Sigurbjörg Guðmundsóttir fæddist í Flatey á Skjálfanda 24. nóvember 1914. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð 15. janúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Þuríður Elísa Pálsdóttir frá Brettingsstöðum á Flateyjardal, f. 26. febrúar 1889, d. 8. janúar 1943 og Guðmundur Jónasson, útvegsbóndi og kaupfélagsstjóri frá Vík á Flateyjardal, f. 12. okt. 1886, d. 13. sept. 1958. Systkini Sigurbjargar sem upp komust, voru Gunnar, f. 1912, d. 1989, Emilía, f. 1913, d. 1999, Ólöf, f. 1918, d. 2002, Páll, f. 1919, Hallgrímur, f. 1921, Júlíana, f. 1923, Jónas, f. 1926, Þorsteinn, f. 1927, Elísabet, f. 1929, d. 2007, Gísli, f. 1930, Vilhjálmur, f. 1932, d. 2002.

Sigurbjörg ólst upp í Flatey á Skjálfanda og lauk þar skyldunámi og síðar námi við Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal í Suður- Þingeyjarsýslu. Sigurbjörg eignaðist dótturina Hjördísi Ásberg 22. nóvember 1956. Faðir hennar er Jóhann Hermannsson frá Bakka á Tjörnesi, umboðsmaður skattstjóra í Norðurlandsumdæmi f. 6. okt. 1921, d. 16. okt. 2005. Hjördís er viðskiptafræðingur og löggiltur endurskoðandi, nú framkvæmdastjóri Maður lifandi ehf. Maður hennar er Hjörleifur Jakobsson framkvæmdastjóri. Barnabörn Sigurbjargar eru 1) Guðmundur Gauti Sveinsson, nemi, f. 11. apríl 1982. 2) Elísa Björg Sveinsdóttir, nemi, f. 22. mars 1988. Faðir þeirra og fyrri maður Hjördísar er Sveinn Guðmundsson, yfirlæknir. 3) Óskírð stúlka f. 7. júlí 2002, d. 7. júlí 2002. Sonur Hjörleifs og stjúpsonur Hjördísar er Elvar Þór, nemi, f. 15. janúar 1986.

Sigurbjörg starfaði á heimili foreldra sinna og fór síðan til Siglufjarðar, Akureyrar og Reykjavíkur og sinnti þar ýmsum störfum, s.s. í síldarvinnslu, á Hóteli Norðurlands og á saumastofunni Gefjun. Við fráfall móður sinnar árið 1943 flutti Sigurbjörg aftur norður á æskuslóðirnar og tók við heimili föður síns, fyrst í Flatey og síðar á Húsavík og gekk yngri systkinum sínum í móðurstað. Sigurbjörg starfaði síðar lengst af hjá Kaupfélagi Þingeyinga, og á Sjúkrahúsi Húsavíkur. Árið 1975 hóf Sigurbjörg störf á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund og starfaði þar í tæp tuttugu ár, þar til hún lét af störfum hátt á áttræðisaldri til að sinna umönnun barnabarnanna.

Útför Sigurbjargar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Hjá öllum kemur að leiðarlokum og á nýju ári var ljóst að kveðjustundin væri skammt undan hjá móður minni. Við fundum það um þessi jól að krafturinn var miklu minni en áður og hún náði ekki að njóta stundarinnar eins og hún var vön.

Móðir mín sem alltaf var kölluð Bogga var styrka stoðin í mínu lífi frá fyrstu tíð. Hún var gædd þeim eiginleika að hafa forgangsröðina í lífi sínu alveg skýra. Hugsunin beindist að hennar nánustu alla tíð og hún lét verkin tala í þeim efnum. Á fjölmennu æskuheimili naut hún sín vel við að hjálpa til við barnauppeldi og bústörf. Síðar valdi hún sér það hlutverk að taka við umönnun yngri systkina er móðir hennar féll frá. Þá voru ennþá fimm yngri systkini á barns- og unglingsaldri.

