Richardt Svendsen fæddist í Give Aars á Norður-Jótlandi í Danmörku 29. júní 1948. Hann andaðist á líknardeild Landspítalans 17. janúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík 24. janúar.

Í dag kveðjum við elskulegan mág minn, Rikka. Það var fyrir um 40 árum sem Rikki kom fyrst til Íslands. Umskiptin voru mikil fyrir þennan rúmlega tvítuga mann. Hann hafði aldrei farið út fyrir Danmörku en kom nú í land elds og ísa með ógnvænlegum fjöllum. Rikki kom úr brotinni fjölskyldu í Danmörku en féll strax vel inn í fjölskyldu mína. Lét hann oft þau orð falla hve hann var ánægður með þessa nýju fjölskyldu. Reyndist hann tengdaforeldrum sínum eins og besti sonur og annaðist þau með mikilli hlýju og virðingu á þeirra síðustu árum.

Ræturnar toga alltaf í og þráði Rikki fyrstu árin að flytja aftur til Danmerkur og búa þar. Þangað flutti hann ásamt systur minni og tveimur ungum sonum árið 1977. Dvölin var aðeins eitt ár – Rikki fann að hann var orðinn meiri Íslendingur en Dani. Þráin eftir dvöl í Danmörku var yfirunnin og hann ákvað að dvelja á Íslandi það sem eftir væri.

Áður en Rikki kom til Íslands hafði hann unnið við þjálfun hesta þar sem knapinn situr í kerru. Fyrstu ár sín á Íslandi reyndi hann að innleiða þessa íþrótt en tókst það ekki fyrr en löngu síðar. Fyrir nokkrum árum eignaðist hann nokkra hesta en gat lítið farið á hestbak vegna heilsunnar sem fór að versna fyrir um 10 árum. Rikki var ótrúlega fróður um dýr og dýralíf og leið honum mjög vel meðal þeirra. Minnisstæð er ferð á Hornstrandir sumarið 2006 þegar allir fóru í gönguferðir en Rikki lá fyrir utan tófugreni í marga tíma og lék sér með tófunum og yrðlingunum.

Rikki var dulur og flíkaði ekki tilfinningum sínum en að sama skapi kunni hann að njóta augnabliksins og naut sín sjaldan betur en með mörgu fólki. Hann gat verið hrókur alls fagnaðar þegar þannig lá á honum. Ef honum líkaði ekki við fólk gat hann sýnt það með látbragði en lét aldrei ill orð falla um nokkurn mann. Ef honum líkaði vel við fólk lét hann það óspart í ljósi. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur og það skipti hann engu máli hvað öðrum fannst um hann.

Frá fyrstu kynnum kom Rikki fram við mig eins og litlu systur sína og það breyttist ekkert þó að árin liðu. Ég var jafningi hans hvort sem ég var barn eða fullorðinn. Hann átti auðvelt með að ná til barna. Sum börn voru feimin við stríðnina hjá honum en hann gafst ekki upp fyrr en hann hafði náð til þeirra. Hann gat sýnt fádæma þolinmæði gagnvart börnum eins og þegar honum tókst að aðstoða son minn við að yfirvinna vatnshræðslu. Hann gafst ekki upp fyrr en vatnshræðslan var horfin.

Að leiðarlokum kveð ég minn kæra mág og þakka honum hlýhug í minn garð á liðnum árum. Minning hans mun lifa í hjarta okkar allra um ókomna framtíð.

Auðbjörg.

Við fráfall „frænda“ og vinar, Rikka, skjóta upp kollinum fjölmargar ánægulegar minningar í gegnum tíðina. Þetta eru minningar frá ferðalögum, fjölskylduboðum og öðrum samverustundum. Rikki var með eindæmum stríðinn og tók oft upp á ólíklegustu hlutum eins og t.d. að raða húsgögnum fyrir framan útidyrnar heima þegar við vorum á leið heim úr löngu ferðalagi eða koma mömmu að óvörum með því að banka á gluggann úr myrkrinu með tilheyrandi ópum og skelfingarhljóðum mömmu en kátínu okkar.

