Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson
Sígandi lukka er bezt, sagði Bjarni heitinn Benediktsson, hinn mikli foringi Sjálfstæðismanna, oft í ræðum sínum.

Sígandi lukka er bezt, sagði Bjarni heitinn Benediktsson, hinn mikli foringi Sjálfstæðismanna, oft í ræðum sínum.

Kannski hefði verið farsælla fyrir Björn Inga Hrafnsson, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í Reykjavík, ef hann hefði ekki farið svo hratt eftir hinni pólitísku framabraut eftir að hann hætti störfum á ritstjórn Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum.

Hann varð á mjög skömmum tíma einn nánasti ráðgjafi Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins. Sá skjóti frami hefur áreiðanlega skapað honum marga óvildarmenn innan Framsóknarflokksins.

Hinn pólitíski árangur Björns Inga var sá að tryggja flokki sínum sæti í borgarstjórn Reykjavíkur við erfiðar aðstæður og aðild að meirihluta að kosningum loknum.

Þegar horft er til baka hafa mestu pólitísku mistök hans sennilega verið þau að rjúfa meirihlutasamstarf sitt og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórninni.

Björn Ingi var orðinn eitt af leiðtogaefnum Framsóknarflokksins.

Nú hefur hann komizt að þeirri niðurstöðu, að hann sé ekki tilbúinn til að fórna því, sem fórna þarf til þess að ná þeirri stöðu.

Enginn, sem þekkir til pólitískrar baráttu á Íslandi getur gagnrýnt hann fyrir þá niðurstöðu.

Ætli hún sé endanleg? Stjórnmálamenn vilja alltaf koma aftur.