Hún hélt heimili með afa í fimmtán ár, fyrst í Flatey og síðar á Húsavík, allt þar til hann lést. Á heimilinu bjuggu einnig tveir ógiftir móðurbræður hennar og einnig til lengri og skemmri tíma systkinabörn hennar, ýmist í pössun eða til að sinna námi eða vinnu á Húsavík. Mamma bar mikla umhyggju fyrir systkinum sínum og þeirra fjölskyldum alla tíð. Í minningunni var heimilið á Húsavík alltaf fjölmennt og mikill gestagangur, vinir og frændfólk komu og fóru og mamma var alltaf glöð og kát. Þegar rýmka tók til í húsinu leigði hún út herbergi með fæði auk þess að vinna úti fullan vinnudag. Móðir mín var sístarfandi og finnst mér með ólíkindum að hugsa til þess hversu létt henni virtist að sinna margföldu dagsverki. Hún gekk í öll störf sjálf, úti og inni og ætlaðist ekki til hjálpar. Samt náði hún líka að lesa mikið og fylgjast afar vel með þjóðfélags- og menningarmálum. Hún hafði unun af tónlist og söng mikið, kunni ógrynni af ljóðum og lögum og virtist sem ekkert gleymdist með árunum í þeim efnum. Hún flutti til Reykjavíkur rúmlega sextug á eftir einkadótturinni og hóf þá störf á Elliheimilinu Grund, að hugsa um gamla fólkið, eins og hún orðaði það sjálf, komin fast að áttræðu. Hún lét þar af störfum til að passa barnabörnin meira og hafði þá ennþá fulla starfsorku. Eftir að ég stofnaði fjölskyldu bjuggum við mamma áfram í mörg ár í sama húsi í Fossvoginum. Sambýlið var alltaf eins gott og hugsast gat. Og það var ekki amalegt fyrir barnabörnin sem voru sannkallaðir sólargeislar í lífi hennar að geta skroppið til ömmu hvenær sem var. Eftir nokkurra ára viðkomu í Marklandinu flutti hún svo í Sunnuhlíð eftir að sjón hennar hrakaði fyrir nokkrum árum. Hún naut þess að búa þar í íbúð við hliðina á yngri systur sinni Júlíönu, sem hugsaði einstaklega vel um hana. Hún fluttist svo á hjúkrunarheimilið og dvaldi þar síðustu misserin.

Hún fékk þar sérstaklega góða og faglega umönnun sem ég vil þakka fyrir.

Ég vil einnig nota tækifærið og þakka öðrum þeim sem hafa stutt hana undanfarin misseri og ár. Þar koma margir við sögu, ekki síst Ella og Dinda, systurdætur hennar, sem voru henni mjög kærar.

Að leiðarlokum vil ég þakka einstaka umhyggju hennar og fórnfýsi sem ég og fjölskylda mín nutum í svo ríkum mæli alla tíð.

Hjördís Ásberg.

Tengdamóðir mín Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Bogga, er látin. Ég kynntist Boggu er við Hjördís, einkadóttir hennar, hófum sambúð. Þá var Bogga komin á níræðisaldur en það hindraði hana ekki frá því að koma á heimili okkar flesta daga, sinna ýmsum léttum heimilisstörfum og sjá til þess að krakkarnir fengju eitthvað að borða þegar þau komu heim úr skólanum. Bogga var þá enn við góða heilsu en sjónin farin að daprast. Bogga hafði allan sinn aldur drukkið í sig allskonar fróðleik við lestur bóka og blaða og fannst henni það fremur slæmt hlutskipti að missa þau lífsgæði. Á þessum árum fór hún á milli staða með leigubílum og hefur greinilega þótt viðræðugóð því oft hef ég verið spurður um „gömlu konuna“ þegar ég hef notið þjónustu þessara sömu bílstjóra og þeir sagt mér sögur af spjalli þeirra við Boggu. Allra síðustu árin var skammtímaminni Boggu byrjað að gefa sig. Langtímaminnið var hinsvegar í góðu lagi og gaman að heyra hana segja skemmtilegar sögur af æskuárunum í Flatey og Flateyjardal. Æskuslóðirnar voru henni alltaf ofarlega í huga og þaðan átti hún bara góðar minningar. Mér er sérlega minnisstætt þegar við Hjördís fórum með henni út á Flateyjardal sumarið 2001 ásamt Elísu litlu, Júllu og Njáli og Erlu mágkonu hennar. Veðrið var yndislegt, dalurinn skartaði sínu fegursta og aðkoman að Brettingsstöðum var glæsileg. Bogga gerði sér vel grein fyrir því að hún var komin á efri ár og tjáði okkur að með þessari ferð væri hún að kveðja dalinn sinn. Hún hafði kvatt Flatey nokkru áður og nú var komið að Flateyjardal. Hún gekk um leiðin í kirkjugarðinum og rifjaði upp sögur af látnum ættingjum og minningar sínar frá dalnum. Hún talaði síðar oftlega um það hversu ánægð hún var að komast í þessa ferð. Ég kynntist Boggu seint á hennar lífsleið. Ég skynjaði þó fljótt að þarna var kjarnakona á ferð. Kona sem í gegnum lífið leitaði ekki eftir stuðning frá öðrum heldur studdi við aðra. Kona sem framan af aldri tók við hlutverki móður sinnar við uppeldi systkina sinna. Einstæð móðir sem eignaðist einkadóttur sína á fimmtugsaldri og kom henni til manns og menntunar. Kona sem starfaði síðan við umönnunarstörf fram til áttræðs og hélt sitt eigið heimili þar til hún var níræð. Ég er viss um að Bogga fékk sína lífsfyllingu af því að hjálpa öðrum. Með Boggu er fallin frá mikil dugnaðarkona sem var öllum góð. Blessuð sé minning hennar.

