MJÖG mikill ýsuafli hefur verið á þessu fiskveiðiári, enda sókn í hana stóraukin vegna niðurskurðar þorskkvótans. Útgefinn ýsukvóti fyrir þetta fiskveiðiár er 100.000 tonn miðað við óslægðan fisk.

MJÖG mikill ýsuafli hefur verið á þessu fiskveiðiári, enda sókn í hana stóraukin vegna niðurskurðar þorskkvótans. Útgefinn ýsukvóti fyrir þetta fiskveiðiár er 100.000 tonn miðað við óslægðan fisk. Vegna flutnings aflaheimilda frá síðasta fiskveiðiári, er leyfilegur afli á þessu fiskveiðiári nálægt 116.000 tonnum.

Þrjú síðustu fiskveiðiár hefur ýsuaflinn verið í kringum 100.000 tonn, en mun minni fiskveiðiárin þar á undan.

Meiri afli í öllum mánuðum

Fyrstu fjóra mánuði þessa fiskveiðiárs var ýsuaflinn orðinn ríflega 38.200 tonn af óslægðu. Í öllum mánuðunum fjórum er aflinn meiri en í sömu mánuðum á síðasta fiskveiðiári. Það álit manna að ekki muni takast að ná ýsukvótanum vegna þess hve þorskveiðiheimildir séu takmarkaðar, hefur víða komið fram. Ekki sé hægt að stunda ýsuveiðarnar án þess að þorskur komi með og óvíst að þorskveiðiheimildirnar dugi til að ná ýsunni. Er þá að nokkru leyti miðað við sókn og aflasetningu síðustu ára.

Um þetta er nú meðal annars fjallað á heimasíðu Fiskistofu, en þar segir svo: „Víða, m.a. á vef Fiskistofu, var bent á að erfitt gæti reynst að ná að veiða upp aflamark í ýsu og ufsa o.fl. meðaflategundum þorsks þegar þorskaflinn er takmarkaður svo mikið sem gert er á yfirstandandi fiskveiðiári. Sú var meðal annars raunin við svipaðar aðstæður um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Þó að aðeins séu liðnir tæpir fimm mánuðir af fiskveiðiárinu hafa þessar hrakspár verið hraktar, a.m.k. að hluta. Þegar þessi frétt er birt er búið að veiða 36,8% af aflamarki í ýsu á móti 32,6% af aflamarki þorsks. Yfirgnæfandi líkur virðast því á að aflamark í ýsu verði veitt upp í ár.“

Í hnotskurn
» Nú er búið að veiða 36,8% af aflamarki í ýsu á móti 32,6% af aflamarki þorsks. Yfirgnæfandi líkur virðast því á að aflamark í ýsu verði veitt upp í ár.
» Fyrstu fjóra mánuði þessa fiskveiðiárs var ýsuaflinn orðinn ríflega 38.200 tonn. Í öllum mánuðunum fjórum er aflinn meiri en í sömu mánuðum á síðasta fiskveiðiári.
» Þrjú síðustu fiskveiðiár hefur ýsuaflinn verið í kringum 100.000 tonn, en mun minni fiskveiðiárin þar á undan. Leyfilegur afli nú er um 116.000 tonn.