Markahrókur Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaðurinn fjölhæfi, skoraði flest mörk Íslands á EM í Noregi, samtals 34 mörk.
Markahrókur Guðjón Valur Sigurðsson, leikmaðurinn fjölhæfi, skoraði flest mörk Íslands á EM í Noregi, samtals 34 mörk. — Árvakur/Golli
„VARNARLEIKURINN var lélegur, markvarslan nánst engin og það var líkamlega mikill munur liðunum, sagði Alfreð Gíslason við Morgunblaðið eftir að hafa stjórnað íslenska liðinu í síðasta sinn í leik gegn Spánverjum á Evrópumótinu. Sex marka tap var staðreynd, 33:26 og 11. sætið á mótinu.

Eftir Guðmund Hilmarsson í Þrándheimi

gummih@mbl.is

,,Okkur skortir meiri breidd og við þurfum að fá fleiri leikmenn sem geta spilað jafnt vörn og sókn. Það er eitt af stóru vandamálunum. Sverrir, Sigfús spila bara vörn, Logi og Einar spila enga vörn, Ólafur spilar litla vörn eins og er. Það ætti að verða reglan heima á Íslandi núna að þeir sem spila eingöngu vörn eða bara sókn geti alveg eins verið heima hjá sér. Við megum ekki við miklu til að eiga litla sem enga möguleika gegn þeim bestu. Það vantar miklu meiri hæð í okkar lið. Útispilararnir sem við höfum eru 5 til 10 sentimetrum lægri en sambærilegir leikmenn hjá öðrum þjóðum. Það eru koma upp margir góðir handboltamenn hjá okkur en við erum að dragast aftur úr hvað líkamlegan styrk varðar.“

Ef þú dregur þetta saman þá hlýtur niðurstaðan á mótinu að vera þér vonbrigði?

,,Auðvitað ætluðum við okkur meira en niðurstaðan varð. Ég sagði alltaf að það þyrfti að ganga allt upp ef okkur ætti að takast að ná langt. Okkur vantar skyttur í liðið og við megum ekki við því á móti eins og þessu að missa Óla út í einn og hálfan leik. Garcia lenti í hremmingum, Logi fann sig ekki sem og Einar sem kom hingað úr algjöru niðurbroti hjá Flensburg og náði sér aldrei á strik, ekki síst andlega. Við höfum því verið með mörg vandamál við að etja. Útispilarapakkinn er of rýr þessa stundina og meðan svo er verður þetta erfitt. Það var ansi slæmt að missa Garcia úr leik og ég tala nú ekki um Arnór Atlason. Arnór hefði nýst mjög vel því hann þekkir taktíkina út í gegn sem Logi gerir ekki og þá er Garcia ein okkar mesta skytta og ágætur varnarmaður,“ sagði Alfreð.

Var það kannski ofmat hjá þér að stefna svona hátt með liðið fyrir keppnina?

,,Ef ég hefði sagt við ykkur fréttamenn fyrir keppnina að við ættum ekki möguleika og yrðum bara ánægðir að komast upp úr riðlinum þá hefðu sjálfsagt verið sagðar fréttir af því hvaða metnaðarleysi væri ríkjandi hjá mér og HSÍ. Ég gerði það viljandi að setja þessi markmið en auðvitað reiknaði ég með betra liði hjá okkur á mótinu og átti mér von um að svo yrði. Ég hef oft í þessari keppni hugsað til liðsins sem var í B-keppninni 1989 og keppti á HM í Tékkóslóvakíu. Ef þú berð þetta lið saman við það sem við höfum í dag, þá á ég við samsetninguna, þá var liðið '89 miklu líkamlegra sterkara þar sem flestallir leikmenn gátu spilað vörn og sókn. Við verðum að draga þann lærdóm fyrir yngri landsliðin að það fer enginn úr landi þó svo hann sé góður sóknarleikmaður ef hann getur ekki spilað vörn,“ sagði Alfreð Gíslason, fráfarandi landsliðsþjálfari í handknattleik.