Hulda Björnsdóttir fæddist á Kjalvararstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði 1. apríl 1931. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 12. janúar síðastliðinn og var jarðsungin frá Grindavíkurkirkju 19. janúar.

Elsku amma.

Okkur finnst svo skrýtið að þú sért farin úr þessum heimi. Hugur okkar reikar til þess tíma er við vorum í skólanum í Grindavík og maður gat komið í heimsókn í frímínútum. Við vorum mikið öfundaðir af því að eiga svona góða ömmu sem tók alltaf vel á móti okkur og gerði allt fyrir okkur.

Það leið varla sá dagur að við kæmum ekki í heimsókn á Gnúp og fengjum okkur kókómjólk og með því í boði ömmu og afa. Alltaf var nóg til handa öllum.

Það voru spiluð heilu fótboltamótin á blettinum en eitt þeirra endaði því miður á því að rúða í gróðurhúsinu við hliðina brotnaði. Prakkarastrikin voru mörg og hafðir þú ótrúlega mikla þolinmæði í okkar garð.

Eftir standa eingöngu góðar minningar. Hvort sem það var þegar við komum í heimsókn á Gnúp eða þegar við fórum með þér og afa austur í bústað. Þú dekraðir alltaf við okkur.

Okkur finnst ekki vera jól nema að koma á Gnúp eftir að hafa opnað alla pakkana og fá hjá þér heitt súkkulaði og kökur. Þú tókst alltaf á móti allri hersingunni með glæsibrag. Það var skrítið núna um jólin sem voru þau fyrstu síðan við fæddumst sem við komum ekki til ykkar á aðfangadag og um áramótin.

Það hefur verið ómetanlegt að alast upp í stuttu göngufæri frá heimili ykkar afa. Alltaf áttum við þar griðastað og hafðir þú ávallt tíma fyrir okkur, hvort sem við stoppuðum stutt eða vorum hjá þér heilu dagana.

Það voru margar góðar stundirnar sem við áttum með þér, amma, og munu þær minningar um þig lifa alltaf í okkar hjörtum.

Elsku afi, við vitum að það eru erfiðir tímar framundan í sorginni, við munum standa saman og styrkja hvert annað.

Heiðar Hrafn, Tómas

Þór, Gunnlaugur, Gunnar og fjölskyldur.

Elsku amma.

Nú ert þú fallin frá. Það gerðist alltof snöggt. Eina stundina vitum við ekki betur en að þú eigir eftir að vera með okkur í mörg ár í viðbót. En síðan veikistu illa og innan nokkurra vikna ertu látin. Við fengum þó blessunarlega að hafa þig hjá okkur um jólin.

Þegar við lítum aftur yfir liðin ár þá er engin ein minning sem stendur uppúr. Það eru allar litlu smáminningarnar sem gera þig svo ástkæra okkur. Hvað þið bjugguð nálægt okkur svo að við gátum skroppið í heimsókn án nokkurs fyrirvara. Græna kakan sem þú bakaðir og áttir næstum alltaf til. Sjónvarpshornið uppi á efri hæðinni heima á Gnúpi, þar sem við gátum setið tímunum saman með kókómjólk og karamellukex að horfa á Tomma og Jenna eða He-Man. Hvað þú varst eftirlátsöm og spilltir okkur. Ef mamma leyfði okkur ekki eitthvað var farið til þín til að fá það.

Sumrin uppi í bústað með þér og afa standa sérstaklega uppúr. Og jóla- og áramótaveislurnar þínar þar sem öll stór-fjölskyldan hittist og hver óskaði öðrum gleðilegra jóla og nýs árs. En umfram allt er það tilfinning um hvað það var gott og þægilegt að vera hjá þér, hvað þú varst góð við okkur.

Hvíl þú í friði, elsku amma okkar. Þú munt alltaf lifa í hjörtum okkar.

