Fulltrúar núverandi minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa mikið talað um lýðræðið undanfarna daga. Í hádeginu í gær létu þeir hins vegar aðför að lýðræðinu og leikreglum þess óátalda.

Fulltrúar núverandi minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur hafa mikið talað um lýðræðið undanfarna daga. Í hádeginu í gær létu þeir hins vegar aðför að lýðræðinu og leikreglum þess óátalda. Slíkt er sem betur fer fáheyrður atburður á Íslandi, en verður ekki skárra fyrir vikið.

Ungliðahreyfingar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks, auk stuðningsmanna Margrétar Sverrisdóttur, höfðu skipulagt mótmæli við Ráðhúsið gegn myndun nýs meirihluta í borgarstjórn. Rétturinn til slíkra mótmæla er stjórnarskrárvarinn og algjörlega sjálfsagt að nota hann.

Þegar stuðningsmenn minnihlutans í borgarstjórn stöðvuðu hins vegar löglega boðaðan fund í löglega kjörinni borgarstjórn með háreysti og látum, hættu aðgerðir þeirra að vera mótmæli og urðu skrílslæti.

Íslenzk stjórnmál hafa til þessa einkennzt af friðsamlegum baráttuaðferðum, með örfáum undantekningum, sem flestar eru orðnar áratugagamlar. Vill almenningur á Íslandi að stjórnmálabarátta í landinu fari fram með slíkum meðulum? Að fólki finnist sjálfsagt að stöðva fund í sveitarstjórn með skrílslátum?

Æstu ungliðarnir í Ráðhúsinu gátu komið skoðunum sínum á framfæri með öðrum aðferðum. Þeir hefðu getað borið mótmælaspjöld eða bara bloggað eða skrifað blaðagrein þegar þeir komu heim. Þess í stað brutu þeir bæði óskráðar leikreglur lýðræðisins og lagabókstafinn, t.d. þá grein hegningarlaganna, sem bannar fólki að raska fundarfriði á lögboðnum fundum um opinber málefni.

Í stað þess að koma fram af ábyrgð, hasta á stuðningsmenn sína og biðja þá að virða lög, létu oddvitar minnihlutaflokkanna í borgarstjórn lætin óátalin og sögðust í beinum sjónvarpsútsendingum ýmist ekkert vera hissa á skrílslátunum eða þökkuðu sínu fólki kærlega fyrir að koma og hleypa upp fundinum. Þar með féllu þeir kylliflatir ofan af þeim pólitíska siðferðisstalli sem þeir hafa verið að reyna að klöngrast upp á í vikunni.

Getur verið að hefð friðsemdar og löghlýðni í íslenzkri stjórnmálabaráttu sé á undanhaldi? Stjórnmálamenn úr a.m.k. tveimur af flokkunum, sem nú sitja í minnihluta borgarstjórnar, þ.e. Samfylkingu og Vinstri grænum, hafa talið sjálfsagt að andstæðingar virkjunar- og álversframkvæmda létu „skoðanir“ sínar í ljósi með því að trufla löglega starfsemi fyrirtækja og vinna skemmdarverk.

Heitir allt „friðsamleg mótmæli“ ef það eina skilyrði er uppfyllt, að enginn sé laminn?