Hjörleifur Jakobsson.

Elsku amma. Það er sárt að kveðja en ég reyni að hugga mig við að þér líði betur núna. Þú varst mér alltaf svo góð og vildir allt fyrir okkur barnabörnin gera, enda vorum við Gummi einu barnabörnin þín og nutum þeirra forréttinda að fá að hafa þig út af fyrir okkur.

Eftir að við fluttum í Heiðarásinn kom amma til okkar nánast daglega og var ekkert betra en að koma heim úr skólanum og hafa ömmu til að taka á móti sér. Hún var alltaf svo dugleg að hjálpa til á heimilinu og vildi hafa allt fínt og snyrtilegt hjá okkur. Hún gætti þess þó ávallt að hafa nægan tíma aflögu til samskipta og sat hún oft og hlustaði á mig spila á píanóið og svo spiluðum við ósjaldan lönguvitleysu og samstæðuspil, þar sem mig grunar nú að amma hafi oftast leyft mér að vinna. Oft fylgdi með nammi og ís í heimsóknunum og keypti hún alltaf nóg svo að Hekla vinkona mín, sem henni þótti líka svo vænt um, gæti fengið líka. Þegar ég minnist ömmu koma upp í hugann öll kvæðin og sálmarnir sem hún fór með og ófáar tilvitnanir í bókmenntir og sagnir, sem mér tókst þó ekki nógu vel að læra af henni. Þegar ég gisti hjá ömmu bað ég alltaf um söguna af Rauðhettu, og er það alveg ljóst að enginn segir sögur betur en amma.

Ég man eitt skemmtilegt atvik sem lýsir umhyggju ömmu mjög vel. Ég var á leið til vinkonu minnar á sólríkum degi og var nokkuð léttklædd í samræmi við veðurfarið. En amma tók ekki í mál að ég færi svona illa klædd út og setti mig í úlpu, vettlinga, húfu og trefil. Ég rölti svo í heimsóknina, uppdúðuð, og þegar ég kom þangað liggja þau öll í sólbaði og skildu ekkert í klæðaburðinum á mér. En þetta var ömmu líkt, hún passaði alltaf upp á að mér yrði ekki kalt og að ekkert kæmi fyrir mig. Þó ég hafi kannski stundum verið treg til að hlýða, þá þykir mér mjög vænt um þetta í dag og veit að hún sinnti mér af einstaklega mikilli umhyggjusemi.

Einnig man ég þegar við Hekla vorum 7 ára og tókum okkur til og hjóluðum í Fossvoginn til ömmu. Við héldum að hún yrði svo glöð að sjá okkur en hún varð í staðinn alveg furðu lostin og áhyggjufull yfir að við hefðum hjólað alla þessa leið og hringdi beint í mömmu að kvarta yfir eftirlitsleysi með okkur. Við skildum ekkert í þessum látum því okkur fannst við vera orðnar svo stórar. En svo varð amma auðvitað mjög ánægð með að hafa okkur í heimsókn og bauð okkur upp á ýmsar kræsingar og góðgæti.