Þín barnabörn,

Halldór Ingvi, Hrannar Jón og Helgi Hrafn

Heima hjá ömmu og afa var okkar annað heimili. Þangað var stutt að fara úr skólanum í heimsókn og því var mjög vinsælt að kíkja á Gnúp í frímínútum og eftir skóla. Amma tók ávallt hlýlega á móti okkur og gætti þess að alltaf væri til trópí, kókómjólk og kex handa okkur krökkunum. Og ef við settum upp hvolpaaugun gaf hún okkur jafnvel aur til að leigja vídeóspólu. Það var ýmislegt sem við gerðum af okkur í gegnum tíðina en ekkert virtist koma ömmu úr jafnvægi. Vinsæll staður til að prakkarast var t.d. í sumarbústaðnum hjá ömmu og afa. Við áttum ýmsa leynistaði í kringum Selhól þar sem við lékum okkur en þegar afi hringdi kúabjöllunni rákum við upp kollinn því þá var amma tilbúin með matinn. Á kvöldin kúrðum við svo oft í fanginu á henni við snarkandi eld í arninum. Ömmu og afa tókst að rækta landið vel þrátt fyrir mikinn ágang okkar krakkanna.

Eftir því sem við eldumst og þroskumst verða minningarnar verðmætari og við þakklátari fyrir þann tíma sem þú gafst okkur, amma. Þú munt ætíð eiga stað í hjarta okkar.

Tómas, Jóhann Vignir, Brynjar Örn og Óskar.

Elsku besta systir mín. Ég var lítil stelpa þegar ég man fyrst eftir þér og ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Ég geymi í huga mínum allar þær góðu stundir sem ég átti með fjölskyldu þinni. Ég og Kristrún vinkona mín munum þegar við fórum í sumarbústaðinn ykkar, það var mjög gaman. Við sváfum í litla húsinu og við vorum aldrei svangar. Þú hefur alltaf verið svo góð við okkur.

Guð blessi þig.

Þín systir

Didda og Kristrún.

Elsku Hulda systir mín.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Elsku Toddi, Eiríkur, Gunnar, Stefán, Gerða Sigga og fjölskyldur, Guð gefi ykkur styrk í þessari miklu sorg.

Þín systir

Gerður Ben.

Nú hefur mín kæra vinkona Hulda Björnsdóttir verið leyst þrautunum frá. Hún kvaddi laugardaginn 12. jan. sl. eftir harða baráttu við illvígan sjúkdóm.

Það var fyrir rúmum fimmtíu árum að okkar kynni hófust en þá var ég svo lánsöm að fá að gæta þriggja sona þeirra Huldu og Tómasar, þeirra Eiríks 5 ára, Gunnars 4 ára og Stefáns Þorvaldar 2 ára. Á sama tíma gætti Margrét frænka mín þriggja barna Ólafíu ljósmóður og vorum við oft saman, þessi litli 8 manna hópur, hingað og þangað um plássið. Róluvellir voru ekki komnir til sögunnar á þessum tíma í Grindavíkinni svo við þurftum að hafa ofan af fyrir okkur sjálf. Fórum í berjamó inn í Kúadal og fleira í þeim dúr. Hulda var rúmlega tvítug þegar Tómas kom með sína ungu og fallegu konu, sem hann hefur ætíð unnað svo mjög, til Grindavíkur.

Þeim fæddust 3 synir á 4 árum og nokkrum árum seinna dóttirin Gerður Sigríður. Allt föngulegur hópur. Að sjálfsögðu var mikil vinna í kringum þetta, einkum þar sem húsmóðirin saumaði og prjónaði flíkurnar á börnin.

Hulda var vel gefin, hlý, góð, fordómalaus og jákvæð kona.

Vegna þessa sótti ég mjög í félagsskap hennar og þó ég væri hjá þeim mestallan daginn þá fékk ég líka að vera hjá henni svolítið á kvöldin, og var það mikilvægt ungri stelpu að hún ræddi við mig næstum sem fullorðna manneskju og leiðbeindi mér og gaf gott veganesti fyrir lífið.

Hulda og Tómas festu fljótt kaup á bíl og voru dugleg við að fara í útilegur. Var mér ævinlega boðið að koma með þó oft væri ég dyntótt og leiðinleg. Þau létu það sem vind um eyru þjóta. Þau voru vel að sér í bæjar- og staðarnöfnum og bý ég enn að vitneskju sem ég fékk á þessum tíma.

Ég var svo lánsöm að fá að vera hluti af þessari fjölskyldu og alla tíð síðan hefur þessi vinskapur haldist.

