Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing: „Að undanförnu hefur verið fjallað um samninga STEFs við útvarpsstöðvar í Morgunblaðinu og m.a.
Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing:

„Að undanförnu hefur verið fjallað um samninga STEFs við útvarpsstöðvar í Morgunblaðinu og m.a. gefið í skyn að við gerð og túlkun þessara samninga hafi hagsmuna tónskálda og tónhöfunda ekki verið gætt sem skyldi. Af þessu tilefni vil ég undirritaður að eftirfarandi komi fram:

Samningar STEFs við einstakar útvarpsstöðvar um heimild til þess að flytja í hljóðvarpi og sjónvarpi tónlist, sem verndar nýtur samkvæmt höfundalögum, eru byggðir á ákvæðum í 23. gr. þeirra laga. Samkvæmt samningunum er stöðvunum heimilt að flytja í dagskrám sínum hvaða tónlist sem er, jafnt innlenda sem erlenda, án leyfis hlutaðeigandi höfunda hverju sinni. Fyrir flutning tónlistarinnar greiða stöðvarnar STEFi umsamið endurgjald og sjá samtökin síðan um að úthluta greiðslum fyrir tónflutninginn til höfunda tónlistarinnar sem flutt hefur verið. Þess má geta að í fyrra fengu hátt á annað þúsund höfundar og aðrir rétthafar úthlutað slíkum höfundagreiðslum frá STEFi hér á Íslandi, auk þess sem mörg þúsund erlendum rétthöfum var greitt fyrir flutning á tónlist þeirra fyrir milligöngu systursamtaka STEFs víðs vegar um heim.

Sú tilhögun að útvarpsstöðvar öðlist almenna heimild höfundaréttarsamtaka til að flytja tónlist í dagskrám sínum, án þess að leita þurfi leyfis hlutaðeigandi höfunda í hvert skipti, er við lýði í öllum þeim ríkjum heims, þar sem höfundaréttur er á annað borð virtur. Þetta fyrirkomulag er ekki aðeins hagkvæmt fyrir stöðvarnar, heldur einnig þá, sem hlusta á hljóðvarp og horfa á sjónvarp, vegna þess að með þessu móti eiga þeir kost á að njóta afar fjölbreyttrar tónlistar gegn tiltölulega vægu verði.

Heimild útvarpsstöðva til flutnings tónlistar er hins vegar ekki takmarkalaus. Má sem dæmi nefna að notkun tónlistar í auglýsingum og öðrum kynningum á einstökum fyrirtækjum, vöru og þjónustu og flutningur á slíkri auglýsingatónlist í útvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) fellur utan samninga STEFs við útvarpsstöðvarnar. Það þýðir að auglýsendur verða sjálfir að semja við hlutaðeigandi höfunda um að fá að nota tónlist þeirra í slíkar auglýsingar og greiða þeim fyrir þau not, þ. á m. fyrir flutning tónlistarinnar í útvarpi, án milligöngu STEFs.

Önnur takmörkun er fólgin í sæmdarrétti höfunda, sbr. 4. gr. höfundalaga, þar sem segir m.a. að ekki megi birta verk höfundar með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Af þessum rétti leiðir t.d. að óheimilt er að nota tónlist höfundar í kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum nema með hans samþykki. Liggi samþykki hans fyrir er greitt fyrir flutning tónlistarinnar í kvikmyndum og þáttum, sem sýndir eru í sjónvarpi, samkvæmt samningi STEFs við þá útvarpsstöð, sem hlut á að máli, og greiðslum fyrir þann tónflutning síðan úthlutað til höfundarins, eins og að framan greinir.

Samningar STEFs við útvarpsstöðvarnar hafa ávallt verið skýrðir þannig að heimild stöðvanna til þess að flytja tónlist í dagskrám sínum taki til hvers kyns dagskrárkynninga, svo framarlega sem ekki sé verið að kynna þar einstök fyrirtæki, vöru eða þjónustu, enda má segja að slíkar kynningar séu hluti af dagskránum sjálfum. Þessar kynningar eru með margvíslegu móti og þar af leiðandi er erfitt að taka einhverjar þeirra út úr og gera kröfu til þess að í þeim tilvikum sé í hvert sinn leitað samþykkis hlutaðeigandi höfunda áður en tónlist þeirra er notuð. Það að gera það að reglu að samþykkis höfunda verði leitað í hvert skipti, sem tónlist er notuð til kynningar á útvarpsdagskrá, gæti leitt til þess að útvarpsstöðvarnar færu að draga úr notkun tónlistar í þeim kynningum, en það myndi aftur skaða höfunda sem margir hverjir hafa verið að fá dágóðar greiðslur fyrir flutning á tónlist sinni í þessum tilvikum.

STEF hefur frá fyrstu tíð haft það á stefnuskrá sinni að tónskáld og tónhöfundar fái sem mest greitt fyrir notkun á tónlist sinni. Það er skoðun okkar, sem erum í fyrirsvari fyrir samtökin, að tónlistin sé ennþá ódýrasta „pródúseraða“ efnið sem útvarpsstöðvunum býðst, enda þótt greiðslur til höfunda hafi sem betur fer farið vaxandi síðustu árin. Við vildum því gjarnan að endurgjald stöðvanna fyrir allan þann tónflutning, sem á sér stað í útvarpi, yrði hækkað frá því sem nú er. Útvarpsstöðvarnar eru hins vegar mikilvægir viðskiptavinir STEFs sem við kjósum að eiga góð samskipti við. Þess vegna er mikilvægt að báðir aðilar virði gerða samninga, enda þótt þeir kunni ekki að vera að öllu leyti sáttir við þá.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að við, sem erum í fyrirsvari fyrir STEF, hikum ekki við að gæta hagsmuna höfunda og leita réttar þeirra, jafnvel þótt slíkt kunni að vera erfitt eða flókið. Það vita þeir gjörla sem best þekkja til samtakanna. Aftur á móti verðum við ávallt að gæta þess að með því að ganga erinda einstakra höfunda séum við ekki í leiðinni að skaða hagsmuni annarra og jafnvel enn stærri hóps höfunda.

Að því er varðar það mál, sem hefur orðið kveikjan að fyrrgreindri umfjöllun Morgunblaðsins, þá verður það að sjálfsögðu skoðað, eins og önnur slík erindi sem STEFi berast, og reynt að leita lausnar á því með hagsmuni tónhöfunda að leiðarljósi. Vil ég ekki tjá mig frekar um það, að svo stöddu.

Virðingarfyllst,

Eiríkur Tómasson,

framkvæmdastjóri STEFs.“