Mjúkur Ytra útlit bílsins einkennist af mjúkum, bogadregnum línum og síendurteknu þríhyrndu munstri.
Mjúkur Ytra útlit bílsins einkennist af mjúkum, bogadregnum línum og síendurteknu þríhyrndu munstri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um síðustu helgi var frumsýndur nýr Honda Civic í húsakynnum Bernhards umboðs í Vatnagörðum.

Um síðustu helgi var frumsýndur nýr Honda Civic í húsakynnum Bernhards umboðs í Vatnagörðum. Af því tilefni var bílnum, nánar tiltekið Sport-útfærslunni, reynsluekið af undirrituðum og var reynslan af akstrinum ánægjuleg í það heila en um er að ræða algjörlega endurhannaðan bíl. Útlitið má ábyggilega kalla nýstárlegt en þó svo að hann líti út eins og þriggja dyra hlaðbakur þá er hér engu að síður um að ræða fimm dyra bifreið. Hurðarhúnar farþegahurða eru nefnilega vel faldir, þétt við gluggapóstinn.

Annars einkennist ytra útlitið af mjúkum og bogadregnum línum sem eiga rætur að rekja til ársins 2004 þegar hönnun á áttundu kynslóð Hondu Civic hófst. Fyrstu bílar þeirrar kynslóðar litu dagsins ljós árið 2006 en þá var einnig kynnt til leiks ný og kraftmeiri 1,8 lítra i-VTEC vél sem bauð jafnframt upp á hlutfallslega minni eyðslu. Vélin í nýja bílnum sem frumsýndur var um helgina geymir enn nýrri útgáfu af 1,8 lítra i-VTEC vélinni með einföldum yfirliggjandi knastási og tölvustýrðri innspýtingu og ventlastýringu. Þessi vél framleiðir 140 hestöfl við 6300 snúninga og togkraft upp að 140 Nm við 4300 snúninga og eyðslan er vel viðunandi eða um 6,6 lítrar á hverja hundrað kílómetra í blönduðum akstri.

Tvískipt mælaborð

Eins og búast mátti við af framleiðendum Civic þá er innanrýmið mikið þó að lítið beri á því utan frá. Oft tekst framleiðendum vel til við að gera stjórnrými nýrra bíla þægilegt og notendavænt en þó eiga hönnuðir þessa bíls sérstakt lof skilið. Það er alla vega ljóst að mikið hefur verið lagt í hugmyndavinnu nýs Honda Civic því hann geymir margar sniðugar lausnir; tæknilegar og útlitslegar.

Mælaborðið er þægilega uppsett en það er tvískipt þannig að helstu akstursupplýsingar eru í beinni sjónlínu ökumanns. Stafrænn hraðamælirinn er t.d. mjög fyrirferðarmikill, rétt neðan við framrúðuna og ökumaður kemst vart hjá því að vera vel meðvitaður um hraðann. Svo eru allir helstu hnappar við stýrishjólið og innan seilingar. Þá er gírstöngin í beinskiptu útgáfunni sérstaklega meðfærileg, alveg laus við stífleika og stam.

Sportbíll með öllu tilheyrandi

Af staðalbúnaði má nefna ABS bremsur, VSA stöðugleikakerfi, 6 loftpúða og loftpúðagardínur í hliðum, forstrekkjara í beltum framsæta, rafknúið hjálparátak í stýri og fleira. Við lýsingu á akstri og almennri notkun bílsins má hiklaust segja að þar ríkir einfaldleikinn en ökutækið er sérlega aðgengilegt á flesta vegu. Það er jafnframt ekkert nema gott um aksturseiginleika og stýringu bílsins að segja. Hröðunin er prýðileg en hann er 8,9 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst og svo er hann sem fyrr segir meðfærilegur og gæddur sérlega góðu veggripi. Gormafjöðrunin að framan og aftan er sömuleiðis ekkert til að kvarta undan. Þó gæti sumum þótt framtíðarlegt, litríkt og glansandi útlit innanrýmisins vera heldur yfirdrifið og eflaust höfðar það meira til yngri kaupenda frekar en eldri.

Fyrst og síðast er hér á ferðinni sportbíll og er hann gæddur flestum þeim eiginleikum sem slíkt ökutæki kallar á. Útlitið gefur það ekki síst til kynna með löngum og skörpum ökuljósum á framenda bílsins sem falla þétt að vélarhlífinni og ýta undir loftaflsfræðilega eiginleika. Þá vekur þríhyrnt mynstur eftirtekt í útlitshönnun bílsins en það er endurtekið víða, t.d. í krómuðum púströrum, þokuljósum, hurðarhúnum og stefnuljósum.

Honda Civic Sport er snarpt ökutæki, einfalt og notendavænt og ekki síst, skemmtilegt. Jafnframt er bíllinn eyðslugrannur og svo stóð hann sig prýðilega á ísilögðum vegum borgarinnar. Hann virðist því fær í flestan sjó. Ögrandi útlitið að utan og innan kann þó að fæla einhverja í burtu en á sama tíma dregur það ábyggilega aðra til sín.

Honda Civic Sport

Vél: 1,8 lítra SOHC

bensínvél

Afl: 140 hestöfl við 6.300 snúninga – 174 Nm við 4.300 snúninga

Hámarkshraði: 205

Farangursrými: 485 lítrar og 1.352 með sæti niðurfelld

Staðalbúnaður:

ABS-bremsur, VSA-stöðugleikakerfi, 6 loftpúðar og loftpúðag ardínur og fleira

Eigin þyngd: 1.266 kg

Eyðsla: 6,6 l/100 km í blönduðum akstri

CO 2 útblástur: 156 g/km

Verð: 2.495.000 kr. (2.595.000 kr. sjálf skiptur)

Umboð: Bernhard