sigurjónsdóttir opna kl. 18 í dag hönnunarsýningu í Gallery Turpentine í Ingólfsstræti í Reykjavík, þá fyrstu í sögu gallerísins. Sýningin ber titilinn Hlutverk og er innblástur hönnunargripanna að mestu sóttur í mynstur tímans, meðvitaðar og ómeðvitaðar endurtekningar, tilbúin mynstur, huglæg mynstur og frávik sem ávallt einkenna hið mynstraða ferli, eins og þær stöllur lýsa því.

Rannsóknir dr. Magnúsar S. Magnússonar, vísindamanns og forstöðumanns Rannsóknarstofnunar um mannlegt atferli við Háskóla Íslands, er kveikjan að flestum gripanna á sýningunni. Hugbúnaður sem Magnús gerði, Theme , hefur með notkun gervigreindar varpað nýju ljósi á hulin mynstur í samskiptum, eða „líkan um hvernig atferli og þá sérstaklega samskiptaatferli er skipulagt í tíma sem endurtekin munstur en mikið er af mjög reglulegum og endurteknum tímamunstrum, sem fara algjörlega framhjá fólki,“ eins og segir í lýsingu á hugbúnaðinum á vefsíðu Nýsköpunarsjóðs. Í þessum mynstrum er að finna takt og endurtekningu, fegurð og kunnugleika og sá sem notar hinn hannaða hlut býr svo til sitt eigið hegðunarmynstur, að sögn Snæfríðar og Sigríðar. Sem dæmi taka þær verk á sýningunni, Samhengi, eitt af mynstrunum í því margskipta verki er fengið með því að lesa í boltaleik barna. Snæfríð segir áhugavert að atferlisrannsóknir gefi til kynna að þessar endurtekningar mannsins séu miklu dýpri og rútíneraðri en við gerum okkur grein fyrir. Henni hafi þótt það allt að því óhuggulegt.

Hönnun eða list?

Þegar blaðamaður virðir fyrir sér hina hönnuðu hluti á sýningunni er hönnun ekki það fyrsta sem kemur honum í hug heldur myndlist, hagnýtur tilgangur þeirra blasir ekki við. Snæfríð og Sigríður eru þó ekki lengi að sýna honum fram á notagildi hlutanna, t.d. í verkinu Frumuborg . Í því eða á er hægt að geyma hitt og þetta, dagblöð, farsíma, lykla, hvað sem manni dettur í hug. Sumir hlutirnir eru meiri sýningargripir en aðrir sölulegri. Sigríður tekur sem dæmi tískusýningar, þar séu oft sýnd föt sem varla nokkur maður myndi ganga í, en eru hönnun engu að síður. „Maður getur staðsett sig á svo mörgum stigum, mismunandi eftir aðstæðum hvað maður getur leyft sér hverju sinni,“ segir Snæfríð til frekari útskýringar. Sem dæmi um fagurlega hannaðan grip á sýningunni með klárt notagildi eru staurar með dagatölum á, sem bera heitið 2992 . Sá er fjöldi daganna á hverjum staur eða átta ár, tvö ár á hverri hlið. Snæfríð hannaði dagatölin ásamt Hildigunni Gunnarsdóttur, en saman reka þær hönnunarstofu. Mikil handavinna liggur að baki því dagatalið er silkiþrykkt á glanslakkaða staurana. Mikið og erfitt nákvæmnisverk sem er ekki á hvers manns færi. Reyndar bara einn maður sem treysti sér í það, að sögn Snæfríðar.

Snæfríð og Sigríður kalla verkin eða hlutina á sýningunni hirslur og grafísk verk, sem miði að því að koma skipulagi á óreiðu hversdagsins. Allir hlutir hafa sitt hlutverk og verk að baki hverjum hlut. Óreiða þarfnast skipulags, hönnunar. Gripirnir á sýningunni eru í takmörkuðu upplagi og allir til sölu.