Blóð Bíldar fundust á Skriðuklaustri en þeir voru notaðir við blóðtöku.
Blóð Bíldar fundust á Skriðuklaustri en þeir voru notaðir við blóðtöku. — Ljósmynd/Þjóðminjasafnið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lækningaáhöld frá miðöldum hafa fundist við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri. Þau benda til þess að í klaustrinu hafi verið hlynnt að sjúkum.

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

ANNETTE Frölich, danskur læknir og fornleifafræðingur, telur víst að meðal muna sem fundust við fornleifauppgröft á Skriðuklaustri séu lækningaáhöld. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur telur þessa niðurstöðu gefa tilefni til að endurmeta hlutverk kaþólskra klaustra hér á landi.

Annette Frölich, sem er sérfræðingur í greiningu fornra lækningaáhalda, telur víst að á Skriðuklaustri hafi fundist tveir bíldar, sérhæfð áhöld til blóðtöku, og að öllum líkindum önnur tvö slík áhöld til viðbótar, en þau þarfnast nánari skoðunar. Annette sá þau áhöld í stuttri heimsókn í fyrrasumar en mældi þau ekki þá. Þessi áhöld eru enn fyrir austan. Einnig fundust nálar, m.a. nál til að stinga á kýlum, og skurðhnífar. Hún telur líklegt að þessi áhöld hafi verið notuð til lækninga í Skriðuklaustri á 16. öld. Skriðuklaustur var stofnað 1493 og lagt af við siðbreytinguna 1550.

Annette þótti þessi fundur einkar athyglisverður því hún hefur séð nákvæmlega eins áhöld í Svíþjóð. Þar hafa forn lækningaáhöld m.a. fundist við fornleifauppgrefti í Birka, Helgö og Uppåkra. Annette telur sænsku áhöldin eldri en þau sem fundust á Skriðuklaustri.

Annette sagði ritaðar heimildir geta þess að prestar eða munkar úr reglu Ágústínusar hafi stundað blóðtöku í lækningaskyni. Áhöldin séu til sannindamerkis um það. Skurðarhnífa og nálar mátti m.a. nota til að gera að sárum. Annette kvaðst eiga eftir að fá nánari upplýsingar um hvar í Skriðuklaustri þessi áhöld fundust, en það geti sagt mikla sögu.

„Svo virðist sem kórbræðurnir hafi getað meðhöndlað fólk samkvæmt læknisfræðiþekkingu á síðmiðöldum. Þeir gátu einnig gert að sárum og þarna kann því að hafa verið einhvers konar sjúkrahús eða starfsemi til að líkna fólki sem var hjálparþurfi,“ sagði Annette.

Áhöldin sýna að Íslendingar hafi verið í tengslum við Evrópu á þessum tíma og því kemur ekki á óvart að lækningaáhöldin séu nákvæmlega eins og þau sem fundist hafa á Norðurlöndum, að sögn Annette. Hún sagði að hnífum og skurðarhnífum frá Skriðuklaustri svipi einnig til slíkra áhalda sem fundist hafa í Mið-Evrópu. „Ég tel að þessir fáu hlutir segi okkur talsvert mikið,“ sagði Annette. Hún telur líklegt að menn hafi farið héðan til að afla sér þekkingar á lækningum og eins að læknisfróðir frá nágrannalöndum hafi komið hingað. Þá nefndi Annette að ritaðar heimildir sem séu tveimur öldum eldri en Skriðuklaustur greini frá manni sem fór frá Íslandi til Evrópu og lærði við háskóla og lækningamiðstöðvar að meðhöndla sjúka. Hann hafi síðan snúið aftur til Íslands. Eins greini fornsögurnar frá því að hér hafi fólk kunnað að gera að sárum.

Endurskoða þarf kenningar um hlutverk klaustranna

Dr. Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur og lektor í fornleifafræði við HÍ, sem stjórnað hefur fornleifarannsókninni á Skriðuklaustri, sagði að þrátt fyrir stuttan starfstíma klaustursins hafi umsvif verið þar mikil. Hún sagði að miklar plágur hafi gengið á 15. öld sem ef til vill hafi hvatt til stofnunar klausturs sem sinnti sjúkum.

„Við erum orðin nokkuð sannfærð um að það hafi verið sjúkrahús í Skriðuklaustri,“ sagði Steinunn. Það byggir hún meðal annars á greiningu Annette Frölich sem hefur staðfest tilvist lækningaáhalda og ummerkjum á beinagrindum úr kirkjugarðinum. Þær bera nánast allar skýr einkenni langvinnra sjúkdóma eins og berkla, sulls og sárasóttar og meiðsla á borð við beinbrot. Einnig segir Steinunn að lækningajurtir hafi verið ræktaðar í garðinum.

Steinunn segir ljóst að íslensku klaustrin hafi sinnt samfélagsþjónustu líkt og klaustur í öðrum löndum. Fólk hafi leitað þangað af ýmsum ástæðum, ekki síst til að leita sér lækninga, og það sé þekkt frá öðrum löndum einnig. Steinunn telur þetta gefa tilefni til að endurskoða þá kenningu að klaustur á Íslandi hafi verið frábrugðin klaustrum í öðrum löndum. Því hafi verið haldið fram að klaustrin hér hafi verið lítil og aðallega valdastofnanir.

„Það mætti setja spurningarmerki við hvort við getum haldið því fram að íslensk klaustur hafi skorið sig úr öðrum klaustrum. Að Íslendingar hafi getað rekið þau að eigin geðþótta? Vísbendingar frá Skriðuklaustri benda til annars,“ sagði Steinunn. Eitt af hlutverkum Ágústínusarklaustra var að sinna sjúkum og var það gert í sérstöku rými. Steinunn segir tiltekin rými í Skriðuklaustri koma til greina sem sjúkrastofur. M.a. hitunarhús eða hitunarherbergi sem var upphitað og verður það rannsakað nánar.