Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@24stundir.is Landhelgisgæslan stefnir að því geta fylgst með allri umferð skipa og smábáta samfellt frá Vestmannaeyjum og út Faxaflóa með strandratsjám.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@24stundir.is

Landhelgisgæslan stefnir að því geta fylgst með allri umferð skipa og smábáta samfellt frá Vestmannaeyjum og út Faxaflóa með strandratsjám.

Til þess að það verði hægt þarf að setja upp strandratsjá á fjallinu Þorbirni við Grindavík til viðbótar við slíka ratsjá sem þegar er í Vestmannaeyjum.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landshelgisgæslunnar, segir að helst þyrfti að setja upp slíkar ratsjár meðfram allri strandlengju landsins til að mæta stóraukinni umferð smábáta og framtíðarumferð stórra olíuskipa.

500 olíuskip 2015

Samkvæmt skýrslu Norðurheimskautsráðsins, „Breaking the ice,“ er áætlað að 500 stór olíuskip muni sigla frá Barentshafi til Norður-Ameríku árlega árið 2015. Þau skip munu að einhverju leyti sigla vestur fyrir Ísland.

Auk þess hefur umferð smábáta aukist mikið við strendur landsins.

Georg segir þó mikilvægt að forgangsraða. „Í dag er mikilvægast að koma upp ratsjá á Þorbirni vegna siglingaleiðanna um Reykjanes. Auk þess hefur umferð smábáta líka stóraukist og það er ekki hvað síst þess vegna sem við teljum mikilvægt að setja upp ratsjá þar núna.“

Gylfi Geirsson, forstöðumaður fjareftirlits Landhelgisgæslunnar, segir að nýja ratsjáin myndi verða til þess að samfella myndist í ratsjáreftirliti frá Vestmannaeyjum og inn Faxaflóa. „Við Reykjanesskagann eru bannsvæði fyrir siglingar stærri skipa og þetta verður fyrst og fremst til þess að fylgjast með siglingaleiðunum en á sama tíma getum við fylgst með almennri skipaumferð.“

Þarf 10 til 14 til viðbótar

Til að hægt verði að fylgjast með allri umferð skipa og báta með þessum hætti þyrfti að fjárfesta í 10 til 14 strandratsjám til viðbótar.

Að sögn Gylfa myndi hver þeirra kosta á bilinu 20 til 25 milljónir króna samkvæmt grófum útreikningum. „Það er því töluverður kostnaður við þetta, en eftir því sem ratsjárnar verða fleiri þá lækkar kostnaðurinn enda gefur úrvinnsluforritið möguleika á að stækka það án þess að setja upp nýtt. Þannig getur endabúnaðurinn samnýst fyrir margar ratsjár og því má segja að einstök ratsjá með endabúnaði myndi kosta á þessu bili. En síðan myndu um 50 prósent ratsjánna geta samnýtt hvern endabúnað.“

Í hnotskurn
Strandratsjár geta fylgst með öllum skipum og bátum óháð því hvort þeir eru með kveikt á tilkynningarbúnaði sínum eður ei. Samkvæmt skýrslu Norðurheimskautaráðsins er áætlað að 500 stór olíuskip sigli frá Barentshafi til Norður-Ameríku árið 2015. Þau skip munu að einhverju leyti sigla vestur fyrir Íslandsstrendur.