Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur thorakristin@24stundir.is „Erlendar konur sem búa hér við heimilisofbeldi þurfa að fá undanþágur frá skilyrðum um dvalarleyfi,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Eftir Þóru Kristínu Þórsdóttur

thorakristin@24stundir.is

„Erlendar konur sem búa hér við heimilisofbeldi þurfa að fá undanþágur frá skilyrðum um dvalarleyfi,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Einstaklingur sem fær dvalarleyfi hér á grundvelli þess að vera í hjúskap með íslenskum ríkisborgara missir dvalarleyfið ef hann skilur innan þriggja ára, samkvæmt núgildandi lögum.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segir að hugmyndir í þessa átt muni vera ræddar þegar frumvarpið fer í allsherjarnefnd. Hann er hins vegar ekki sannfærður um að betra sé að setja undanþágur um ofbeldi í reglugerð því þær muni alltaf innihalda skilyrði og þar með útiloka einhverja. Einnig hafi gefist vel að skoða hvert mál fyrir sig, eins og nú er gert.

Þrauka frekar en að skilja

Engri konu sem búið hefur við ofbeldi hefur verið vísað úr landi, að sögn Ragnheiðar Böðvarsdóttur hjá Útlendingastofnun. „Það er alltaf horft á mannlega þáttinn og reynt að finna lausn á málum,“ segir hún og bætir við að flestar konur sem fá dvalarleyfi í gegnum hjúskap fái sér vinnu. Ef þær skilja við makann geta þær því sótt um atvinnu- og dvalarleyfi á öðrum forsendum.

„Það að dvalarleyfið byggist á hjúskapnum er ógnandi í sjálfu sér. Karlmaðurinn getur hótað konunni því að ef hún skilur við hann verði henni vísað úr landi. Margar þessarra kvenna hafa ekki aðgang að betri upplýsingum en frá manni sínum og eru svo hræddar um að verða sendar heim að þær velja frekar að þrauka þessi þrjú ár og skilja svo,“ segir Sigþrúður.

Fara margar í athvarfið

Af þeirri 101 konu sem dvaldist í Kvennaathvarfinu í fyrra, voru 48 af erlendu bergi brotnar. Rannsóknir erlendis benda einnig til þess að konur sem búa fjarri heimalandi sínu verði frekar fyrir ofbeldi í hjónabandi en aðrar konur, að sögn Sigþrúðar. „Hins vegar hafa þessi mál verið lítið rannsökuð hér á landi, svo við vitum ekki hlutfallið. Hátt hlutfall erlendra kvenna af þeim sem hingað koma þarf ekki að þýða að ofbeldi gegn þeim sé meira en gagnvart öðrum. T.d. getur skýringin legið í því að íslenskar konur eru með félagsnet, svo að margar þeirra geta farið til vina og ættingja í stað þess að dvelja hér,“ segir Sigþrúður.

Margvíslegir fordómar

Sigþrúður segir margvíslega fordóma vera í garð kvenna sem búa við heimilisofbeldi.

„Það er ákveðin tilhneiging til þess að fjarlægja vandann, eins og sést á þeirri umræðu að erlendar konur séu meira beittar ofbeldi en aðrar. Þannig verður heimilisofbeldi „ekki íslenskt vandamál,“ segir hún.

„Einnig eru fordómar gegn karlmönnum sem giftast erlendum konum og raunar hjónaböndum á milli Íslendinga og útlendinga yfirleitt, þó auðvitað séu mörg þeirra mjög hamingjusöm eins og bara önnur hjónabönd,“ segir Sigþrúður.

Þekkirðu til?

Í hnotskurn
Nýtt frumvarp til breytinga á útlendingalögum miðar m.a. að því að flokkar dvalarleyfa spegli flokka atvinnuleyfa, og því hefur nokkrum flokkum verið bætt við, s.s. fyrir námsmenn og íþróttafólk. Meðal skilyrða sem umsækjandi um dvalarleyfi þarf að uppfylla er að hann sé með trygga framfærslu, sjúkratryggingu og húsnæði og að hann gangist undir læknisskoðun 2 vikum eftir komu.