Þrumuskot Alexander Petersson lætur skot ríða af fram hjá varnarmanni Spánverja, Asier Antonio Marcos í leiknum í Þrándheimi.
Þrumuskot Alexander Petersson lætur skot ríða af fram hjá varnarmanni Spánverja, Asier Antonio Marcos í leiknum í Þrándheimi. — Árvakur/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi iben@mbl.

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

„Þótt stutt sé frá því að keppninni lauk þá held ég að óhætt sé að fullyrða að niðurstaðan er engan veginn viðunandi, tveir sigrar og fjögur töp,“ sagði Logi Geirsson eftir að íslenska landsliðið hafði lokið keppni á Evrópumeistaramótinu í handknattleik í gær.

„Þetta er kannski slysamót en ljóst er að við vorum langt frá því að standa undir þeim væntingum og markmiðum sem við settum okkur fyrir mótið. Víst er að þrátt fyrir allt þá eigum við möguleika á að komast í forkeppni Ólympíuleikanna í sumar en því miður þá var það ekki aðalmarkmiðið með keppninni, auk þess sem við höfum ekki unnið okkur rétt með frammistöðunni hér, heldur frá HM í fyrra.

Við ætluðum okkur í hvern einasta leik til þess að vinna en því miður þá tókst það ekki nema tvisvar sinnum í sex leikjum. Sem betur fer eru framundan fleiri mót hjá landsliðinu og þá er möguleiki á að koma sterkur til baka eftir það sem núna er að baki. Niðurstaðan er í heild vonbrigði,“ sagði Logi og bætir við að það hafi verið alltof miklar sveiflur í leik íslenska landsliðsins á Evrópumótinu og á því verði að vinna bug. „Það var engin stígandi í liðinu í keppninni. Nú fer hver og einn okkar til síns heima, sest þar niður og skoðar sinn gang. Menn þurfa að koma sér í betri æfingu og mæta í góðu standi í vor þegar forkeppni Ólympíuleikanna fer fram.“

Logi segist taka að hluta til undir þá skoðun að of margir leikmenn landsliðsins hafi ekki leikið nógu stór hlutverk hjá sínum félagsliðum síðustu mánuði og þá skorti bæði leikæfingu og sjálfstraust. „Ég vil samt ekki hlaupa eingöngu í þetta skjól nú þegar illa hefur gengið og skella skuldinni allri á þetta atriði. Mín skoðun er einfaldlega sú að við eigum að vera með nógu gott lið til þess að vinna alla andstæðinga okkar á þessu móti.

Við verðum bara að nota það sem við höfum og keyra hressilega á það. Ekki tína til atriði sem ekki endilega eru staðreynd.

Málið er hreint klárt; við lékum ekki vel á þessu móti og verðum hreinlega að sætta okkur við það og draga af því lærdóm hver og einn.

Ég er bjartsýnismaður og vil horfa fram á veginn í stað þess að horfa til baka.Við mætum sterkir til leiks í næsta mót en megum ekki festast í fortíðinni,“ sagði Logi Geirsson.

Endalok í spegilmynd síðustu viku

Eftir Ívar Benediktsson í Þrándheimi

iben@mbl.is

Þess varð glögglega vart um leið og íslenska liðið hljóp inn á leikvöllinn í Þrándheimi í gær að ævintýrið frá Ungverjaleiknum í fyrradag yrði vart endurtekið. Leikgleðin og viljinn sem skein úr hverju andliti á miðvikudaginn var ekki fyrir hendi í gær. Menn höfðu greinilega lokið keppni og ætluðu að freista þess að sleppa eins vel frá lokaleiknum og kostur var.

Spánverjar náðu strax frumkvæðinu í leiknum. Vörn Íslands var ekki eins sterkt og oft áður og fimm plús einn afbrigðið gekk ekki sem skyldi. Markvarslan var engin. Sóknarleikurinn var með þokkalegasta móti framan af en því miður gekk ekki sem fyrr að nýta góð færi. Þá var Ólafur Stefánsson ekki eins beittur og áður og nánast engin skotógnun var frá honum. Snorri Steinn Guðjónsson og Guðjón Valur Sigurðsson reyndu að halda uppi dampi í sóknarleiknum en máttu sín lítils við margnum.

Spánverjar seigluðust áfram án þess að leika neinn glansleik. Ísland náði aðeins einu sinni að komast yfir, þá í stöðunni 5:4. Tækifæri gáfust til þess að komast yfir en þau voru ekki nýtt, hraðaupphlaup runnu út í sandinn og alltof margar sendingar rötuðu ekki rétta leið.

Í stöðunni 14:12 runnu sex sóknir út í sandinn hjá Íslandi og sama var upp á teningnum hjá Spánverjum. Kærkomið tækifæri til að komast fram var ekki nýtt. Áður en flautað var til hálfleiks voru Spánverjar komnir með þriggja marka forskot, 18:15.

