Eftir Ríkharð Hrafnkelsson KR sigraði Snæfell með 92 stigum gegn 83, í fjórtándu umferð Iceland Express-deildarinnar, í Stykkishólmi í gærkveldi.

Eftir Ríkharð Hrafnkelsson

KR sigraði Snæfell með 92 stigum gegn 83, í fjórtándu umferð Iceland Express-deildarinnar, í Stykkishólmi í gærkveldi.

Gestirnir úr Vesturbænum mættu afar grimmir til leiks í Stykkishólmi eftir að hafa tapað síðustu tveimur leikjum. Hólmarar þurftu líka nauðsynlega á sigri að halda til að missa ekki efstu liðin of langt frá sér í töflunni.

Fyrsti leikhluti einkenndist af mikilli baráttu og gríðarlega sterkum varnarleik beggja liða. Liðin ætluðu svo sannarlega að leggja sig vel fram, varnarleikurinn var með þeim hætti að leikmenn fengu varla skotfæri. Staðan í lok fjórðungsins var 14.14.

Jafnræði var með liðunum í öðrum fjórðungi, þó höfðu heimamenn yfirhöndina í lok fyrri hálfleiks og höfðu fjögurra stiga forskot í leikhléi.

Góð byrjun eftir hlé

KR-ingar hófu síðari hálfleikinn með því að skora sex fyrstu stigin og komast yfir. Þá kom besti kafli Snæfells í leiknum með þrettán stigum gegn þremur stigum KR. Í þessum leikhluta fóru villur að hrannast upp hjá leikmönnum beggja liða og í lokafjórðungnum fóru menn að tínast útaf með fimm villur.

Gestirnir efldust með hverri mínútunni sem leið á meðan leikur heimamanna hikstaði á sama tíma. KR hafði undirtökin allan lokafjórðunginn og létu heimamenn ekki slá sig út af laginu á lokamínútunum.

Í liði Snæfells átti Hlynur Bæringsson mjög góðan leik, einn sinn besta leik í langan tíma, með tuttugu stig og sautján fráköst. Sigurður Þorvaldsson skilaði sínu einnig ágætlega, sérstaklega í sóknarleiknum. Justin Shouse hefur oft leikið betur en í þessum leik, vörnin var góð en mistökin í sókninni of mörg. Aðrir leikmenn léku undir getu.

Hjá KR átti Pálmi F. Sigurgeirsson stórleik í síðari hálfleik, var sjóðheitur með nítján stig í hálfleiknum.

Joshua Helm var einnig mjög öflugur í leiknum ásamt þeim Helga Magnússyni og Andrew Fogel. Lítið kom út úr þungum Jeramy Sola og ekkert sást til Brynjars Þ. Björnssonar.