Bjarki Freyr Guðmundsson markvörður Keflvíkinga er búinn að skipta yfir í Þrótt . Hann hafði lýst yfir að hann vildi leika á höfuðborgarsvæðinu í sumar vegna vinnu og fékk sig lausan undan samningi hjá Keflavík.
Bjarki Freyr Guðmundsson markvörður Keflvíkinga er búinn að skipta yfir í Þrótt . Hann hafði lýst yfir að hann vildi leika á höfuðborgarsvæðinu í sumar vegna vinnu og fékk sig lausan undan samningi hjá Keflavík. Þróttarar verða því ekki markmannslausir því nýlega gekk Ólafur Þór Gunnarsson til liðs við félagið úr FH .

B aldur Ingimar Aðalsteinsson úr Val fékk tvö gul spjöld með mínútu millibili þegar Íslandsmeistararnir mættu nýliðunum í úrvalsdeildinni, Fjölni , í Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu í Egilshöllinni í gærkvöld. Garðar Örn Hinriksson rak þar með Baldur af velli, stundarfjórðungi fyrir leikslok. Þá voru bæði mörk leiksins komin en hann endaði 1:1. Pálmi Rafn Pálmason kom Val yfir en Tómas Leifsson jafnaði fyrir Fjölni.

Gunnar Kristjánsson skrifaði í gær undir tveggja ára samning við Víking í Reykjavík , þrátt fyrir að liðið félli úr úrvalsdeildinni í haust. Gunnar kom til Víkings frá KR fyrir síðasta tímabil og flestir reiknuðu með því að hann myndi flytja sig um set og spila áfram í efstu deild. Gunnar er tvítugur og leikur með 21-árs landsliðinu en hann var valinn í A-landsliðshópinn síðasta vor.

J ón Arnór Stefánsson og félagar hans í Lottomatica Róma tryggðu sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær með því að leggja Barcelona , 77:75, á útivelli. Jón Arnór lék ekki með vegna meiðsla en Róma hefur náð sér vel á strik í Meistaradeildinni og unnið 5 af síðustu 6 leikjum.

Steve Duplantis , sem var þekktur kylfuberi á PGA-mótaröðinni í golfi, lést á miðvikudag en hann varð fyrir leigubíl þegar hann gekk yfir götu í San Diego . Hinn 35 ára gamli Duplantis var úrskurðaður látinn skömmu eftir að sjúkrabifreið kom á svæðið. Duplantis var starfsmaður hjá atvinnukylfingnum Eric Axley en þeir ætluðu að vinna saman á Buick meistaramótinu sem hófst í gær San Diego. Duplantis hefur starfað með þekktum kylfingum og má þar nefna Jim Furyk , Rich Beem og Tommy Armour III .

George Burley var í gær ráðinn landsliðsþjálfari Skotlands . Hann hættir þar með störfum sem knattspyrnustjóri enska 1. deildarliðsins Southampton sem hann hafði stýrt í tvö ár.