— Árvakur/Ómar
Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.is „Í dag ætti að kjósa. Ekki hér í ráðhúsinu, heldur í borginni allri,“ sagði Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, þegar hann steig í pontu á borgarstjórnarfundi í gær.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

„Í dag ætti að kjósa. Ekki hér í ráðhúsinu, heldur í borginni allri,“ sagði Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, þegar hann steig í pontu á borgarstjórnarfundi í gær. Aukafundur hafði verið boðaður til að ganga frá myndun nýs meirihlutasamstarfs í borginni milli borgarfulltrúa sjálfstæðismanna og Ólafs F. Magnússonar, fulltrúa F-lista.

Dagur sagði fólki misboðið. „Verið er að misbjóða lýðræðinu, misbjóða umboði og misbjóða valdi. Það hefur smám saman komið í ljós að þessi meirihlutamyndun er byggð á blekkingum, skorti á upplýsingum og fljótfærnislegum vinnubrögðum í einhverjum veruleika sem við höfum aldrei kynnst í íslenskri pólitík.“

Söguleg mótmæli

Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri grænna, sagði fráfarandi meirihluta hafa náð að skipta um valdhafa í kjölfar REI-málsins í október síðastliðnum og að það gæti hann aftur. „Ég vil ekki leggja neina dul á það að ég tel brýna nauðsyn að koma þessum meirihluta frá.“

Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna sem stóðu að fráfarandi meirihluta boðuðu til mótmæla í og við ráðhúsið vegna valdaskiptanna. Mótmælendur gerðu ítrekað hróp og köll að nýjum valdhöfum. Að endingu var gert hlé á fundinum á meðan að áhorfendapallar voru rýmdir. Fundurinn hófst síðan á ný klukkan hálf þrjú.

Vildu halda Ólafi í gíslingu

Vilhjálmur segir að sér hafi þótt mótmælin mjög sorgleg. „Það er frumskylda allra að gefa borgarstjórn Reykjavíkur frið og tækifæri til að ræða sín mál. Þetta gekk allt of langt í dag.“

Honum þykir þær aðdróttanir sem beinst hafa að Ólafi á undanförnum dögum afar dapurlegar. „Það hafa ákveðnir aðilar verið með allskonar dylgjur í hans garð og reynt að gera hann tortryggilegan. Mér þykir þessi framkoma ekki sæmandi þessu fólki. Ólafur vildi einfaldlega ekki starfa lengur með þeim meirihluta sem hann var í og við vorum ekki með nein klækjabrögð við myndun þessa samstarfs. Með þessu gefa þau til kynna að þau hefðu viljað halda honum í gíslingu í fráfarandi meirihluta.“

Í hnotskurn
Aukafundur var haldinn í borgarstjórn Reykjavíkur klukkan korter yfir tólf í gær vegna myndunar nýs meirihluta í borginni. Ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna sem stóðu að fráfarandi meirihluta boðuðu mótmæli við ráðhúsið vegna þessa. Gera þurfti hlé á borgarstjórnarfundi vegna óláta mótmælendanna.