Ég er svo þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem ég á um þig, elsku amma, og þær mun ég alltaf varðveita. Ég er svo fegin að þú gast komið til okkar núna um jólin og eytt þeim með okkur, og er það alveg víst að næstu jól verða ekki söm án þín. Ég mun aldrei gleyma heimsókninni til þín daginn áður en þú fórst. Þú lást sofandi og ég tímdi ekki að vekja þig en mig grunaði þó ekki að þetta yrði í seinasta sinn sem ég myndi hitta þig. Ég kyssti þig bless í bak og fyrir og lofaði að koma að heimsækja þig daginn eftir. En nú ertu farin elsku amma mín og veit ég að þú vakir yfir mér og heldur áfram að passa upp á mig eins og þú hefur alltaf gert.

Elísa Björg.

Elsku amma Bogga.

Nú er tíma þínum hér á jörð lokið og þú ert komin til Flateyjar á himnum. Þú nýttir þann tíma sem þú hafðir með okkur til fullnustu og allir sem þekktu þig urðu betri fyrir vikið. Ég naut þeirra forréttinda að fá að vera hluti af lífi þínu í 25 ár og flest þeirra ára vorum við nánast í daglegum samskiptum. Þegar ég var lítill þá áttir þú heima á neðri hæðinni hjá okkur, fyrst í Snælandi og svo í Sævarlandinu og þú passaðir mig alltaf eftir leikskólann. Það var ómetanlegt fyrir lítinn dreng að geta ávallt leitað til ömmu sinnar og þú varst alltaf tilbúin að gera hvað sem var fyrir mig hvort sem það var að spila lönguvitleysu, gera pönnukökur, lesa fyrir mig eða sækja teppi og kúra í sófanum. Ein fyrsta minning mín úr æsku er að við tvö sitjum á gólfinu að leika okkur með tvo litla leikfangabíla sem við kölluðum Gula Gus og Rauða Gus. Ég á þessa tvo bíla enn þann dag í dag og ég hugsa alltaf með bros á vör til þessa augnabliks þegar ég sé þá. Uppáhaldið okkar var samt að sitja í rúminu þínu og leika okkur með kassa af tölum sem þú áttir. Við gátum setið þar tímunum saman og flokkað hundruð talna eftir stærð, litum og gerð. Þú sagðir að þannig hefði ég lært að reikna áður en ég lærði að tala og einn og tveir hafi verið mín fyrstu orð. Það þurfti ekki mikið til að við skemmtum okkur saman. Þegar þú fluttir í Marklandið og við upp í Árbæ þá hélst þú áfram að koma til okkar nánast daglega og dekra við okkur Elísu eins og þér einni var lagið. Því miður versnaði sjónin mikið á þessum tíma og þú hættir að geta lesið bækur og blöð sem hafði veitt þér svo mikla ánægju. En í staðinn kom meira sjónvarpsáhorf og ég hringdi stundum í þig oft á dag til að minna þig á að ýta á réttan takka á fjarstýringunni svo þú gætir horft á Glæstar vonir, Nágranna, fréttatímana og alla íslensku umræðuþættina. Þegar ég fékk loksins bílpróf fjölgaði stundunum sem við áttum saman því ég kom oft og heimsótti þig og hlustaði á þig segja sögur frá langri ævi þinni. Sumar þeirra heyrði ég örugglega hundrað sinnum en samt aldrei of oft. Þegar þú fluttir í Sunnuhlíðina þá var það mitt hlutverk að sækja þig þegar þú vildir koma í heimsókn til okkar og sköpuðust margar skemmtilegar venjur hjá okkur í þeim ferðum. Ein af þeim var sú að sama hversu snyrtilegt var fyrir framan útidyrnar þá vildirðu alltaf grípa í kúst og sópa aðeins og laga betur til. Ég man að þegar þú komst til okkar núna um jólin, orðin 93 ára gömul með dapra sjón og öxlina lélega, þá var þér samt mjög illa við að ég hjálpaði þér upp stigann heima því þú vildir ekki eiga á hættu að draga mig með í fallinu. Það var dæmigert fyrir ömmu Boggu, að setja alltaf velferð annarra í forsæti. En ef það er einhver sem á skilið að vera settur í fyrsta sætið þá ert það þú, amma mín. Ég get ekki ímyndað mér betri manneskju en þig og þú getur verið viss um það að öll sú ást og hamingja sem þú veittir mér er ekki gleymd og verður geymd í hjarta mínu til eilífðar.

