— Ljósmynd/Garðapósturinn
Þorrinn verður blótaður í Garðabænum í kvöld en Stjörnumenn hafa á undanförnum árum vakið athygli langt út fyrir bæjarmörkin fyrir glæsileg þorrablót sín. Blótið nýtur mikilla vinsælda og komast færri að en vilja.

Eftir Einar Jónsson

einarj@24stundir.is

Bóndadagur er í dag og tími þorrablótanna því runninn upp hér á landi. Víða koma menn saman og gera sér glaðan dag í tilefni Þorrans, snæða súrmeti og aðrar kræsingar sem þeir gjarnan skola niður með bjór og brennivíni.

Færri komast að en vilja

Ungmennafélagið Stjarnan í Garðabæ hefur undanfarin ár haldið eitt fjölmennasta og glæsilegasta þorrablótið og verður engin undantekning á því í kvöld. Ekki hefur þó alltaf verið margt um manninn á þorrablótum Stjörnunnar. „Þetta var orðið mjög fámennt fyrir 5-6 árum og þá var tekin sú ákvörðun að láta reyna á fjölmennt þorrablót,“ segir Lúðvík Örn Steinarsson, formaður þorrablótsnefndar. „Það hefur verið í þessari mynd fimm ár í röð. Þetta er 800 manna blót og við gætum örugglega selt tvisvar sinnum fleiri miða,“ segir Lúðvík.

Í ljósi vinsælda blótsins er ekki að undra að Stjörnumenn hafi íhugað að flytja blótið í stærra húsnæði. „Það hefur ítrekað komið til tals vegna þess að við gætum selt miklu fleiri miða en mönnum finnst samt að fyrst þetta gengur upp þá sé engin ástæða til að breyta því,“ segir Lúðvík. „Ég reikna samt með að við þurfum að færa okkur um set á næsta ári vegna þess að það verða framkvæmdir í íþróttahúsinu. Það þarf að nota allt húsið undir svona blót,“ segir hann.

Ekki aðeins Stjörnumenn

Þó að blótið sé haldið í nafni Stjörnunnar sækja það ekki eingöngu gallharðir Stjörnumenn. „Fyrst voru þetta Stjörnumenn en núna kemur fólk hvaðanæva af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Lúðvík og bendir á að miðarnir seljist fljótt upp. „Miðarnir fóru í sölu á mánudagsmorgni og upp úr hádegi var orðið uppselt. Upphaflega tók þrjá daga að selja alla miðana en tíminn er alltaf að styttast,“ segir Lúðvík og bætir við að þó að uppselt sé í matinn sé enn hægt að fá miða á ballið.

Veislustjóri er Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ræðumaður kvöldsins er Inga Lind Karlsdóttir sjónvarpskona. Hljómsveitin Buff leikur síðan fyrir dansi ásamt Matta, söngvara Papanna.

Í hnotskurn
Ýmsar þekktar hljómsveitir hafa komið fram á blótinu í gegnum tíðina svo sem Stuðmenn, Sálin, Í svörtum fötum og Milljónamæringarnir. Blótið fer fram í kvöld og verður húsið opnað fyrir matargesti kl. 19 og hefst borðhald kl. 20:30. Húsið verður opnað fyrir þá sem ætla eingöngu að mæta á ballið kl. 23.