Gunnar Sveinn Júlíusson, vélstjóri og málmiðnaðarmaður, fæddist á Akranesi 30. mars 1928. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 17. janúar síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Júlíus Einarsson, vélstjóri og skipstjóri, f. 24.7.1902, d. 21.7.1973 og Ragnheiður K. Björnsdóttir, f. 6.6.1904, d. 29.10.1996, búsett á Akranesi. Systkini Gunnars eru Einar Björn, f. 1927, látinn. Grétar Halldór, f. 1928, látinn. Guðmundur Einar, f. 1929, látinn. Júlíus Ragnar, f. 1932, látinn. Guðrún Fríða, f. 1942 og Valur Jóhannes, f. 1945.

Hinn 14.4.1952 gekk Gunnar að eiga Önnu Daníelsdóttur f. 1.8.1931. þau bjuggu lengst af á Kirkjubraut 6a Akranesi. Hún lést á Sjúkrahúsi Akraness 3.6.1999. Foreldrar hennar voru Daníel Vigfússon útgerðarmaður og smiður, síðar byggingafulltrúi, f. 16.11.1903, d. 11.5.1964 og Sigrún Sigurðardóttir, f. 2.5.1907, d. 21.5.1942, búsett á Akranesi. Systkini Önnu eru Gróa, f. 1929, látin. Guðrún, f. 1930. Hrefna, f. 1933. Sigurður, f. 1934. Sigrún, f. 1937, látin. Halldóra, f. 1939 og Margeir Rúnar, f. 1941.

Börn þeirra Gunnars og Önnu eru 1) Sigrún, f. 6.8.1950, sambýlismaður Gísli V. Jónsson. 2) Ragnheiður, f. 31.10. 1951, gift Björgvin Eyþórssyni. 3) Viðar, f. 7.9.1952, kvæntur Ág. Hafdísi Sigurþórsdóttur. 4) Daníel, f. 7.6. 1955, giftur Sigríði Ingvarsdóttur. Fyrri kona Daníels er Hrefna Lilja Valsdóttir. 5) Ívar, f. 21.12. 1956, kvæntur Bjarneyju Pálsdóttur. Fyrri kona Ívars er Erla Ólafsdóttir. 6) Dröfn, f. 21.12.1956, sambýlismaður Magnús Þráinsson. Fyrri maður Drafnar er Þorsteinn Vilhjálmsson. Fyrir átti Gunnar dótturina Svandísi, f. 1.11.1947 með Guðrúnu Óskarsdóttur frá Akureyri.

Gunnar var fæddur á Vestri-Bakka á Akranesi. Hann og tvíburabróðir hans voru næstelstir af sjö systkinum. Á sínum yngri árum stundaði Gunnar ýmsar íþróttir, en síðar kynntist hann golfíþróttinni og stundaði hana áratugum saman, eða þar til heilsan bilaði. Árangur hans á því sviði sýna fleiri tugir bikara. Hann var liðsmaður í öldungalandsliðinu og Íslandsmeistari öldunga í golfi 1985. Einnig var hann meðlimur Lúðrasveitar Akraness í mörg ár og hafði hann alla tíð mikinn áhuga á tónlist. Gunnar starfaði lengst sem málmiðnaðarmaður en á sínum yngri árum stundaði hann sjóinn og starfaði sem vélstjóri og vélvirki.

Barnabörn þeirra Gunnars og Önnu eru 21, eitt er látið og barnabarnabörnin eru orðin 16.

Útför Gunnars fer fram frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Óðum er að hverfa af sjónarsviðinu kynslóðin sem upplifði allar breytingarnar og tæknivæðinguna um og eftir seinni heimsstyrjöldina.

Ekki voru neinir tölvuleikir eða sjónvarp til afþreyingar á þessum árum og var lestur góðra bóka og allskonar grúsk aðaláhugamálið. Faðir minn var mjög fróðleiksfús og vel lesinn. Hann var skapmikill maður, með viðkvæma lund og þurfti hann oft að setja upp harða skel til að fela það sem fyrir innan bjó. Hann gat verið mjög hress og skemmtilegur þegar sá gállinn var á honum og fór ekki á milli mála hver var að hlæja þegar honum var skemmt. Honum þótti mjög vænt um barnabörnin sín og reyndi að fylgjast vel með þeim. Var hann mjög tengdur sérstaklega tveimur þeirra. Davíð, dóttursonur foreldra minna, og Rósa Björk dótturdóttir voru mjög mikið hjá afa og ömmu alla tíð og bjó Davíð um tíma hjá þeim. Þeirra missir er mikill.

