LÖGREGLAN á höfuðborgarsvæðinu gerði leit í húsnæði í Hafnarfirði á miðvikudag vegna gruns um að þar ætti sér stað fíkniefnamisferli. Sá grunur reyndist á rökum reistur því við leitina fundust um 600 grömm af kókaíni.

LÖGREGLAN á höfuðborgarsvæðinu gerði leit í húsnæði í Hafnarfirði á miðvikudag vegna gruns um að þar ætti sér stað fíkniefnamisferli. Sá grunur reyndist á rökum reistur því við leitina fundust um 600 grömm af kókaíni. Leitin fór fram að undangengnum úrskurði héraðsdóms og nutu lögreglumenn aðstoðar fíkniefnaleitarhunda.

Hald var lagt á efnin og í kjölfarið var farið fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni á fertugsaldri. Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn málsins á frumstigi og upplýsingar því af skornum skammti. Þó hefur verið upplýst að í húsnæðinu hafi fundist talsvert af fjármunum, sem grunur leikur á að séu ágóði af fíkniefnasölu.

Ef miðað er við verðkönnun SÁÁ á ólöglegum fíkniefnum frá því í nóvember síðastliðnum, má áætla að andvirði efnanna sem lagt var hald á sé 7,8 – 8 milljónir króna. Sú upphæð hækkar svo eftir því hversu hreint efnið er.