Margur er knár þótt hann sé smár segir máltækið og á það ekki síst við um hinn nýja Fiat 500-bíl sem virðist ætla að slá sölumet víða.

Margur er knár þótt hann sé smár segir máltækið og á það ekki síst við um hinn nýja Fiat 500-bíl sem virðist ætla að slá sölumet víða. Sama máltæki gæti reyndar átt við hinn geðþekka ökuþór Ferrari-liðsins, Felipe Massa, en Ferrari-liðið hefur ákveðið að launa honum góðan árangur á síðasta ári með því að gefa honum nýjan Fiat 500-bíl í sérútgáfu.

Bíllinn sem um ræðir er útbúinn 120 hestafla vél, sem ætti að gera bílinn nokkuð sprækan, enda líklegast ekki hægt að bjóða Ferrari-ökuþórnum miklu minna en það, hvað þá hefðbundna útgáfu bílsins, þegar fyrir er í bílskúrnum Ferrari 599 sem hann fékk sömuleiðis gefins frá Maranello.

Á nýja bílnum er hvítt perlulakk, sem að sjálfsögðu er nýjasta tíska í dag, en margir halda því fram að hvítt sé hið nýja silfur. Jafnframt er innréttingin nokkuð gæðaleg því bíllinn er klæddur brúnu leðri. Afar smekklegt allt saman.

Fyrsti bíll Schumachers

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skiptið sem Ferrari gefur Fiat 500-bíl því forveri Filipes Massa, sjálfur Michael Schumacher, fékk að gjöf frá Ferrari forláta Fiat 500 en þó af upprunalegri gerð bílsins. Ástæða þess var sú að Fiat 500 ku hafa verið fyrsti bíll Michaels Schumachers og gera má ráð fyrir að bílnum hafi tengst góðar minningar.

Massa fær því nýjan Fiat 500 en Schumacher fékk gamlan og vel uppgerðan 500-bíl og er vissulega smekksatriði hvor sé fallegri eða meira spennandi. Eitt er þó víst, að útlitslega sækir nýi bíllinn mikið til þess gamla.