Á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks féll íslenska liðinu allur ketill í eld. Hver sóknin á fætur annarri rann út í sandinn, aðeins eitt mark skilaði sér út fyrstu ellefu sóknunum og áður en martröðinni lauk voru Spánverjar komnir með átta marka forskot, 24:16. Eilítil von vaknaði í brjósti manna skömmu síðari þegar íslenska liðinu tókst að minnka muninn niður í fimm mörk og átti þess kost að minnka það niður í fjögur. Jose Javier Hombrados, félagi Ólafs Stefánssonar hjá Ciudad Real og markvörður Spánverja, varði vítakastið. Um leið gerði hann út um síðustu von íslenska landsliðsins að komast inn í leikinn.

Eftir það, síðustu ellefu mínúturnar, var nánast eins og leikmenn íslenska landsliðsins biðu þess að flautað væri til leiksloka og bundinn væri endi á vonbrigði síðustu daga. Endalokin voru spegilmynd síðustu viku.

Svo virtist sem leikmenn íslenska landsliðsins hefðu allir sem einn enga trú áað þeir ættu möguleika á að vinna Spánverja. Af áhuga einhverra mátti lesa að úrslitin skiptu engu máli, niðurstaða mótsins yrði aldrei nema vonbrigði.

Að þessu sinni gekk sóknarleikurinn allvel þar til Spánverjar hófu að leika mjög ákveðna 5/1 vörn og ganga hressilega út á móti leikstjórnandanum Snorra Steini. Þegar Ólafur náði sér ekki á strik í ofanálag var sóknarleikurinn afar slakur.

Varnarleikurinn var langt frá því að vera góður í þessum leik og markvarslan slök. Hreiðar Guðmundsson varði nokkur skot þegar á leið síðari hálfleik en að öðru leyti var ekki mikið um að vera. Að þessu sinni saknaði vörnin Sigfúsar. Spænsku leikmennirnir eru stórir og sterkir og alveg mátulegir í hrammana á Sigfúsi. Hann var hinsvegar fjarri góðu gamni að þessu sinni og þeir Sverre Jakobsson, Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson áttu erfitt uppdráttar.

Þegar á heildina er litið var árangurinn en ekki síst spilamennska íslenska landsliðsins á Evrópumótinu mikil vonbrigði og þá einkum sóknarleikurinn. Liðið lék aðeins einn góðan leik, gegn Ungverjum og einn góðan fyrri hálfleik, á móti Slóvökum. Annað var yfirhöfuð slakt sóknarlega og brokkgengt í vörninni og sömu sögu er að segja af markvörslunni. Hreiðar var þó mun betri en Birkir Ívar Guðmundsson sem virðist vera í lægð um þessar mundir en vera kann að eitthvað hafi einnig spilað inn í að hann virtist heldur ekki njóta fulls trausts fráfarandi landsliðsþjálfara.

Af þessari keppni verður fyrst og fremst að draga lærdóm fyrir næstu átök sem eru skammt undan.

Ólafur: Hundfúll með árangurinn

Eftir Guðmund Hilmarsson

í Þrándheimi

ÓLAFUR Stefánsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var fremur daufur í dálkinn þegar Morgunblaðið náði tali af honum eftir tapleikinn gegn Spánverjum í gær. Ólafur lauk þar með keppni á sínu 12. stórmóti og ætlar að bæta að minnsta kosti einu við en Ólafur stefnir á að spila á Ólympíuleikunum í Peking í sumar.

,,Ég er skömmustulegur því ég er hundfúll með gengi liðsins. Það voru ansi margir þættir sem voru ekki í lagi. Við þurfum miklu stöðugri markvörslu, fótavinnan verður að vera miklu betri í vörninni og ég segi þetta hiklaust þó svo að enginn vilji taka mark á mér þar sem ég spila ekki vörn. Á Íslandi er það oft þannig að það er ekki hlustað á menn sem hafa spilað íþróttina í 15 ár. Þá þurfum við að taka sóknarleikinn til endurskoðunar. Ég held að við þurfum allir að fara í naflaskoðun því ég vil að menn staldri við, hugsi um þessa hluti og verði klárir ef við náum að keppa um ólympíusæti,“ sagði Ólafur, sem vonast til að Frakkar hampi Evrópumeistaratitlinum og opni möguleika fyrir Íslendinga að taka þátt í forkeppni fyrir Ólympíuleikana.

,,Ef við náum að komast í forkeppnina veit ég að hún getur orðið snúin. Það þurfa allir leikmenn hjá okkur að hugsa betur um sjálfa sig, æfa eins og vitleysingar, lyfta og til að vera með gott lið þurfum við að fá alla í gang. Ég vil halda áfram með landsliðinu því ég veit að þegar ég fæ drifkraftinn þá hjálpa ég liðinu. Ég hef kannski ekki verið nógu grimmur að öskra og reka samherja mína áfram sem fyrirliði. Maður vill reyna að byggja upp á jákvæðan hátt en niðurstaðan á mótinu varð mér vonbrigði, ég hef átt mér þann draum að vinna til verðlauna á stórmóti.“

Þreyttur eftir erfitt mót – alltof mikið álag

„FYRRI hálfleikur var ágætur en síðari hálfleikur var ekkert nema vonbrigði af okkar hálfu, það var eins og allur vilji væri úr okkur,“ sagði Alexander Petersson, landsliðsmaður í handknattleik eftir lokaleikinn á EM í gær.

