María Karólína Gunnþórsdóttir fæddist á Skálateigi á Norðfirði 20. janúar 1937 en ólst upp á Borgarfirði eystra. Hún lést 10. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Heydalakirkju 18. janúar.

Mig langar að minnast Maríu systur minnar með nokkrum orðum og þakka fyrir öll árin sem við áttum saman, fyrst í æsku á Borgarfirði eystra og síðan á Breiðdalsvík þar sem hún bjó allan sinn búskap. Hún var mikill dugnaðarforkur og myndarleg í höndum og saumaði alklæðnaði á öll börnin sín, allt lék í höndunum á henni. Einnig voru þau hjónin í útgerð árum saman og vílaði hún ekki fyrir sér að standa heilu dagana við beitningastampinn ásamt því að hugsa um stórt heimili.

Eftir að þau hjónin fluttu suður til Reykjavíkur áttum við margar góðar samverustundir og mun ég geyma þær í minningunni. Í fyrravor fórum við systurnar fjórar saman í sumarbústaðarferð norður í land í nokkra daga í tilefni af sjötugsafmæli Mæju. Áttum við þar mjög ánægjulegar stundir saman sem seint gleymast.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Blessuð sé minning þín, elsku Mæja mín. Við Skafti sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Garðars og fjölskyldunnar allrar.

Guðný.

Í dag kveðjum við Mæju systur eins og við kölluðum hana. María Karólína Gunnþórsdóttir fæddist 20. janúar 1937 í Norðfirði, en foreldrar okkar bjuggu þar um skeið.

Foreldrar okkar fluttu til Borgarfjarðar eystri þegar Mæja var 1 árs og ólst Mæja þar upp í stórum systkinahóp. Mæja var önnur í röðinni af 8 systkinum. Það var þröng á þingi á Bakka-Stekk í þá daga, hjón með 3-4 börn í 6 fermetra herbergi en þar bjó fjölskyldan í 9 ár þangað til við fluttumst í Tungu þar sem rýmra var. Mæja sleit barnsskónum á Borgarfirði og gekk í barnaskólann þar, hún var námsmaður góður. Á unglingsaldri fór hún í sveig uppá Hérað á bæ í Hróarstungu sem hét og heitir enn Galtastaðir ytri og þar fékk hún það orð á sig að hún væri karlmannsígildi við vinnu.

Þegar Mæja fór í sveitina fengum við Eiki bróðir ásamt mömmu að fara með Mæju uppá Hérað en þetta var heilmikið fyrirtæki í þá daga, 2-3 tíma ferðalag sem í dag tekur innan við hálftíma. Við fórum sem leið lá að bæ sem heitir Ekra og stendur við Lagarfoss en þar var ferja yfir Lagarfljót enda engin brú yfir ána á þeim stað. Ég man alltaf eftir því þegar Mæja kom heim um haustið, hvernig við gleyptum í okkur sögurnar úr sveitinni og fannst okkur Mæja systir vera orðin aldeilis heimsborgari. Bjuggum við lengi að þessari dvöl hennar og sögum úr sveitinni. Síðan gegndi Mæja allskyns störfum m.a. var hún starfsstúlka á Eiðaskóla einn vetur, einn vetur vann hún á netagerð Akureyrar, eins vann hún í frystihúsinu á Borgarfirði og auk þess brá hún sér oft á sjó með okkur feðgunum.

Veturinn 1955 fóru Mæja og Gógó systir sem ráðskonur til Hornafjarðar og þar kynntist Mæja eftirlifandi manni sínum, Garðari Þorgrímssyni frá Selnesi í Breiðdalsvík. Þá um vorið hófu þau búskap á Selnesi en Garðar stundaði sjómennsku og gerði út báta þaðan. Hann var vélstjóri að mennt og gekk útgerðin mjög vel hjá þeim. Þau áttu saman 10 börn og eru 8 enn á lífi. Þegar börnin voru farin að heiman og flest flutt suður á bóginn fór að losna um þau á nesinu og höfðu þau að lokum Selnesið sem sumardvalarstað fjölskyldunnar en þau áttu heima í Reykjavík undir það síðasta.