Ég bið Guð að gefa Tómasi, börnunum, tengdabörnum og barnabörnum styrk í sorginni og öllum sem um sárt eiga að binda.

Megi Drottinn taka þig í sinn náðarfaðm. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Vaktu, minn Jesús, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

(Hallgrímur Pétursson.)

Helga Hrönn Þórhallsdóttir.

Elsku Hulda mín.

Nú ert þú búin að yfirstíga þröskuldinn sem skilur á milli lífs og dauða. Svo hratt að við öll stöndum og trúum ekki að þú sért farin. Ég er samt glöð fyrir þína hönd og þinna nánustu að stríðið var stutt. Ég læt hugann reika og sé fyrir mér konu sem mér þótti vænt um, sem var mér alltaf góð og nærgætin, örlát og elskuleg. Þitt mottó í lífinu var að sælla er að gefa en að þiggja. Mig langar með þessum fáu fátæklegu orðum að þakka þér fyrir allt, Hulda mín og biðja góðan Guð að blessa og varðveita hann Tómas þinn, öll börnin og fjölskylduna alla. Ég kveð þig með versi úr sálmi eftir S. Kr. Pétursson.

Þegar æviröðull rennur,

rökkvar fyrir sjónum þér,

hræðstu eigi, hel er fortjald,

hinum megin birtan er.

Höndin, sem þig hingað leiddi,

himins til þig aftur ber.

Drottinn elskar, – Drottinn vakir

daga og nætur yfir þér.

Þín

Ester.

„Það er gaman að vera með ykkur“. Þannig ávarpaði Hulda gesti sína, hvort sem þeir voru fleiri eða færri, og bauð þá þannig velkomna á hlýlegan hátt. Það leið líka öllum vel nálægt þeim hjónum og menn fundu að þeir voru velkomnir.

Við Bärbel kynntumst þeim eitt haust úti í Portúgal, fyrir tæpum áratug, og það reyndist svo að við hittumst þar á sama tíma úr því, þar til fyrir tveimur árum að versnandi heilsa bannaði þeim för. Strax við fyrstu kynni komu Biskupstungur í umræðuna. Tómas hafði verið kaupamaður þrjú sumur í Bræðratungu og Skálholti, og þau hjón höfðu ræktað kunningsskap við marga Tungnamenn og fylgst vel með málum í sveitinni. Einnig höfðu margir Tungnamenn farið í verið til Grindavíkur, bæði að fornu og nýju, og unnið hjá fyrirtæki þeirra hjóna.

Fyrstu haustin, þarna í Portúgal, voru þau svo létt á fæti, að þau gengu bæinn þveran og endilangan á kvöldin, þegar þau fóru út að borða sína daglegu fiskmáltíð, þó svo að mörg gatan sé á fótinn í þeim bæ Albufeira. Þegar ég sagði þeim svo frá því í hótelgarðinum, einu sinni, að ég smakkaði aldrei fisk í suðurlöndum, því að ég teldi það örugga ávísun á spítalavist, þá sáu þau að við svo mikla fordóma mætti varla láta standa. Það varð því úr að þau hjón, Tómas og Hulda, buðu okkur á fiskistað þar sem allt var til reiðu af ávöxtum hafsins, og vandinn ekki annar en að velja.

Ekki var við því að búast að við hjónin legðum í rækjur eða skelfisk, konurnar fengu sér sólkola, en við Tómas fengum norskan saltfisk og það ágætan.

Þar með varð það árviss siður að snæða eitt kvöld rjómalagaðan, ofnbakaðan saltfisk á Grandmothers House, og þegar við komum þar síðast í haust, þá spurði þjónninn um hjónin sem alltaf hefðu komið með okkur. Svona taka þeir eftir gestum sínum, Portúgalarnir, það eru mörg dæmi um það.

Þau Hulda og Tómas höfðu ákaflega þægilega nærveru á svona ferðalögum. Það var hist í garðinum og spjallað, svo fóru þau að synda sínar tvær umferðir, annað í einu, en hitt gætti að á meðan.

Svo skiptumst við kannski á bókum eða blöðum, töluðum um bækur eða hvað sem var.