Guðmundur Gauti.

Það hefur fækkað ört í systkinahópnum frá Útibæ. Örn, Elísabet og Sigurbjörg (Bogga) hafa kvatt þennan heim með stuttu millibili. Öll voru þessi systkini miklum og góðum mannkostum búin og minningarnar um þau bjartar og fallegar. Bogga á þó sérstakan sess í hjarta mínu og huga því fyrir utan að vera mágkona mín var hún mér nokkurs konar tengdamóðir. Móðir þeirra Útibæjarsystkina lést á miðjum aldri frá eiginmanni og sínum stóra barnahópi, þar af nokkrum á barnsaldri. Yngsta barnið, Vilhjálmur, var þá 10 ára. Hann varð síðar eiginmaður minn til nær 50 ára.

Bogga var þá flutt að heiman en ákvað að snúa aftur og taka við stjórn æskuheimilis síns. Hún gekk litlu systkinum sínum í móðurstað og var þeim eldri, föður sínum og föðurbróður, sem bjó á heimilinu, stoð og stytta.

Síðar meir fluttu þau til Húsavíkur og þar áttu systkinabörn og fleiri ungmenni sér athvarf um lengri eða skemmri tíma. Allt þetta mikla umönnunarhlutverk fórst henni vel úr hendi og ég veit að það eru margir sem kunna henni mikið þakklæti fyrir ást hennar og umhyggju.

Þegar við Bogga hittumst rifjaði hún oft upp atvik löngu liðinna tíma. Hún lýsti samferðafólki sínu, fór með ljóð og sögur, enda var hún eins og ættin ljóðelsk og vel lesin. Ævinlega spurði hún mig frétta af fjölskyldu minni og bað okkur Guðs blessunnar þegar kvatt var.

Ég er fegin að ég náði að kveðja mína elskulegu mágkonu sem frá fyrstu kynnum sýndi mér væntumþykju og umhyggju. Hún kvaddi þennan heim sátt, eftir göfugt og gott lífsstarf.

Ég veit að hún á nú góða endurfundi við foreldra sína og systkini sem á undan eru farin. Hún saknaði þeirra mjög og þau voru í huga hennar í svefni og vöku síðustu árin.

Ég vona að dýrð himnanna jafnist á við náttúrufegurð æskustöðvanna í norðri sem hún rómaði svo oft. Blessuð sé minning hennar. Ég votta dóttur hennar Hjördísi, dótturbörnum og öðrum ástvinum samúð mína.

Stella Gunnlaugsdóttir.

Sigurbjörg, elskuleg mágkona mín, er látin.

Bogga, eins og hún var oftast kölluð, ólst upp í Útibæ í Flatey þar sem stórfjölskyldan deildi kjörum. Auk foreldra hennar og systkinanna 12 sem upp komust áttu þar heima föðurafi og amma, Emilía og Jónas, Þorsteinn föðurbróðir og fjölmargir aðrir sem dvöldust þar um lengri eða skemmri tíma.

Á uppvaxtarárum Boggu var líflegt í Flatey, næg atvinna og allir tóku til hendinni, ungir sem aldnir. Faðir hennar rak útgerð, sá um verslunarrekstur og var bóndi með kýr og kindur. Bræður hennar byrjuðu ungir að sækja sjóinn og víst er að kvenþjóðin hafði nóg að starfa við umönnun þessa stóra heimilis auk þess að starfa við útgerðina og búskapinn í landi.

Systkinin hleyptu heimdraganum fljótlega eftir að barnaskólanámi lauk til að afla sér frekari menntunar og til að vinna fyrir sér. Bogga naut vel skólavistar sinnar við Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal og átti þaðan góðar minningar.

