— Árvakur/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Trausta Salvar Kristjánsson traustis@24stundir.is Fjölþjóðlegur myndavefur, celebrity.is, er nú í smíðum, þar sem almenningi gefst kostur á að senda inn myndir af frægum Íslendingum.

Eftir Trausta Salvar Kristjánsson

traustis@24stundir.is

Fjölþjóðlegur myndavefur, celebrity.is, er nú í smíðum, þar sem almenningi gefst kostur á að senda inn myndir af frægum Íslendingum. Ekki eru veittar greiðslur fyrir myndirnar og eru þær ekki varðar höfundarréttarlögum og því frjálsar öllum til notkunar og birtingar; blaðamönnum sem bloggurum.

Velsæmismörkin virt

Jens Kristjánsson er eigandi vefsins og vefstjóri. „Ég tel að það hljóti að vera markaður fyrir þetta á Íslandi. Öll dagblöðin, ásamt Séð & Heyrt, birta myndir af fræga fólkinu og það hlýtur að vera vilji fyrir því að vera með miðlægan gagnagrunn fyrir svona myndir. Það verða sérstakir birtlar, einstaklingar sem ég þarf að samþykkja, sem fá aðgang að vefnum til að setja inn sínar myndir, en þeir þurfa að virða ákveðin siðferðismörk sem ég set, hvað varðar nekt og annað slíkt. Við höfum ekki áhuga á brókarlausum íslenskum stúlkum eða strákum, þó slíkt tíðkist erlendis,“ segir Jens sem óttast ekki viðbrögð stjarnanna. „Engar myndir verða varðar höfundarréttarlögum. En ef einhver er ósáttur við að mynd af sér inni á vefnum, þá hefur sá hinn sami bara samband og málið verður leyst.“

Líst ekki á blikuna

Bubbi Morthens segir slíka þróun óheillavænlega. „Mér líst ekki á þetta. Það endar með því að þessi maður fær einhverja handrukkara í heimsókn. Þetta segir okkur í hverskonar limbói við erum eftir að Netið kom. Við lifum á mjög hömlulausum tímum þar sem kærleikur og virðing fyrir náunganum nær ekki upp á yfirborðið. Hverju skiptir þó Bubbi hafi keyrt upp í Kjós? Finnst mönnum það æðislegar fréttir? Þetta er sorgleg þróun, því fólk er hætt að lesa. Og þegar það hættir að lesa hættir það að nota heilann og verður að einskonar heilalausum Zombie-um,“ sagði Bubbi ákveðinn. Spurður hvað hann hygðist gera ef myndir af honum rötuðu á síðuna sagði hann: „Þá mun ég senda lögfræðing á hann.. Ég vil hafa eitthvað um það að segja ef menn ætla að reyna að græða á mér.“