„Ég get ekki almennilega skýrt hvað fór úrskeiðs hjá okkur í keppninni en ljóst er að við höfum verið langt frá okkar besta allan tímann. Kannski var það varnarleikurinn sem fór illa með okkur í keppninni,“ sagði Alexander sem var alls ekki ánægður með sjálfan sig í keppninni.

„Ég hafði glímt við meiðsli fyrir keppnina og var því ekki eins sterkur og oft áður. Núna er ég fyrst og fremst þreyttur eftir sex leiki á átta dögum. Álagið sem fylgir svona keppni er alltof mikið. Ökklinn er aðeins farinn að bólgna, en ég vonast til að hann verði í lagi,“ sagði Alexander Petersson ennfremur.

Guðjón Valur: Ætluðum okkur miklu meira

Eftir Guðmund Hilmarsson

í Þrándheimi

,,Niðurstaðan er að sjálfsögðu vonbrigði. Við ætluðum okkur miklu meira en við náðum engan veginn að spila nógu vel á mótinu. Sóknin var í flestum leikjunum allt of hæg og ég held að skýringin á því sé mest hvað andlega þáttinn varðar,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson eftir leikinn gegn Spánverjum í gær.

,,Við tókum þann pólinn í hæðina fyrir mótið að þessu sinni að setja almennilega pressu á sjálfa okkur en við náðum því miður ekki að standa undir henni og verðum bara standa og falla með því. Núna vitum við hvernig við erum undir pressu. Við erum með tiltölulega ungt lið sem hefur ekki farið í margar keppnir nema þá Óli og ég og vonandi náðum við að draga lærdóm af þessu móti og verðum í góðu standi þegar að því næsta kemur.“

Ef þú metur þessar þjóðir sem standa okkur framar – er munurinn ekki fyrst og fremst sá að líkamlegur styrkur þeirra er miklu meiri en ykkar?

,,Það hefur verið þannig í gegnum tíðina en við höfum tekið margar þessar þjóðir og höfum haldið okkur inni á stórmótunum á hraðanum og viljanum og það eru allar þjóðir hræddar við okkur út af þessum atriðum. Það átti sér stað einhver blokkering í höfðinu á mönnum sem okkur tókst ekki að losna við og þar með gekk þetta svona illa. Ég tel að liðið okkar eigi svo sannarlega framtíðina fyrir sér en auðvitað þurfa menn að spýta í lófana og ná að vera árræðnir og ná fram stöðugleika.“

Sönnuðum lægðina í liðinu

Eftir Guðmund Hilmarsson

í Þrándheimi

,,Við sönnuðum með þessum Spánarleik lægðina í liðinu. Við náðum ekki varnarleiknum upp og þar af leiðandi var markvarslan lítil og var þunglyndisbragur á leik okkar jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Róbert Gunnarsson við Morgunblaðið eftir lokaleik íslenska liðsins á EM.

Líður í raun eins og kjána

,,Það var ekki sama stemning yfir liðinu og í leiknum við Ungverja og sannaði þær sveiflur sem voru hjá okkur í öllu mótinu. Mér líður í raun eins og kjána nú þegar þetta er afstaðið. Maður veit það sjálfur að spilamennskan var ekki nógu góð hjá manni sjálfum eða liðinu en nú er mikilvægt að við lítum fram á veginn og lærum af því sem við gerðum illa,“ sagði Róbert.

Um markmiðin sem liðið setti sér fyrir mótið, hvort þau hafi verið raunhæf, sagði Róbert; ,,Vissulega voru markmiðin háleit sem við settum okkur en stundum ganga hlutirnir einfaldlega ekki upp og það var of mikið um það hjá okkur að hlutirnir gengju alls ekki upp. Við erum með þannig lið að til þess að eiga góða keppni þarf allt að falla með okkur, menn að vera heilir og í góðu formi andlega og líkamlega en því miður var ekki svo hjá okkur að þessu sinni.

Ólíkt HM

„ÞVÍ miður þá datt alveg botninn úr leiknum hjá okkur þegar við lentum í mótbyr,“ sagði Sverre Jakobsson, landsliðsmaður í handknattleik, eftir tapið fyrir Spánverjum í gær. „Vörnin gekk aldrei sem skyldi hjá okkur og þar af leiðandi náðum við aldrei þeim hraðaupphlaupum sem við þurfum í hverjum leik.“

Sverre lék stórt hlutverk í vörn íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Þýskalandi í fyrra. Spurður hvaða munur væri á liðinu nú og þá svaraði Sverre: „Munurinn á liðinu núna og á HM er eins og á svörtu og hvítu. Í Þýskalandi náðist upp miklum mun meiri stemning og gleði í leikmannahópnum. Ég á erfitt með að útskýra hvernig á því stendur. Sennilega verður hver og einn að leita að skýringu hjá sjálfum sér. Því miður fannst hún aldrei í þessu móti. Hennar verðum við hins vegar að leita áður en farið verður á það næsta.“