Með Mæju er gengin mikil dugnaðarkona og ég veit að hún fær næg verkefni þegar hún kemur hinum megin, hvort sem það verður við saumaskap eða annað sem henni fórst vel úr hendi. Við höfðum ekki haft mikið samband við Mæja og ég kenndi því þar um að langt væri á milli Breiðdalsvíkur og Hafnarfjarðar en svo þegar aðeins eitt bæjarfélag skildi okkur að þá sáumst við ekkert oftar. En við hittumst gjarnan í góðra vina hópi á Borgarfirði eystri um verslunarmannahelgina þar sem brottfluttir Borgfirðingar hittast gjarnan. Þá var oft fjör í Bransbalarétt og ef Mæja systir var í stuði þá var hún hrókur alls fagnaðar, það voru góðar stundir. Megi Guð gefa Garðari, börnum og barnabörnum þínum styrk við þennan mikla missi.

Magnús bróðir.

Þegar nýju ári er fagnað og jólaljósin skína skært kveður þetta líf kær mágkona mín, María Gunnþórsdóttir eða Maja eins og hún ávallt var kölluð. Við Maja vorum jafnöldrur og lágu leiðir okkar fyrst saman á Alþýðuskólanum á Eiðum. Við munum báðar hafa verið að fara að heiman svo til í fyrsta skipti, enda börn og unglingar ekki búin að skoða hálfan heiminn nokkurra ára gömul eins og nú á tímum. Leiðir okkar skildi um tíma, það var ekki fyrr en kynni tókust með Garðari bróður mínum og Maju að fundum okkar bar saman á ný. Þau hittust á vertíð á Hornafirði, en eins og títt var á þeim tímum fór fólk á vertíð eins og það var kallað. Garðar og Maja settust að á Breiðdalsvík og byggðu hús ásamt Þórði bróður Garðars og Marey konu hans.

Ekki var alltaf mikið um atvinnu á þessum árum í litlum sjávarplássum, enda fyrir tíð togara og afkastameiri fiskiskipa. Garðar var sjómaður allan sinn starfsaldur, fór á vertíð á vetrin og síldveiðar á sumrin og var oft vikur og mánuði í burtu frá fjölskyldunni. Þá kom það í hlut Maju að vera bæði húsmóðir og húsbóndi á heimilinu og sjá um stóran barnahóp. Síðar keypti Garðar sér trillu og fór að gera út sjálfur. Maja var stoð hans og stytta í útgerðinni, beitti línu og fór jafnvel á sjó ef með þurfti. Það hafa fáar konur skilað jafn drjúgu dagsverki og hún gerði á þessum tíma.

Maja var mikil hagleikskona, saumaði allt á börnin, jafnt úr nýjum efnum eða upp úr notuðum flíkum og naut undirrituð oft aðstoðar hennar. Við bjuggum lengi í sama húsi og áttum börn á sama aldri sem léku sér mikið saman. Þá var sjónvarpið rétt komið, engar tölvur eða tölvuleikir og börn léku sér úti stóran hluta dagsins, á sleðum og skautum á vetrin og í boltaleikjum á sumrin.

Fyrir um áratug síðan héldum við saman upp á stórafmælin okkar, það dugði ekki minna en hótel og allir afkomendur Maju voru mættir. Það var mikið fjör og daginn eftir var svo farið á þorrablót, enda tilvalið að taka það í leiðinni, fyrst gestirnir voru fyrir austan á annað borð. Það eru góðar minningar frá þessari helgi eins og svo mörgum góðum samverustundum með þeim hjónum.

Nú að leiðarlokum vil ég þakka Maju samfylgdina og sendi kærum bróður og fjölskyldunni allri mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Hvíl í Guðsfriði.

Þín mágkona,

Geirlaug.