Hann var á undan sinni samtíð um hreyfingu og hollar neysluvenjur og miðlaði hann þeim áhuga sínum til barna sinna.

Áhugi hans á golfi smitaði út frá sér því að bæði synir og barnabörn stunda nú golfíþróttina af miklu kappi og er einn dóttursonur hans nú í golfskóla í Bandaríkjunum vegna áhrifa frá afa sínum. Á unga aldri sýndi faðir okkar að hann hafði listræna hæfileika. Hann var mjög góður teiknari, skrifaði smásögur og var afar laghentur. Ekki var hann að flíka þessum hæfileikum sínum, því í þá daga var ætlast til að menn lærðu eitthvað praktískt og nytsamt. Árið 1981 féllu frá tveir bræður hans frá af slysförum með fimm vikna millibili. Tel ég að faðir minn hafi þar misst sína bestu félaga.

Faðir minn kynntist móður minni ungur að árum. Hún var átján ára, en hann var tuttugu og eins árs. Þau þóttu einstaklega fallegt par og hafði fólk orð á því er þau gengu um götur bæjarins. Báran, síðar Hótel Akranes, var aðalsamkomustaðurinn þar hófst samdráttur foreldra minna sem stóð í fimmtíu ár, eða allt þar til að móðir mín lést. Faðir minn bjó einn eftir andlát móður minnar þá kominn á eftirlaun. Hann eignaðist góða vinkonu í Anney Þorfinnsdóttur. Er heilsan fór að bila hjá föður mínum reyndist hún honum mjög vel. En engan tel ég á hallað þegar Rósu Björk barnabarni hans er þakkað fyrir einstaka umhyggju og alúð við afa sinn. Má segja að hún hafi verið vakin og sofin yfir velferð hans. Undir það síðasta var það hún sem hann vildi helst hafa hjá sér undir öllum kringumstæðum. Faðir minn lést eftir erfið veikindi sautjánda janúar síðastliðinn saddur lífdaga.

Ég veit að faðir minn hefur fengið góða heimkomu og að móðir mín og aðrir ástvinir hafa tekið fagnandi á móti honum í Edensgarði. Þar mundar hann nú golfkylfuna sem forðum með bros á vör.

Fyrir hönd barna hans

Dröfn Gunnarsdóttir.

Elsku afi Gunnar, ég sakna þín svo mikið. Ég man hvað ég var glaður að segja vinum mínum að afi minn ætti alvöru sverð og að hann væri bara með átta putta. Ég kom oft til þín og við teiknuðum hvor fyrir annan, horfðum á sjónvarpið saman og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Afi þú varst svo klár að teikna, ég sagði stundum við vini mína: „Förum til afa og látum hann teikna sjóræningjaskip eða skrímsli.“

Elsku afi, þú varst einn af mínum bestu vinum, við hittumst nánast daglega, nú síðast á spítalanum lá ég uppi í rúmi hjá þér og horfði á barnaefnið eða sat við borðið og vann heimavinnuna mína. Ég var svo þakklátur á átta ára afmælisdaginn minn síðastliðinn í desember, þegar þú afhentir mér sverðið og sagðir að ég mætti eiga það. Ég, átta ára lítill drengur, hafði mikla ágirnd á öllum flottu bikurunum sem þú áttir og stundum laumaðir þú einum og einum að mér.

Elsku afi, ég er mjög sorgmæddur og sakna þín mikið, en mamma geymir hluti frá þér sem ég fæ að skoða þegar ég hugsa til þín.

Takk fyrir allt, elsku afi, þinn

Símon Orri.

Elsku afi Gunnar.

