Agnar Sigurbjörnsson fæddist í Hænuvík í Rauðasandshreppi 7. júlí 1928. Hann lést á Kanaríeyjum 4. janúar síðastliðinn og var útför hans gerð frá Digraneskirkju 18. janúar.

Hinn 27. desember sl. fór 14 manna hópur til Kanaríeyja og tilgangurinn var að komast í gott frí. Meirihluti hópsins voru afkomendur Sigurbjörns Guðjónssonar og Ólafíu Magnúsdóttur í Hænuvík og þar á meðal tvíburabræðurnir Agnar og Björgvin, þá einir eftirlifenda úr sínum stóra systkinahópi.

Árið 2004 hafði Agnar ásamt fjölskyldunni farið á sömu slóðir og þegar við nefndum hugmyndina við hann í sumar var hann fljótur að gefa jáyrði, en gaf jafnframt í skyn að við hefðum nú vel getað nefnt þetta við hann einu eða tveimur árum fyrr.

Dagarnir liðu hver af öðrum og allir nutu dvalarinnar til hins ýtrasta. Jafnvel svo að Agnar kom að máli við mig í lok dags 29. desember og tjáði mér að svo vel skemmti hann sér að ekki mætti ég láta það bregðast að bjóða honum með næst er farið yrði.

En um hádegi á gamlársdag fengum við fyrra áfallið, komið hafði verið að honum án meðvitundar í íbúð sinni. Seinna áfallið kom svo stuttu seinna, heilablæðing af verstu tegund var staðreynd. Stutt yrði að hann kveddi þessa jarðvist. Þetta var algert reiðarslag fyrir hópinn, en þegar þessi staða var orðin ljós voru fararstjórar Sumarferða komnir að málinu. Aðstoð þeirra var ómetanleg og til fyrirmyndar. Við þökkum þeim Auði, Jónu Lísu og Kristínu innilega fyrir veitta aðstoð.

Ég minnist Agnars fyrst í Hænuvík þegar ég var 3-4 ára gamall og hann var að fara á gamla Chevrolet-vörubílnum út á holt að sækja möl, og mikið ofsalega naut maður þess að setjast í þetta tryllitæki með honum. Sú ferð var líka sú síðasta sem farin var á þeim vagni.

En kynni okkar fjölskyldunnar af honum endurnýjuðust í senn með óvæntum en ánægjulegum hætti þegar við vorum að flytjast búferlum til Reykjavíkur í lok árs 1999. Þá var hann að selja húseign sína í Samtúni 2 og í ljós kom að hún hentaði okkur einkar vel. Í kjölfarið kom hann í heimsókn reglulega og spjallað var um allt milli himins og jarðar, ekkert virtist vera til sem hann hafði ekki einhverja skoðun á og hver heimsókn varð annarri ánægjulegri.

Þrátt fyrir að Agnar ætti stutt í níræðisaldurinn, var ekkert í hans fari sem gefið gat til kynna þennan aldur, við minnumst hans því eins og hann var alla tíð, hann var einn af þessum mönnum sem breytast ekkert þó árunum fjölgi.

Fjölskyldan þakkar Agnari ánægjulega samfylgd á liðnum árum og er sannfærð um að nú taki við ný ævintýri hjá honum á nýjum slóðum.

Við vottum Herdísi, Sigursveini, Baldvini og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð og ekki síður Björgvini sem nú lifir einn af sínum systkinum.

Rögnvaldur, Ólafía

og fjölskyldur.

Elsku langafi, ég er búin að tala mikið um þig við mömmu og pabba síðustu daga og hugsa til þín.

Ég man þú varst alltaf svo glaður þegar við komum til Reykjavíkur að heimsækja þig.

Margar minningar koma upp í hugann, til dæmis þá mátti ég alltaf fara á hlaupabrettið þitt sem mér þótti svo gaman og svo þegar þú varst að hnýta króka, þá hnýtti ég með þér eina kvöldstund og gleymi því seint.

Jólin 2002 þegar við fórum saman á Kanarí, ég var bara 4 ára en man þó vel eftir samverustundum okkar.

Einnig á ættarmótinu síðastliðið sumar þegar Eydís litla systir ruglaðist á þér og Björgvini tvíburabróður þínum, þá hló ég að því. Þó þið væruð alveg eins, þá þekkti ég langafa minn, því ég er auðvitað orðin 8 ára.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér og ætla að segja Eydísi litlu systur frá hve góður langafi þú varst og að nú sért þú hjá Birtu systur okkar og að þið passið hvort annað.

Þín langafastelpa,

Guðrún Ýr.