[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„ÉG er að tala um útrás á íslensku bókverki, öðru en fagurbókmenntum,“ segir Sigurður Svavarsson, sem ásamt Guðrúnu Magnúsdóttur hefir stofnað bókaforlagið Opnu.

„ÉG er að tala um útrás á íslensku bókverki, öðru en fagurbókmenntum,“ segir Sigurður Svavarsson, sem ásamt Guðrúnu Magnúsdóttur hefir stofnað bókaforlagið Opnu.

„Ég hef oft haldið því fram að íslenskir útgefendur, höfundar og hönnuðir standist fyllilega samjöfnuð við það sem best er gert í útlöndum á þessu sviði. Þess vegna gengur draumur okkar út á það að ná að færa það besta sem gert er hér á landi í útgáfu til útlanda, um leið og við kappkostum að færa Íslendingum á sínu móðurmáli það sem okkur finnst myndarlega gert í útlöndum.

Við eigum til dæmis raunvísindamenn í fremstu röð, ljósmyndara og listamenn sömuleiðis og ég held að það muni opnast leiðir fyrir þetta fólk til útlanda ekkert síður en fyrir skáldin. Þannig er í það minnsta það metnaðarfulla plan sem við höfum sett okkur,“ segir Sigurður í viðtali við Morgunblaðið.

Þau Guðrún hafa starfað við bókaútgáfu í meira en tvo áratugi og búa að yfirgripsmikilli reynslu á sínu sviði. Sigurður var nú síðast aðalútgáfustjóri Eddu en hafði áður verið framkvæmdastjóri Máls og menningar. Guðrún var forstöðumaður framleiðsludeildar Máls og menningar, síðar Eddu.

„Okkur langar til að verða bókaforlag sem stendur fyrir gæði, vandvirkni og metnað,“ segir Sigurður. Stefnt er að því að fyrstu bækur Opnu komi út í maí. „Það verður annars vegar bók um himinhvolfin með geysilega fallegum ljósmyndum, og hins vegar leiðsögurit um Ísland.“