Rikki átti oft innihaldsríkar samræður við okkur þar sem hann ræddi við okkur sem jafningja og sagði okkur sögur af sjálfum sér þegar hann var ungur maður. Rikki hafði áhuga á því sem við vorum að gera, einkum íþróttaiðkun okkar, þar sem hann hafði sjálfur náð góðum árangri í spretthlaupum í danska hernum (10,70 sek. í 100 m hlaupi!). Hann fór oft með okkur í ökuferðir í fjölmörgum glæsilegum bílum og sýndi okkur hestana sína.

Í minningunni var Rikki ávallt kátur og skemmtilegur. Hann skemmti fólki í kringum sig og var hrókur alls fagnaðar í margmenni. Við þökkum Rikka fyrir einstaklega góð kynni og skemmtilegan tíma. Þín verður sárt saknað.

Leifur, Kolbeinn og Kaðlín.

Það var fyrir rúmum þrjátíu árum að Lars kom heim og sagðist hafa hitt danskan strák frá Álaborg, sínum heimabæ, hann ætti konu og tvo unga syni, og að hann hefði boðið þeim í heimsókn. Þannig urðu okkar fyrstu kynni og varð upphafið að vináttu sem staðið hefur síðan.

Rikki flutti til Íslands upp úr 1970 og hefur búið hér nánast allar götur síðan. Hann var þó mikill Dani og saknaði heimalands síns mjög og var eiginlega alltaf á leiðinni heim og allt fannst honum best þar, en þetta breyttist með árunum og varð hann meiri Íslendingur en margir og naut þess að ferðast um landið og einnig fór hann að stússast í hestamennsku og gaf það honum mikið. Rikki var mikill dýravinur og náttúrubarn.

Í mörg ár bjuggum við í sama hverfi og var hjálpsemi Rikka vel metin, hann átti sendiferðabíl, en það var hans aðalstarf um margra ára skeið að vera bílstjóri og alltaf var hægt að leita til hans ef á þurfti að halda. Það var alltaf notalegt að koma til Heiðu og Rikka og tekið vel á móti fólki, enda var þar mikið um gestagang.

Fyrir nokkrum árum eignuðust Rikki og Heiða ásamt börnum sínum sumarbústað á fallegum stað. Þar sóttum við þau nokkrum sinnum heim og er sérstaklega minnisstæð fyrsta heimsóknin, í björtu og fallegu septemberveðri, við vorum að skima eftir bústaðnum þegar við sáum Rikka standa og veifa með danska og íslenska fánanum á veröndinni, þá var hann frískur og við sátum í heita pottinum og horfðum á ægifagurt útsýnið, Hekla blasti við annars vegar og jöklar og fjöll hins vegar. Þarna áttum við góða helgi saman og hafði Rikki plön um að gróðursetja tré á berangrinum.

Við vorum nokkrum sinnum samtíða Heiðu og Rikka í Álaborg og fórum þá gjarna saman á „Travbanen“ þar sem hestaveðhlaup eru haldin í hverri viku og þar var Rikki í essinu sínu, hafði enda verið „jockey“ þar á sínum yngri árum, og þar fengum við „tips“ frá föður og bræðrum Rikka en þeir feðgar áttu þetta sameiginlega áhugamál.

Síðustu ár hafa verið Rikka erfið, heilsuleysi herjaði á og einn sjúkdómur tók við af öðrum, hann var þó æðrulaus til hinstu stundar. Kletturinn í lífi Rikka var hún Heiða, sem hann kynntist í Danmörku þegar hún var þar við leik og störf, og stóðu þau þétt saman í lífinu. Í síðasta bylnum stóra annaðist Heiða Rikka af fádæma alúð, ásamt börnum sínum. Þau eignuðust þrjú börn sem eru foreldrum sínum til mikils sóma og þrjú barnabörn sem nú sakna afa síns. Það er við hæfi að enda þessar línur á ljóði eftir landa hans H.C. Andersen:

I Danmark er jeg født, der har jeg hjemme,

der har jeg Rod, derfra min Verden gaaer.

Du danske Sprog, Du er min Moders Stemme,

saa sødt velsignet Du mit Hjerte naaer.

Du danske friske Strand,

hvor Oldtids Kjæmpegrave

staae mellem Æblegaard og Humlehave,

Dig elsker jeg! – Danmark, mit Fædreland!

Við kveðjum Rikka með virðingu og þökk.

Heiðrún og Lars.