Hætta Geysibratt er niður af þessum vegi og vegriðið telst vera of stutt. Afleiðingar útafaksturs yrðu geigvænlegar en gera mætti úrbætur til að auka öryggi ökumanna og farþega.
Hætta Geysibratt er niður af þessum vegi og vegriðið telst vera of stutt. Afleiðingar útafaksturs yrðu geigvænlegar en gera mætti úrbætur til að auka öryggi ökumanna og farþega.
Samkvæmt úttekt EuroRap á íslenskum vegum eru þeir víða of mjóir og bratt fram af þeim. Úrbætur geta dregið úr umferðarslysum.

Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson

orsi@mbl.is

GERA þarf stórátak til að minnka bratta við vegaxlir svo draga megi úr slysahættu við útafakstur og jafnframt þarf að fjarlægja grjót og björg í nágrenni vega í sama tilgangi. Einnig þarf að laga vegrið víða á hringveginum að mati Ólafs Guðmundssonar, verkefnastjóra EuroRap á Íslandi, sem tekið hefur út gæði 2.500 km af íslenska þjóðvegakerfinu samkvæmt gæðamati EuroRap. Um er að ræða gæðamat samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og eru vegirnir metnir í frá 1 upp í 4 stjörnur. Niðurstöður EuroRap hérlendis liggja nú fyrir og kom í ljós að á 720 km af 2.500 km er of hátt fall eða of bratt fram af vegöxlum. Breidd vega var víðast hvar of lítil og reyndust um 1.100 km af fyrrnefndum 2.500 km undir 6 metrum en samkvæmt stöðlum EuroRap dregur svo mjór vegur gæði og öryggi vegarins töluvert niður. Víða er hægt að auka öryggi á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt með því að fjarlægja grjót og aðrar fyrirstöður í nágrenni vega, fylla upp í skurði og svo framvegis. Á blaðamannafundi í gær sýndi Ólafur áþreifanleg dæmi um banaslys á síðustu misserum þar sem hættulegt umhverfi vega hafði reynst aðalorsök.

Tvöfaldur kafli Reykjanesbrautar fær 3 stjörnur af 4 mögulegum í athugun EuroRap. Brautin fengi 4 stjörnur ef sett yrðu upp vegrið beggja vegna brautarinnar og á milli akbrauta jafnvel þótt leyfður hámarkshraði yrði hækkaður upp í allt að 120 km á klst. Kristján Möller samgönguráðherra er hins vegar ekki hrifinn af hækkuðum hámarkshraða og sagði að slíkt myndi aðeins flýta för um 4 mínútur milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

Ólafur Guðmundsson gat þess í erindi sínu að víða er verið að vinna í vegaúrbótum á vegum landsins.

Við könnun EuroRap hérlendis kom í ljós að 77% af vegum fá 3 stjörnur og 23% 2 stjörnur. 4 stjörnu vegir eru 0,3%. Markmið EuroRap eru 5 stjörnu bílar á 5 stjörnu vegum en fyrirhugað er að hækka stjörnugjöf vega úr 4 í 5 innan skamms. Kristján Möller sagði í gær að staðlað gæðamat á vegakerfinu væri nauðsynlegt og miðaði að því að auka öryggi með því að draga úr afleiðingum hugsanlegra slysa.

Hann varpaði þeirri spurningu fram m.a. hvort hækkaður ökuhraði á tvöföldum kafla Reykjanesbrautar væri gerlegur án þess að auka slysahættu.

Aukinn hraði þýðir aukna áhættu

„Við vitum alveg að aukinn hraði þýðir aukna áhættu. Hún er kannski ekki eins mikil á tvöfaldri braut og einfaldri en ég spyr er einhver ástæða til að auka leyfðan hámarkshraða? Hversu miklu munar í tíma þegar ekið er á 90 km eða 110 þessa tæpu 30 km leið sem tvöföld brautin verður? Það munar minna en fjórum mínútum. Ég trúi ekki að þær mínútur skipti sköpum í lífi okkar. Án þess að segja af eða á þá tel ég að við eigum að vera nokkuð íhaldssöm í þessum efnum.“

Fram kom í máli Ólafs Guðmundssonar að víravegriðið í Svínahrauni hefur mátt þola ýmsar raunir á liðnum tveimur árum. Ekið hefur verið utan í það 61 sinni og 20% af undirstöðunum verið skemmdar, en lagfærðar. Sömu sögu er hins vegar ekki að segja um ýmis umferðarmannvirki en það er einmitt viðhald þeirra sem hann gagnrýnir. Til dæmis nefndi hann skemmt vegrið í Ártúnsbrekku sem hefur ekki verið sinnt í hálft ár. Brúarhandrið á nýju Þjórsárbrúnni stæði heldur ekki undir nafni, því þar væri aðeins um vegrið að ræða. Ljósastaurar og skilti við vegi þyrftu að vera árekstraprófuð.

Í skýrslu EuroRap kemur fram að í Svíþjóð, sem er með eitt öruggasta vegakerfi í heimi, er litið svo á að með endurbótum og auknum gæðum vegakerfisins megi fækka slysum um 60% á meðan breytt hegðun ökumanna geti aðeins stuðlað að 15% fækkun slysa.

Í hnotskurn
» Vegurinn yfir Kolgrafarfjörð er fyrirtak að mati EuroRap. Þar er breiddin nægileg og vegrið á báðar hendur.
» Vegir á Vestfjörðum eru hinsvegar hættulegri þar sem mjög sjóbratt er á aðra hönd án vegriða og klettar eða grjót mjög nálægt vegum skapa aukna hættu við útafakstur.
» Hringvegurinn við Skeiðarársand er mun hættuminni vegna lítils fláa og fárra fyrirstaðna utan vegar ef bíll þeytist útaf.