FJÁRMÁLARÁÐUNEYTIÐ telur hagvaxtarhorfur hafa versnað síðan endurskoðuð þjóðhagsspá ráðuneytisins var gefin út 15. janúar, en þar kom fram að íslenska hagkerfið væri á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar.

FJÁRMÁLARÁÐUNEYTIÐ telur hagvaxtarhorfur hafa versnað síðan endurskoðuð þjóðhagsspá ráðuneytisins var gefin út 15. janúar, en þar kom fram að íslenska hagkerfið væri á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar.

Í vefriti ráðuneytisins segir hins vegar að ljóst sé að þróunin á fjármálamörkuðum hafi verið neikvæð síðan spáin var birt. Þó er bent á að fjármálakerfið á Íslandi sé í grunninn talið traust, staða ríkissjóðs sterk, starfsemi fyrirtækja mikil og atvinnustig í landinu hátt. Íslenska hagkerfið hafi einnig sýnt eindæma viðnámsþrótt þegar aðstæður á mörkuðum hafi breyst. Auk þess hafi þróunin undanfarið verið mjög háð alþjóðlegri þróun. „Það skiptir því meira máli en oft áður fyrir framvinduna hér á landi hvernig stjórnvöld bregðast við ástandinu,“ segir í vefritinu. Ráðuneytið telur að bandaríski seðlabankinn hafi brugðist við ástandinu þar í landi af næmi og sveigjanleika, bæði með veglegri stýrivaxtalækkun og með beinni innspýtingu í hagkerfið að jafnvirði 150 milljörðum dollara á árinu. Viðbrögðin séu líkleg til að verða hjálpleg þegar fram í sækir og búast megi við að aðstæður lagist. Það muni meðal annars hafa áhrif hér á landi.