VÍSINDAMENN í Bandaríkjunum nálgast óðfluga það takmark að geta grætt nýru í mann án þess að hann þurfi það sem eftir er ævinnar að vera háður lyfjum, að sögn fréttavefs breska útvarpsins, BBC .

VÍSINDAMENN í Bandaríkjunum nálgast óðfluga það takmark að geta grætt nýru í mann án þess að hann þurfi það sem eftir er ævinnar að vera háður lyfjum, að sögn fréttavefs breska útvarpsins, BBC . Um er að ræða tvenns konar tækni sem gerðar hafa verið tilraunir með og í báðum tilfellum hafa nýrnasjúklingarnir getað sleppt lyfjunum.

Skýrt var frá tilraununum, sem gerðar voru við Stanford-háskóla í Kaliforníu og Aðalsjúkrahús Massachusetts, í læknaritinu New England Journal of Medicine . Umrædd lyf nýrnasjúklinga valda margvíslegum aukaverkunum og geta jafnvel ýtt undir krabbamein. Sé ígrætt nýra ekki úr eineggja tvíburasystkini sjúklingsins bregst líkaminn við nýja nýranu sem varasömum aðskotahlut. Nýrnaþeginn þarf því að taka stöðugt öflug lyf er bæla niður viðbrögð ónæmiskerfisins en það merkir að hættan á sýkingum eykst mjög, einnig hækkar blóðþrýstingur og magn kólesteróls og loks geta myndast krabbamein.

Breskir sérfræðingar álíta tilraunirnar vestra afar áhugaverðar. En þeir segja jafnframt að stærsti vandinn verði eftir sem áður hve erfitt sé að finna nýrnagjafa.