Þorsteinn Hjaltason
Þorsteinn Hjaltason
Þorsteinn Hjaltason skrifar um dómara og dómsmál: "Lögreglan og dómstólar hafa ríka tilhneigingu til að draga taum bankanna og eiga almennir borgarar fyrir vikið erfitt með að sækja mál á hendur þeim."

Eins og fram hefur komið í sjónvarpsfréttum Stöðvar 2, hef ég verið kærður fyrir að tjá skoðanir mínar í viðtali við Stöð 2 hinn 20. des. sl. Þá nýkominn úr réttarsal þar sem ég hafði fengið óréttlátan dóm í hendur í hinu svokallaða Glitnismáli. Í því máli höfðu gögn frá Glitni banka verið lögð til grundvallar dómi án þess að hlustað væri á gagnrýni mína á þau gögn. Glitnismálið snerist einfaldlega um það hvort tilboð geti orðið svo gott að það sé hreinlega glæpsamlegt að taka því. Eða hefur maður rétt til að taka óhræddur öllum tilboðum, sem bjóðast á netinu eða annars staðar, alveg sama hversu góð þau eru ... og ef ekki hvar liggja þá mörkin?

Umræðuefni mitt hér verður þó ekki Glitnismálið heldur hin meintu meiðyrði.

Réttur minn til að tjá skoðanir mínar er verndaður í 73. gr. stjórnarskrár okkar og í 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Fram kom í þessari frétt að dómarinn í Glitnismálinu hefði lagt fram kæru vegna meintra meiðyrða minna og lögreglurannsókn væri hafin.

Dómarinn er ósáttur við þau ummæli mín að ég telji að Glitnir hafi fengið sérmeðferð hjá lögreglunni og dómstólnum. Dæmin sem ég nefndi í umræddu sjónvarpsviðtali voru af lögreglurannsókninni en ég hefði líka getað tekið dæmi er vörðuðu dóminn. Ég nafngreindi dómarann aldrei, enda var ég að sjálfsögðu ekki að tala um hann sem persónu, hvað þá að það hvarflaði að mér að dómurinn væri svona vegna einhverra tengsla hans við Glitni eða að Glitnir hefði haft áhrif á hann sem einstakling. Það er af og frá og það hryggir mig og mér þykir það mjög leitt ef dómarinn velur að túlka orð mín í þessa veru. Ég hélt að hann þekkti mig af öðru og betra.

Það sem ég var að segja í títtnefndu viðtali var þetta: Ég hef tekið eftir því í þessu máli og öðrum að lögreglan og dómstólar hafa ríka tilhneigingu til að draga taum bankanna og eiga almennir borgarar fyrir vikið erfitt með að sækja mál á hendur þeim.

Það er skoðun mín að þetta hafi líka komið fram í mínu máli og nefndi ég í viðtalinu dæmi um það varðandi lögreglurannsóknina. Ég ræddi ekki hvernig þessi staða hefur áhrif á niðurstöðu dómsins en ég hefði getað gert það einnig.

Ástæðan fyrir þessari sérmeðferð, sem mér sýnist að bankarnir fái oft á tíðum, er ekki sú að bankarnir hafi dómara og lögreglu í taumi, hafi borið á þá fé eða eitthvað slíkt. Alls ekki. Það hefur enginn keypt neinn. Orsakir þess að bankar þurfa iðulega ekki að sanna sitt mál í eins ríkum mæli og aðrir eru sjálfsagt fjölmargar. Að hluta til er það þó sennilega vegna þess að í eina tíð voru þessir aðilar ríkisstofnanir og skjöl frá þeim þar með opinber gögn, sem höfðu ríkt sönnunargildi í dómsmálum. Sama má segja um þá góðu þjónustu sem bankarnir fá hjá lögreglunni, þ.e. þetta voru ríkisstofnanir og sem slíkar áttu þær greiðan aðgang að lögreglunni.

Staðan hefur hins vegar breyst. Bankarnir eru ekki lengur ríkisstofnanir heldur hlutafélög og eiga að sitja við sama borð og við hin. Hins vegar lifir lengi í gömlum glæðum og þeir eru enn að þessu leyti eins og ríkisstofnanir og því fylgir ægivald. Auðvitað ættu þeir að þurfa að sanna sitt mál með sama hætti og aðrir. Það á ekki að duga að þeir komi fyrir dóm og tjái sig um málavexti eða leggi fram eigin skjöl, sem eru síðan lögð til grundvallar dómi þrátt fyrir mótmæli gagnaðila og án þess að bankinn sanni sitt mál neitt frekar. Þessi sérstaða bankanna er ekki eðlileg að mínu áliti.

Ég má hafa þessa skoðun og tjá hana eins og ég vil. Það má vera að hún sé röng og það má vel vera, að lögreglu og dómurum finnist óþægilegt, að ég sé að bera þetta á torg. Það eitt og sér nægir samt ekki til að skerða tjáningarfrelsi mitt.

Ummæli mín snúa að samfélagslegu málefni, sem eðlilegt er, að komi til almennrar umræðu. Í slíkri umræðu verða stjórnvöld að þola, að gagnrýni sé beint að þeim, þótt orðfæri í því sambandi kunni að verða hvasst, sbr. Hæstaréttardóm nr. 274/1997.

Dómstólar eru ekki heilagar kýr. Það má gagnrýna þá eins og aðra. Ég held því fram að dómstólar hafi mjög ríka tilhneigingu til að draga taum bankanna. Mér finnst það óeðlilegt. Eina leiðin sem ég hef til að reyna að breyta þessu er að vekja máls á því. Ef það má ekki, ef reisa skal þagnarmúr í kringum dómstólana, hvaða möguleika hefur þá hinn almenni borgari á því að breyta þessu eða öðru sem honum kann að þykja fara miður í dómaframkvæmd í landinu?

Höfundur er héraðsdómslögmaður.

Höf.: Þorsteinn Hjaltason