Mér finnst það mjög skrýtið að þú sért hér ei lengur. Ég græt því ég sakna þín sárt en ég veit að þú ert á betri stað núna. Ég man ekki mikið eftir því sem gamalt er, en sterkasta minningin er sú þegar ég fór nánast á hverjum degi til þín og litaði í litabók, skoðaði bikarana og myndir. Ég hafði mjög mikla gleði af heimsóknunum til þín og á örugglega alltaf eftir að minnast þeirra. Með árunum minnkuðu heimsóknirnar en hættu samt aldrei. Ég man hvað mér fannst gaman að pútta inni í stofu á Kirkjubrautinni á meðan þú annaðhvort sast og horfðir á sjónvarpið eða leiðbeindir mér. Ég fór alltaf í sendiferðir fyrir þig, til dæmis út í bakarí, út í búð eða í bankann... og mér fannst það mjög gaman og hressandi. Ég man eitt aðfangadagskvöld þegar þú varst of veikburða til að koma og vera með okkur, þannig að þegar við vorum búin að borða komum við Símon yfir til þín og vorum hjá þér og spjölluðum á meðan þú tókst upp pakkana. Þegar ég var að sendast fyrir þig kom ég stundum með Tristan með mér og þér fannst það svo gaman og við hlógum svo dátt þegar hann var með frekju og setti í brýrnar. Eftir að þú fluttir sýndirðu mér þrautakassann þinn og alltaf þegar ég kom eftir það gerðum við varla neitt annað en að dunda okkur við þetta. Þegar þú varst kominn á spítalann gaf ég þér sudoku-bókina mína og ég, þú og mamma gerðum nokkrar þrautir saman. Eitt kvöld þegar ég og mamma komum til þín með snakk, gos og spilið Monopoly, þá spiluðum við mamma á meðan þú horfðir á og hlóst dátt að ósigri mömmu. Þú varst alltaf dálítill nöldurkarl og þegar þú nöldraðir í mömmu fannst mér það svo fyndið og flissaði alltaf smá. Ég man þegar við komum til þín kvöldið áður en þú lést, þá fannst mér þú alveg eins og ungbarn, svo ósjálfbjarga og lítill í þér. Þá varstu líka svo móður og gast varla talað en samt varstu að reyna að tala við mig, þú varst að segja mér hvað ég mætti velja um að fá í fermingargjöf frá þér. Mig langar líka að þakka þér fyrir þríkrossinn sem þú gafst mér.

Hvíl í friði elsku afi, þín

Júlía Björk.

Það má segja að stórum kafla í lífi mínu sé lokið. Mínar fyrstu minningar af Kirkjó eru þegar við spiluðum myllu og ég sagði „afi rauður og Rósa grænn“. Við rifjuðum þetta upp er við sátum á spítalanum fyrir stuttu og réðum saman sudoku. Kirkjó var mitt annað heimili. Við Davíð litlir heimalningar, annaðhvort í hárgreiðsluleik eða að slá golfkúlur í bolla inni í stofu. Þegar þú varst að vinna í Reykjavík passaði ég ömmu og svaf í náttfötunum þínum í holunni þinni. Það myndaðist fljótt sterkur strengur á milli okkar afa, kannski af því að við höfðum bæði stórt skap og ég gaf ekkert eftir. Golfið var stór hluti af lífi þínu og tók ég þátt í því með þér, ég dró fyrir þig kerruna í keppni. Oftar en ekki bættist í verðlaunasafnið. Það verður seint sagt um þig afi minn að þú hafir verið mjúkur maður og vorum við ekki alltaf sammála, en vissum hvar við höfðum hvort annað og áttum aldrei neitt óuppgert okkar á milli. Ég gerði mér ekki grein fyrir hversu stór hluti af lífi mínu þú varst og hvað við vorum virkilega náin fyrr en þú varst farinn og á ég eftir að sakna þín mikið, en ég veit, alveg eins og þú vissir, að þér líður betur nú hjá ömmu og það hjálpar mér í sorginni og söknuðinum. Unglegur varstu með eindæmum og fékkst oft að heyra það, enda hugsaðir þú alla tíð mikið um hvað þú borðaðir. Trúlega varstu svolítið á undan þinni samtíð í mörgu. Þú hugsaðir einstaklega mikið um hollustu, pældir mikið í jóga og varst einstaklega góður í tungumálum, þá sérstaklega ensku. Afi Gunnar, eins og ég og börnin mín kölluðum hann alltaf, var einstaklega vel lesinn og fróður maður, hann gat ráðlagt manni og sagt manni frá mörgu. Ef hann hefði fengist til að fara í spurningakeppnir á borð við Viltu vinna milljón hefði hann orðið milljónamæringur því það klikkaði aldrei; hann vissi alltaf rétta svarið. Afi var með lungnaþembu og var bundinn við súrefni síðustu árin, þegar hann hætti að geta spilað golf sökum þess var eins og lífsviljinn hyrfi. Það var ekki margt sem gladdi þig síðustu árin en þegar ég kom til þín í brúðarkjólnum í sumar til að leyfa þér að sjá mig skein gleðin úr andliti þínu. Eins þegar Jói kom og sýndi þér formið á sér fyrir fitnesskeppnina. Ég held að við höfum ekki gert okkur grein fyrir hversu veikur þú varst orðinn því þú hafðir alltaf munnin fyrir neðan nefið og varst svo kvikur í hreyfingum þó svo að þú gætir varla gert neitt. Ég segi stundum að þú hafir verið eilífðartöffari, ekki einu sinni orðinn gráhærður og varla ein hrukka á andlitinu. Ég held að síðustu ár hafi verið svolítið einmanaleg hjá þér elsku afi minn en þú áttir góða vinkonu, hana Anneyju, sem stytti þér stundir og var þér góð. Elsku afi, börnin mín sakna þín mikið því þú varst ekki síður stór hluti af lífi þeirra en mínu og mega þau þakka fyrir það. Ég geri mér grein fyrir því núna hvað okkar samband var sterkt, ég tók það sem sjálfsagðan hlut en þakka fyrir það í dag hvað við vorum náin og að hafa fengið að fylgja þér alla leið.

