Ylur í húsin Guðmundur Helgi Kristjánsson, Ólafur Stefánsson og Sigurbjörn Pálsson unnu við að tengja eitt húsið á Hofsósi.
Ylur í húsin Guðmundur Helgi Kristjánsson, Ólafur Stefánsson og Sigurbjörn Pálsson unnu við að tengja eitt húsið á Hofsósi. — Morgunblaðið/Örn Þórarinsson
Eftir Örn Þórarinsson Hofsós | Unnið er að því að tengja hús á Hofsósi við hitaveitu. Lagning stofnæðar hitaveitunnar frá borholu í Hrollleifsdal í Sléttuhlíð til Hofsóss, sem er um 12 kílómetra leið, lauk fyrir jól.

Eftir Örn Þórarinsson

Hofsós | Unnið er að því að tengja hús á Hofsósi við hitaveitu. Lagning stofnæðar hitaveitunnar frá borholu í Hrollleifsdal í Sléttuhlíð til Hofsóss, sem er um 12 kílómetra leið, lauk fyrir jól. Þá var einnig búið að leggja heimæðar um þorpið. Raunar komu heimamenn saman í félagsheimilinu og héldu veislu af þessu tilefni.

Að sögn Páls Pálssonar, veitustjóra hjá Skagafjarðarveitum, munu alls um 130 hús tengjast hitaveitunni, þar af eru um 100 á Hofsósi en hin eru á sveitabæjum á leiðinni auk þess sem lagt verður inn í Unadal og á bæi í Sléttuhlíð. Nú er verið að grafa heimæðar að sveitabæjunum í jörð og hefur það gengið ágætlega því enn er ekki frost í jörðu svo teljandi sé.

Fyrirtækið Vinnuvélar Símonar Skarphéðinssonar á Sauðárkróki er verktaki við lagningu veitunnar og sér um að koma rörum heim að húsvegg væntanlegra notenda. Verklok eru ekki samkvæmt samningi fyrr en 1. september í haust. Að sögn Páls veitustjóra er ljóst að það mun taka nokkrar vikur að tengja hús á Hofsósi við veituna. Í allmörgum húsum þarf að gera verulegar breytingar á lögnum og jafnvel leggja algerlega nýtt ásamt því að skipta um miðstöðvarofna.

Alls fara um 50 kílómetrar af rörum í hitaveitulögnina. Vatnið á að vera um 72 stiga heitt á Hofsósi þegar veitan verður komin í fullan gang.