Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudaginn fyrir tilraun til manndráps.

Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness á miðvikudaginn fyrir tilraun til manndráps.

Maðurinn, sem er pólskur að uppruna, réðst á landa sinn með brotinni glerflösku á heimili sínu í Reykjanesbæ í nóvember með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut lífshættulega áverka.

Maðurinn hlaut djúpan skurð á hálsi sem var aðeins nokkra millimetra frá því að valda honum lífláti.

Tekin var tölvusneiðmynd til að átta sig á dýpt skurðarins, en hann lá í gegnum stóra hálsvöðva alveg inn að æðum. Samkvæmt framburði sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítalans, munaði aðeins tveimur millimetrum að slagæð skærist í sundur.

Tveir menn urðu vitni að árásinni sem rekja má til drykkju, en mennirnir búa einnig á umræddum stað.

Þegar lögreglu bar að garði var íbúðin útötuð í blóði, blóðpollur á gólfi og blóð á veggjum en ekki tókst að yfirheyra málsaðila sökum ölvunar. Hinn ákærði hafði þá lagst í rúmið og var mjög ógnandi þegar lögregla hugðist hafa afskipti af honum.

Ákærði neitaði sök fyrir dómi og bar fyrir sig minnisleysi sökum ölvunar. Hann hefur ekki gerst sekur um refsiverða háttsemi hér á landi fyrr en engar refsilækkandi ástæður þóttu koma til greina.

Þá greiði hinn ákærði brotaþola tæpar átta hundruð þúsund krónur í skaðabætur. aegir@24stundir.is