Rudy Giuliani
Rudy Giuliani
ILLA horfir fyrir Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra í New York, í forkosningum repúblikana í Flórída en allar hans áætlanir hafa miðast við að komast aftur inn í leikinn með góðum sigri þar.

ILLA horfir fyrir Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóra í New York, í forkosningum repúblikana í Flórída en allar hans áætlanir hafa miðast við að komast aftur inn í leikinn með góðum sigri þar. Í nýrri könnun er John McCain kominn með 10 prósentustiga forskot á Giuliani.

Í könnuninni, sem birtist í St. Petersburg Times , fær McCain 25% atkvæða en á hæla honum kemur síðan Mitt Romney, fyrrverandi ríkisstjóri í Massachusetts, með 23%. Giuliani rekur lestina með 15%. Í nóvember síðastliðnum var Giuliani með 17 prósentustig umfram næsta keppinaut sinn í Flórída. Hann ákvað hins vegar að sneiða hjá forkosningum í smáríkjum eins og Iowa og New Hampshire en það varð til þess, að hann hefur ekkert verið í sviðsljósinu.

„Þessi ákvörðun hans á eftir að komast á spjöld sögunnar sem eitthvert mesta stjórnmálaklúður fyrr og síðar,“ sagði skoðanakannanamaðurinn Tom Eldon. Í viðtali við Larry King á CNN í fyrrakvöld kom Giuliani sér hjá því að svara því hvort hann myndi halda áfram baráttunni, tapaði hann á Flórída.

Í könnun, sem gerð var fyrir Los Angeles Times og Bloomberg News , hafa þau Hillary Clinton og McCain mest fylgi á landsvísu sem forsetaframbjóðendur flokka sinna. Clinton fær 42%, Barack Obama 33% og John Edwards 11%. Hjá repúblikönum fær McCain 22%, Mike Huckabee 18%, Mitt Romney 17% og Giuliani 12%.