Ársæll Valfells
Ársæll Valfells
Ársæll Valfells fjallar um gjaldmiðla: "Stjórnvöld eiga erfitt með að tryggja stöðugleika í peningamálum. Fréttir af kjaraviðræðum sýna að peningamál eru lykilatriði í að tryggja stöðugleika."

FRÁ stofnun Seðlabanka Íslands (SÍ) 1961 hafa stjórnvöld átt í erfiðleikum með að finna aðferðir sem tryggja stöðugleika í peningamálum og þar með efnahagslífi landsmanna. Frá því að SÍ var falið hlutverk stjórnunar peningamála, hefur lengsta tímabil verðstöðugleika verið í kjölfar þjóðarsáttar og fastgengis frá 1990 til 1999. Það fyrirkomulag gekk sér til húðar 2001, en ástæða þess að vikið var frá fastgengisstefnu var mikill viðskiptahalli sem skapaðist í kjölfar þenslu á árunum 1998 til 2000 sem á endanum gerði það að verkum að stjórnvöld neyddust til þess að breyta stefnu sinni í peningamálum. Tekið var upp fljótandi gengi og vaxtastýring SÍ út frá verðbólgumarkmiði, að fyrirmynd Nýsjálendinga (NS).

Á þeim tíma virtust NS hafa komið sér upp aðferð til að halda verðbólgu í skefjum og tryggja efnahagslegan stöðuleika. Árangur þeirra við að tryggja verðstöðugleika hefur verið góður, en nokkrar blikur eru nú á lofti í peningamálum þeirra vegna mikils umfangs vaxtamunarviðskiptabréfa sem kallast Uridashi- og Kiwi-bréf.

Vaxtamunarviðskiptin hafa stuðlað að óeðlilega háu gengi NS gjaldmiðilsins og í júní 2007 greip seðlabanki NS til aðgerða til að stemma stigu við hækkun hans. Í júlí 2007 lét fjármálaráðherra NS í veðri vaka að hann gæti notað neyðarlög til að afnema verðbólgumarkmið bankans.

Árið 1961 skrifaði nóbelsverðlaunahafinn og kennifaðir evrópska myntsamstarfsins Robert A. Mundell grein sem fjallar um hvað geti talist hagkvæmt gjaldmiðilssvæði. Sú grein leggur grundvöllinn að núverandi skilningi manna á hagrænu eðli gjaldmiðla. Lykilþáttur í greiningu Mundell er að þjóð er ekki það sama og hagkvæmt gjaldmiðlissvæði. Gjaldmiðlar sem skilgreindir eru út frá hugtakinu þjóð eru arfleið frá þeim tíma er peningar voru ávísanir á gull. Með tilurð þjóðríkis komu stjórnvöld sér upp gullforða og prentuðu ávísanir á gull og skiptigengi gjaldmiðla þjóða var fast. Árið 1971 hættu vestrænar þjóðir endanlega að nota gull sem grundvöll verðmæta gjaldmiðilsins, enda var fólk þá tilbúið að samþykkja hlutverk pappírspeninga sem verðmæti í sjálfu sér. Í kjölfarið var fast gengi gjaldmiðla milli ríkja afnumið og gjaldmiðlar keyptir og seldir á markaði. Mundell var andsnúinn þessari þróun og fylgismaður áframhaldandi fastgengisstefnu þó ekki væri lengur um gullfót að ræða. Um þannig atburð skrifar Mundell í grein sinni frá 1961: „Ef hægt er að færa rök fyrir breytilegu gengi gjaldmiðla, þá byggjast rökin fyrir breytanlegu gengi á svæðis gjaldmiðlum, ekki þjóðargjaldmiðlum [þýð. höf.]“. Íslensk stjórnvöld halda hins vegar úti þjóðargjaldmiðli með fljótandi gengi sem væri því ekki skynsamlegt að mati Mundell.

Mundell fjallar einnig í grein sinni um vankanta þess að smærri ríki með opin hagkerfi styðjist við fljótandi gengi í fyrirkomulagi peningamála. Um það efni fjallar hann aftur síðar og segir í ræðu sem haldin var við Háskólann í Tel Aviv des. 1997: „Í grein minni... [frá 1961] hélt ég því fram að breytanlegt gengi myndi ekki virka í smáum opnum hagkerfum vegna þess að skilvirkni kerfisins er þá háð verðgildisskynjun peninga sem er óraunhæf. Ennfremur er skynjun fólks á verðgildi peninga háð reynslu. Því meiri verðbólga sem ríkir hjá þjóð, í þeim mun meiri mæli byggir þjóðin hana inn í væntingar sínar og í þeim mun meiri mæli munu verkalýðsfélög þvinga inn verðbólguvæntingar í launakröfur. Fyrsta gengisfellingin mun virka ef ekki fylgir mikil verðbólga í kjölfarið; önnur gengisfelling býður upp á viðbrögð í launakröfum; þriðja gengisfellingin kallar á kröfur um leiðréttingu.[þýð. höf.]“

Fréttir af núverandi kjaraviðræðum þar sem peningamálastjórnunin er orðin að lykilatriði, eru eins og runnar beint úr penna Mundell. Fréttir um að félög innan ASÍ vilji nú annaðhvort skammtímasamning eða semja til tveggja ára lýsir ótta þeirra um að kjarabætur brenni upp í verðbógu. Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins skrifar í leiðara 1 tbl. fréttabréfs samtakanna 2008: „Samtök atvinnulífsins hafa lengi gert það ljóst að það er ekki vilji til að ganga frá nýjum kjarasamningum nema breyting verði á peningamálastefnu Seðlabankans. Vaxtastefna bankans er í hreinni sjálfheldu og nú fara langtímavextir á markaði lækkandi þrátt fyrir hina háu stýrivexti.“

Með vísan í rök Mundell ætti aðalsamkomulagsefni Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaga í núverandi kjaraviðræðum að vera hvernig hægt sé að fá íslensk stjórnvöld til að losa landið við fljótandi þjóðargjaldmiðil og tengjast þess í stað hagkvæmu gjaldmiðilssvæði.

Höfundur er lektor við viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Höf.: Ársæll Valfells fjallar um gjaldmiðla