Gleði Frakkinn Jo-Wilfried Tsonga fagnar sigrinum á Rafael Nadal.
Gleði Frakkinn Jo-Wilfried Tsonga fagnar sigrinum á Rafael Nadal. — Reuters
JO-WILFRIED Tsonga frá Frakklandi er ekki sá þekktasti á atvinnumótaröðinni í tennis en hann kom verulega á óvart í undanúrslitum í einliðaleik karla í á Opna ástralska meistaramótinu í gær. Þar lagði hann lagði Spánverjann Rafael Nadal, 6:2, 6:3 og 6:2.

Maria Sharapova frá Rússlandi átti ekki í vandræðum gegn Jelenu Jankovic frá Serbíu í undanúrslitum í einliðaleik kvenna. Sharapova sigraði 6:3 og 6:1 en viðureignin stóð aðeins yfir í 78 mínútur. Hún mætir Ana Ivanovic frá Serbíu í úrslitum.

Þetta er annað árið í röð sem Sharapova kemst í úrslit á þessu móti en hún tapaði fyrir Serenu Williams frá Bandaríkjunum í úrslitum í fyrra. „Ég er að sjálfsögðu ánægð og ég vona að ég haldi áfram að leika svona vel í úrslitaleiknum,“ sagði Sharapova í gær. Ana Ivanovic lagði Daniela Hantuchova frá Slóvakíu í undanúrslitum. Ivanovic náði sér ekki á strik í fyrstu lotunni sem hún tapaði 6:0 en hún vann næstu tvær lotur, 6:3 og 6:4.

Tsonga einfaldlega betri

Nadal, sem hefur sigrað þrívegis á Opna franska meistaramótinu, var annar á styrkleikalista mótsins en Tsonga var ekki á styrkleikalistanum. „Ég lék vel en hann lék betur,“ sagði Nadal í gær. Tsonga var hógvær eftir sigurinn. „Áhorfendur studdu vel við bakið á mér og þeir eiga stóran þátt í þessu sigri. Mér hefur aldrei liðið eins vel á vellinum. Allt sem ég gerði heppnaðist og hver einasta hreyfing var fullkomin,“ sagði Tsonga.

Roger Federer frá Sviss og Novak Djokovic frá Serbíu leika til undanúrslita í dag í Melbourne og sigurvegarinn mætir Tsonba í úrslitum á sunnudag.