[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Styrktarsjóðurinn Kraumur hyggst styrkja ungt tónlistarfólk um 50 milljónir, þar af 20 milljónir á þessu ári. Fyrsta úthlutun verður á næstu tveimur mánuðum.

Eftir Atla Fannar Bjarkason

atli@24stundir.is

„Þetta er virkilega rausnarlegt framlag og það er rosalega ánægjulegt að sjá þessa peninga koma inn í íslenska tónlist – sérstaklega þegar búið er að eyrnamerkja þá ungu tónlistarfólki,“ segir Eldar Ástþórsson, framkvæmdastjóri Kraums.

Velgerðarsjóðurinn Aurora, sem hjónin Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir stofnuðu á síðasta ári, kynnti í vikunni þá ákvörðun að ráðstafa 210 milljónum til fyrstu styrktarverkefna sjóðsins. Kraumur er eitt fjögurra verkefna sem Aurora hefur sett á stofn og mun hann styrkja ungt tónlistarfólk um 50 milljónir á næstu þremur árum.

20 milljónir í ár

„Nú hefst öll almenn vinna í kringum sjóðinn og við áætlum að tilkynna fyrstu verkefnin sem við ætlum að styrkja á næstu tveim mánuðum,“ segir Eldar, spurður hvenær fyrstu verkefni sjóðsins verði kynnt. 20 milljónum verður úthlutað á þessu ári og 15 milljónir á ári næstu tvö ár. „Það á eftir að móta hvaða verkefni verða studd fyrst. Við ætlum að styðja fá verkefni, en gera það á markvissan og skilvirkan máta. Við reynum að nýta þessa peninga sem best fyrir íslenskt tónlistarlíf og íslenska tónlistarmenn þannig að það komi eitthvað skemmtilegt og spennandi út úr þessum verkefnum sem við ráðumst í.“

Björk og Árni Matt í fagráði

Þórunn Sigurðardóttir, Pétur Grétarsson og Ásmundur Jónsson sitja í stjórn Kraums. Fagráð hefur verið skipað sem verður að sögn Eldars til halds og traust með ráðgjöf og annað. Meðal þeirra sem skipa fagráðið eru Björk Guðmundsdóttir tónlistarmaður, blaðamaðurinn Árni Matthíasson, Kjartan Sveinsson í Sigur Rós og Sjón.
Í hnotskurn
Aurora styrkir Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit um 20 milljónir. Sömu upphæð fær héraðssjúkrahúsið í Mangochi í Malaví. Þá fær Menntaverkefni UNICEF í Síerra Leóne alls 120 milljónir á næstu þremur árum.