Hvíldu í friði.

Þín

Rósa Björk.

mbl.is/minningar

Látin er einn af frumherjum Golfklúbbsins Leynis á Akranesi, Gunnar Júlíusson, Gunni á Bakka.

Gunnar gekk í Leyni á fyrstu árum klúbbsins á 7. áratug liðinnar aldar, þá vörpulegur og vel þjálfaður íþróttamaður og náði hann snemma góðum tökum á íþróttinni. Það þótti furðu sæta því Gunnar hafði skaddast á hendi sem ungur maður og misst framan af nokkrum fingrum. Það kom ekki niður á færni hans því hann varð fljótt lágforgjafarmaður. Hann þurfti að finna sitt eigið grip af augljósum ástæðum og sveiflan varð líka hans aðlögun að fötluninni. Gunnar var sjálfmenntaður kylfingur, fór ekki til golfkennara en vann eftir erlendum golfbókum og tímaritum sem hann las með miklum áhuga. Sjaldan var komið að tómum kofunum hjá Gunnari um hvað var efst á baugi í heimi golfíþróttarinnar.

Hann vann í málmiðnaðinum og var óragur við að smíða sér sína eigin púttera og þróa þá á ýmsa lund, enda voru þá að ganga í garð tímar mikilla umbreytinga á golfkylfum sem hann fylgdist harla vel með í erlendum tímaritum. Hann fjárfesti í Ping-setti sem hann fékk að utan fljótlega eftir að þau komu fyrst á heimsmarkaðinn, með inngreyptu nafni hans á hverja kylfu.

Gunnar sótti opin golfmót og lék á Íslandsmótum og náði þeim árangri að verða Öldungameistari Íslands árið 1985. Þá vann hann sér einnig sæti í öldungalandsliði og lék sem slíkur fyrir Íslands hönd, auk þess sem hann vann til meistaratitla í klúbbnum sínum. Gunnar sat einnig um skeið í stjórn Golfklúbbsins Leynis á fyrstu árum hans.

Gunnar var glaðvær maður og kunni mikið af sögum og hafði unun af að fræða aðra um málefni golfheimsins. Hann var þannig mjög líkur bróður sínum, Júlíusi R. Júlíussyni, sem einnig var afreksmaður í golfíþróttinni en féll sviplega frá í slysi langt fyrir aldur fram í ferð íslenska landsliðsins til Lúxemborgar.

Með árunum versnaði heilsa Gunnars svo hann gat aðeins leikið golf með aðstoð golfbíls og að lokum varð hann að hætta golfiðkuninni alveg. Það er mikill sjónarsviptir að Gunnari úr hópi Leynismanna. Þeir sem kynntust honum á fyrri árum munu ávallt heiðra minningu hans, muna glaðværðina og hláturinn og dást að þeirri eljusemi og ákveðni sem gerðu hann að þeim afrekskylfingi sem hann varð.

Fyrir hönd Golfklúbbsins Leynis votta ég öllum aðstandendum Gunnars dýpstu samúð og þakka jafnframt fyrir hans framlag til golfíþróttarinnar.

Blessuð sé minning hans.

Hannes Þorsteinsson.