Fyrrverandi Bítillinn Ringo Starr gekk út úr amerískum spjallþætti hinn 22. janúar síðastliðinn. Um er að ræða vinsælan þátt sem sýndur er dag hvern og heitir Regis and Kelly.

Fyrrverandi Bítillinn Ringo Starr gekk út úr amerískum spjallþætti hinn 22. janúar síðastliðinn. Um er að ræða vinsælan þátt sem sýndur er dag hvern og heitir Regis and Kelly. Ástæðan var ósætti milli Ringos og þáttastjórnenda um lifandi flutning á einu lagi hans.

Trommarinn kom í þáttinn til að kynna nýjustu plötu sína, Liverpool 8, og átti hann að spila titillagið ásamt fyrrum Eurythmics-meðlimnum Dave Stewart. Þegar Ringo var tjáð að hann þyrfti að stytta flutninginn á laginu niður í tvær og hálfa mínútu neitaði hann því. Talskona Ringos, Elizabeth Freund, sagði í viðtali við Associated Press að atvikið hefði átt sér stað vegna misskilnings milli hennar og tónlistarstjóra þáttarins. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að lagið yrði að stytta. „Við buðumst til að skera niður spjalltímann sem okkur var úthlutaður en þau vildu með engu móti koma til móts við okkur. Ringo vildi ekki klippa neitt af laginu, og þegar útséð var að við kæmumst að samkomulagi gátum við ekki annað en yfirgefið þáttinn.“

heida@24stundir.is