ÞAÐ er 20 sinnum hættulegra að vera á mótorhjóli í umferðinni en á bíl.

ÞAÐ er 20 sinnum hættulegra að vera á mótorhjóli í umferðinni en á bíl. Kemur það fram hjá Claes Tingvall, yfirmanni öryggismála hjá sænsku vegagerðinni, en hann segir, að nú sé svo komið, að það séu aðeins félagar mestu ökufantanna og tryggingafélögin, sem geti haft áhrif á þróunina.

Fyrir tíu árum létust til jafnaðar 30 til 40 mótorhjólamenn á sænskum vegum árlega en á síðasta ári voru þeir 61.

„Mótorhjólin eru í raun undanskilin venjulegu umferðareftirliti. Þau eru ekki með númeraplötu fremst og oftast útilokað að sjá hver er við stýrið. Lögreglan veigrar sér líka við að standa í hættulegum eltingarleik við mestu ökufantana,“ sagði Tingvall, sem sagði, að samfélag mótorhjólamanna og tryggingafélögin yrðu að grípa í taumana. Umbuna verði þeim, sem aka á löglegum hraða, en að sama skapi að refsa þeim, sem brjóta lögin, með háum iðgjöldum. Búa verði hjólin tækjum, sem geta fylgst með því. Sagði hann, að á áratug hefði fjöldi hjólanna tvöfaldast, farið úr 140.000 í 281.000.