Alltaf voru þau jafn nærgætin og tillitssöm. Stundum komu þau í kaffi til okkar upp í íbúð, og þar sögðu þau margt frá gamalli tíð, óteljandi ferðalögum, tengdum sölusamningum við saltfisklöndin í Suður-Evrópu, og vítt og breitt um Suður-Ameríku. Á þessum ferðalögum lentu þar í margvíslegum ævintýrum, en hittu líka og eignuðust góða vini þar sem þau komu, því þar sem góðir fara eru guðs vegir.

Hulda sómdi sér vel við hlið Tómasar, og studdi hann vel í öllum hans störfum og framkvæmdum, bæði opinberum og við eigin fyrirtæki. Þau hafa verið mikið gæfufólk, að fá að vera saman svona lengi í ást og eindrægni og skila saman ævistarfi til komandi tíðar í landinu.

Tómas vinur. Þinn missir er mikil, en þú hefur átt frábæran lífsförunaut. Við Bärbel færum þér og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Huldu kveðjum við með orðum hennar sjálfrar: Það var gaman að vera með þér.

Ólafur og Bärbel,

Syðri-Reykjum.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast frænku minnar Huldu Björnsdóttur, en við vorum systradætur.

Alla tíð sýndi Hulda mér mikinn kærleika og þó að við hittumst ekki oft var alltaf einhver strengur á milli okkar. Ætíð ef eitthvað amaði að hjá mér hringdi hún í mig til að vita hvernig ég hefði það.

Síðast sáumst við á ættarmóti Kjalvararstaðaættarinnar sem haldið var í Logalandi síðastliðið sumar og var mjög vel heppnað. Hún hringdi svo í mig stuttu seinna og áttum við gott spjall saman um vináttu hennar við móður mína sem ég missti allt of fljótt. Hafði ég mikinn hug á að heimsækja Huldu og heyra meira frá henni um samband hennar og móður minnar sem hún sagði að hefði verið mjög gott, en í tímans annríki og hraða leið tíminn og fór frá mér.

Skömmu eftir að móðir mín dó og ég hafði eignast mitt eigið heimili uppi í Hraunbæ kom Hulda í heimsókn og færði mér fallegan bláan vasa sem ég á enn í dag og minnir mig ætíð á hana.

Hulda mín, ég vil að leiðarlokum þakka þér innilega fyrir alla frændsemina og tryggðina í gegnum árin.

Ég sendi Tómasi og börnunum ykkar og öllum afkomendum mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið Guð að blessa ykkur öll.

Særún Sigurgeirsdóttir.

Hver dagur er sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir.

Hvað kemur upp í hugann þegar þú í dagsins önn opnar blaðið og sérð dánartilkynningu um vin, vin sem sem þú hittir sjaldan í dag, veist af honum, færð kveðju, gleðst með því góða sem þú fréttir af honum og fjölskyldunni, sendir árlega jólakort, símtöl við einstök tækifæri. Hve mörg þekkjum við ekki þetta. Ár og áratugir fljúga áfram. Breyttir tímar frá því að vera heimagangur, vera eins og elsta dóttirin, besta vinkonan, eiga trúnað, skynja þessa djúpu væntumþykju, samúð og kærleika, vera komnar frá svipaðri rót.

Elsku Hulda mín. Hvernig stendur á því að við höldum að tíminn sé endalaus og morgundagurinn verði betri til að hafa samband? Ég þakka þér fyrir alla þína vináttu, tryggð og þá hjálpsemi sem þið hjónin sýnduð mér á mínum fyrstu starfsárum þegar ég kom til ykkar og þú bjóst til aðstöðu fyrir mig að vinna að mínu fagi, þá aðeins tvítug að aldri.

Ég vil tileinka þér eftirfarandi og okkur öllum til umhugsunar.

Í grenndinni veit ég um vin, sem ég á,

í víðáttu stórborgarinnar.

En dagarnir æða mér óðfluga frá

og árin án vitundar minnar.

Og yfir til vinarins aldrei ég fer

enda í kappi við tímann.

Sjálfsagt þó veit hann ég vinur hans er,

því viðtöl við áttum í símann.

En yngri vorum við vinirnir þá,

af vinnunni þreyttir nú erum.

Hégómans takmarki hugðumst við ná

og hóflausan lífróður rérum.

