Álið er málið Grétar Mar áréttaði að Suðurnesjamenn þyrftu á álveri að halda og vildi vita hvort álver í Helguvík fengi mengunarkvóta.
Álið er málið Grétar Mar áréttaði að Suðurnesjamenn þyrftu á álveri að halda og vildi vita hvort álver í Helguvík fengi mengunarkvóta. — Árvakur/Ómar
NORÐURÁL hefur ekki aflað sér allrar þeirrar orku sem þarf vegna mögulegrar uppbyggingar álvers í Helguvík né tryggt sér flutningsleiðir til að flytja orkuna.

NORÐURÁL hefur ekki aflað sér allrar þeirrar orku sem þarf vegna mögulegrar uppbyggingar álvers í Helguvík né tryggt sér flutningsleiðir til að flytja orkuna. Þá hefur fyrirtækið ekki orðið sér úti um mengunarkvóta og öll þau leyfi sem þarf fyrir starfseminni. Þetta kom fram í svari Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra við fyrirspurn Grétars Marar Jónssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, á þingi í gær en hann spurði hvort búið væri að úthluta álverinu mengunarkvóta þar sem þegar væri farið að auglýsa eftir starfskröftum.

Grétar áréttaði að Suðurnesjamenn þyrftu á álveri að halda en Þórunn sagði fyrirspurnina vekja athygli á því hversu langt menn væru komnir á undan sér í umræðunni um uppbyggingu verksmiðja og vakti athygli á því að öllum almennum losunarheimildum hefði verið úthlutað í haust. Það væri þó endurskoðað árlega. „Það er ekki fyrr en allt slíkt, vænti ég, er komið í hús, frágengið, undirritað og algjörlega pottþétt að menn geta farið að auglýsa eða tala eins og starfsemin sé handan við hornið,“ sagði Þórunn.