Föstudagsfreistingar Tónlistarfélags Akureyrar föstudaginn 18. jan. kl. 12 í Ketilhúsinu.

Föstudagsfreistingar Tónlistarfélags Akureyrar föstudaginn 18. jan. kl. 12 í Ketilhúsinu. Flutt var; Ave Maria eftir Bach-Gounod, Sónata V, RV 40 eftir Vivaldi, Siciliana eftir Maria Theresia von Paradis og Fantasía í g-moll eftir Fanny Hensel (borinni Mendelssohn). Flytjendur; Ásdís Arnardóttir á selló og Aládar Rácz á píanó.

RÖÐ tónleika undir heitinu Föstudagsfreistingar er sannarlega eitt af skrautblómunum í gróandi garði lista á Akureyri, þökk sé stjórn Tónlistarfélagsins fyrir það.

Umræddir tónleikar voru með ljúfum brag og blómin í þeim garði með mildum og notalegum litum. Þema í vali tónlistar tengist með vissum hætti tónlistariðkun kvenna. Í fyrsta lagi er glæsilegasta tónverkið eftir Fanny Hensel, systur Felix Mendelssohn. Svo samdi austurríska konan kennd við Paradís sikileyjadansinn sem dregur fram stemningu í samræmi við það nafn. Vivaldi kenndi munaðarlausu stúlkunum að leika á strokhljóðfæri sem frægt er orðið og ekki ólíklegt að þær hafi fengið að setja sitt mark á þessa þekktu sónötu fyrir selló af þeim níu, sem hann samdi. Að lokum er sá kvittur langlífur að Gounod hafi kynnst verkum Bach á ferð sinni til Berlínar undir leiðsögn Fanny og að Prelúdían í C dúr hafi kallað fram lofsönginn um heilaga Maríu. Ásdís dregur fram í leik sínum ljóðrænan blæ, tónninn mildur og bjartur.

Samleikur hennar og Aládar Rácz var næmur og óaðfinnanlegur. Það er ómetanlegt fyrir okkur að eiga slíka nábúa.

Fantasíu Fannyar fluttu þau á tilþrifamikinn hátt og svo sannarlega hefði þetta verk orðið karltónskáldi á 19. öld vegvísir til stórtónvirkja. En þekkt er að þegar þarna var komið þá var Fanny gerð grein fyrir að konum væri slíkt hlutverk ekki samboðið.

Ásdís kann þá list að leika syngjandi fallegar línur og móta hendingar með tilfinningu fyrir öndun og laglínuboga.

Í Vivaldi sónötunni fannst mér skorta skarpari andstæður í túlkun, meiri hraða- og styrkleikabreytingar.

Tónleikarnir rímuðu við vaxandi birtu á nýju ári.

Jón Hlöðver Áskelsson

Höf.: Jón Hlöðver Áskelsson