„Ég hringi á morgun,“ ég hugsaði þá,

„svo hug minn fái hann skilið“,

en morgundagurinn endaði á

að ennþá jókst milli' okkar bilið.

Dapurleg skilaboð dag einn ég fékk,

að dáinn sé vinurinn kæri.

Ég óskaði þess, er að gröf hans ég gekk,

að í grenndinni ennþá hann væri.

Sjálfur, ef vin þú átt góðan í grennd

gleymdu' ekki, hvað sem á dynur,

að albesta sending af himnunum send

er sannur og einlægur vinur.

(Höf. ók. Þýð. Sig. Jónsson)

Elsku Toddi, Gerða Sigga, Eiríkur, Gunnar, Stefán og fjöldskyldur. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Megi Guðshönd styrkja ykkur öll á þessari sorgarstundu, við hefðum öll viljað hafa Huldu hjá okkur mikið lengur. Áttum svo margt eftir að segja.

Guð veri með ykkur.

Eygló og Reynir.

Hér sit ég ein og skrifa nokkrar línur um systur mína Huldu og læt þögnina vinna með mér. Hulda var elst af okkur systrum, þrettán árum eldri en ég. Ég þakka fyrir árin sem ég átti með henni. Hún var alltaf hlý og góð, meira að segja þegar hún setti ofan í við mig; hún byrjaði alltaf: Þóra mín.

Hulda var töfrandi persónuleiki, hún vildi alla verja með kærleika sínum, hvort sem í hlut áttu menn eða dýr.

Ég man þegar ég var lítil stúlka þá horfði ég stundum á hana tímunum saman þar sem hún sat og saumaði út; hún var svo glæsileg, hún Hulda systir mín.

Þegar ég var unglingsstúlka var ég á vertíð einn vetur og bjó þá hjá þeim hjónum á Gnúpi. Þar lærði ég margt nytsamlegt eins og að sauma í dúka og sængurver og ef það var ekki nógu vel gert lét Hulda mig rekja það allt upp aftur; á því lærði ég mikið og hefur það dugað mér fram til þessa.

Heimili þeirra hjóna var einstaklega smekklegt og snyrtilegt enda var Hulda frábær húsmóðir, allt var í röð og reglu, meira að segja geymslan.

Þegar Toddi var í útlöndum að erindast þá vann hún á skrifstofunni á heimili þeirra og oft var mikið gera, sérstaklega um mánðamót þegar launin voru greidd út. Þá mættu sjómennirnir á bátunum og heilsuðu upp á mig í leiðinni.

Það var alltaf glatt á hjalla á Gnúpi. Húsmæðurnar í nágrenninu litu inn í morgunkaffi um leið og þær fóru í búðina.

Minningin um elskulega systur lifir svo lengi sem ég lifi.

Nú kveðjustund er komin

kæra systir mín,

ég leyfi tárum trítla

í trega niður kinn.

Ég alltaf vildi vera

vina eins og þú.

Ég minnist þess sem lítil stúlka

að vera eins og þú.

Já, svona eins og hún.

Brátt mun sorgin sefast

við sjáumst aftur fljótt.

Í sölum þeim við syngjum

sjálfum Guði lof.

Við hjónin vottum Todda, systkinum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum dýpstu samúð okkar. Við biðjum Guð að styrkja ykkur á þessum erfiða tíma.

Þóra Björk og Lúðvík.

Mig langar að kveðja kæra vinkonu og þakka alla vináttu og tryggð sem haldist hefur og aldrei borið skugga á, síðan ég flutti til Grindavíkur fyrir meira en 50 árum. Alltaf hringdi Hulda til að kveðja þegar þau hjónin voru að fara til útlanda og alltaf kom hún færandi hendi til baka. Ógleymanlegar eru stundirnar í sumarbústöðunum okkar meðan Hjalti var á lífi, þar var oft glatt á hjalla og mikið hlegið.

Eftir að ég flutti í Suðurhóp 1 og þið líka leið varla sá dagur sem við hittumst ekki og alltaf voru samverustundirnar jafn ljúfar.

Ég kveð yndislega og góða konu með virðingu og söknuði.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Tómasi og fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð.

Petra G. Stefánsdóttir.