Gunnar Svavarsson
Gunnar Svavarsson
Gunnar Svavarsson skrifar um málefni Voga: "Í Vogum er sveitarfélag sem byggist á gömlum og traustum grunni en um leið á framsýni sem nútímasamfélag hefur upp á að bjóða."

NOKKUR umræða hefur verið í nokkrum fjölmiðlum að undanförnu vegna málefna sveitarfélagsins Voga. Sú umræða hefur að mínu mati einkennst af söguburði sem skapar sveitarfélaginu frekar neikvæða ímynd.

Árið 2005 sat undirritaður í nefnd, f.h. Hafnarfjarðarbæjar, sem skipuð var til að undirbúa íbúakosningu í Vogum og Hafnarfirði. Nefndin var skipuð í framhaldi af ákvörðum um að kanna hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna.

Allt það ár hafði ég möguleika á að kynna mér vel sveitarfélagið Voga, en auk þess að eiga fundi með ráðamönnum þess og íbúum. Magnús Gunnarsson, fv. bæjarstjóri í Hafnarfirði, var einnig fulltrúi Hafnarfjarðar og það ríkti einhugur hjá stjórnmálaflokkunum í Hafnarfirði að styðja sameiningarhugmyndir við Vogana. Raunin varð hinsvegar sú að meirihluti íbúa í Vogunum hafnaði sameiningu.

Kynni mín af samfélaginu í Vogum voru öll afar jákvæð. Í Vogum er sveitarfélag sem byggist á gömlum og traustum grunni en um leið á framsýni sem nútímasamfélag hefur upp á að bjóða. Sveitarfélagið Vogar er næstlandstærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum og nær yfir Vatnsleysuströnd og bæinn Voga. Í sveitarfélaginu búa rúmlega 1.200 manns og hefur íbúum fjölgað jafnt og þétt síðastliðin ár, enda í Vogum fjölskylduvænt samfélag og stutt að sækja atvinnu og þjónustu. Það er því vissulega svo að sveitarfélagið Vogar er vel í sveit sett, um það deilir enginn. Í nágrenni við þjónustu og vinnumarkað höfuðborgarsvæðisins, en býður upp á rólegt og vinalegt umhverfi þar sem stutt er í náttúruna.

Öflugur íbúafundur um forvarnarmál

Það er einnig svo að ráðamenn og íbúar í Vogunum gera sér grein fyrir því að á þau hefur verið sótt í fjölmiðlaumræðu. Nýlega var haldinn afar fjölmennur íbúafundur um forvarnarmál. Bæjarbúum er greinilega umhugað um að koma á framfæri jákvæðri ímynd af bænum og ítreka að í Vogum sé vinalegt og öruggt fjölskyldusamfélag.

Það skiptir máli að efla forvarnarstarf hverju sinni í sveitarfélögum. Nú mun það verða gert í Vogum með auknu samstarfi milli foreldra, stofnana sveitarfélagsins, íþrótta- og tómstundafélaganna og lögreglunnar. Nú hafa bæjarstjóri og lögreglustjóri kynnt samkomulag þess efnis að sveitarfélagið leggi til aðstöðu fyrir forvarnarlögregluþjón í félagsmiðstöðinni, en lögreglan leggi til starfsmann í hlutastarfi frá og með næsta vori.

Lögreglumaðurinn mun jafnframt starfa með ungmennaráði sem stofnað verður fljótlega. Reynsla af álíka þverfaglegu samstarfi og starfi ungmennaráðs í Hafnarfirði er afar góð og gott að nú mun einnig samfélagið í Vogum feta þá braut.

Suðurlindir ohf. – Samstarfsverkefni með Vogum

Nýlega var stofnfundur Suðurlinda ohf. haldinn í Stóru-Vogaskóla í Vogum, en hluthafar í félaginu eru; Grindavíkurkaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður og sveitarfélagið Vogar. Tilgangur félagsins er að standa vörð um sameiginlega hagsmuni sveitarfélaganna Grindavíkur, Hafnarfjarðar og Voga og íbúa þeirra varðandi náttúruauðlindir í landi sveitarfélaganna við Trölladyngju, Sandfell og Krýsuvík, m.a. mögulega nýtingu jarðvarma og eignar- og nýtingarrétt hvers sveitarfélags fyrir sig. Einnig að tryggja gott samstarf og samvinnu sveitarfélaganna um skipulag og framkvæmdir á skilgreindum auðlindasvæðum og marka skýrar áherslur í náttúruvernd og umhverfismálum á umræddum svæðum auk þess að vinna að sameiginlegri framtíðarsýn um þróun atvinnulífs og íbúðabyggðar og fjárhagslegur rekstur í tengslum við ofangreind markmið.

En það er einnig vegna kynna Hafnfirðinga af samfélaginu í Vogum, metnaði þess og krafti, að Hafnarfjarðarbær tekur ákvörðun um fullvaxið samstarf í Suðurlindum með Vogum og Grindavík. Kynningar sameiningarkosninganna sýndu okkur Hafnfirðingum þá möguleika sem sveitarfélagið Vogar býður upp á. Glöggt er gests augað. Að framansögðu óska ég íbúum Voga velfarnaðar í framtíðinni og veit að sveitarfélagið stendur vel undir merkjum sínum – „sveitarfélag sem færist í vöxt“.

Höfundur er alþingismaður og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.

Höf.: Gunnar Svavarsson