Örlögin réðu því að leið Boggu lá aftur til Flateyjar er móðir hennar lést langt um aldur fram og yngstu systkinin þrjú enn innan við fermingu. Hún sagði mér síðar að þetta hefði sennilega verið sitt gæfuspor að fá tækifæri til að hlúa að föður sínum, öðru heimafólki og þá sérstaklega systkininum ungu sem syrgðu sárt móður sína.

Nokkru síðar flutti hluti Útibæjarfólksins til Húsavíkur og fyrst um sinn hafði það vetursetu þar en dvaldi í eyjunni á sumrin.

Heimilið á Húsavík var nokkurs konar miðstöð ættingja og vina. Þangað komu bræður og systur í heimsóknir eða til dvalar og síðar fjölskyldur þeirra. Húsmóðirin fagnaði alltaf fólkinu sínu og sýndi því ástúð og umhyggju. Eftir að við Örn bróðir hennar hófum búskap kynntist ég Boggu vel og alla tíð hafa samskiptin verið náin og hún verið mér sem besta vinkona.

Björn, sonur okkar, var hjá Boggu er hann var í sumarvinnu á Húsavík og síðar var Hjördís dóttir hennar hjá okkur í Reykjavík á meðan hún stundaði þar nám.

Bogga var fróðleiksfús með afbrigðum, átti stórt bókasafn og las mikið allt þar til sjónin brást. Þá leitaði hún aðstoðar Blindrafélagsins um lán á hljóðbókum, sem styttu henni stundir.

Ég á góðar minningar frá síðustu ferð Boggu út á Flateyjardal sumarið 2001. Hún minntist fegurðarinnar sem blasti við frá Flatey, t.d. þegar morgunsólin hellti geislum sínum yfir fjallahringinn sem umlykur Flateyjardal, dalinn þar sem móðurfólk hennar bjó um aldir. Hún gekk m.a. um kirkjugarðinn á Brettingsstöðum, blessaði leiði forfeðra sinna og vina. Hún rifjaði upp fermingardaginn sinn vorið 1928 þegar þær frænkur, hún og Helga frá Krosshúsum í Flatey, fermdust í litlu kirkjunni þar, báðar klæddar bláum silkikjólum með hvítum krögum.

Hún horfði lengi yfir sundið til eyjunnar sinnar og kvaddi hana þá í síðasta sinn.

Það var komið kvöld í lífi mágkonu minnar. Ég trúi að hún eigi góða heimvon í nýjum heimkynnum þar sem vinir bíða í varpa.

Við Björn sonur minn vottum öllu hennar fólki innilega samúð.

Erla Björnsdóttir.

Móðursystir mín og elskuleg vinkona, Sigurbjörg, eða Bogga eins og hún var kölluð, hefur yfirgefið þennan heim, háöldruð og orðin 93 ára. Á hálfu ári hafa þrjú af systkinunum frá Útibæ í Flatey á Skjálfanda kvatt þennan heim; Örn (Addi) í ágúst, móðir mín Elísabet (Beta) í nóvember og Bogga núna. Þegar Bogga var um þrítugt urðu kaflaskipti í lífi fjölskyldunnar í Útibæ þegar elskuleg eiginkona og móðir þeirra systkina lést fyrir aldur fram. Þá breyttist allt, ljósið var ekki eins bjart og það var áður. Bogga fór strax út í Flatey að hjálpa föður sínum og yngri systkinum sem voru sum enn langt innan við fermingu. Móðir mín var alltaf þakklát fyrir það sem Bogga gerði fyrir hana og bræður hennar. Hún var til staðar eins og alltaf fyrir sitt fólk. Bogga bjó á Húsavík til 1975 þegar hún flutti suður á eftir dóttur sinni. Á Húsavík hélt hún heimili fyrir föður sinn, móður- og föðurbræður og okkur frændsystkinin sem vorum ófá hjá henni. Þar á meðal var ég sem naut þeirra forréttinda að fá að vera hjá henni á sumrin og öllu því góða fólki sem dvaldi hjá henni. Fyrir mig var dvölin hjá Boggu alltaf mikil tilhlökkun. Hún var svo lifandi og alltaf svo góð við okkur frændsystkinin sem voru hjá henni sumar sem vetur. Eftir að hún flutti búferlum suður til dóttur sinnar og fjölskyldu áttum við margar góðar stundir saman. Fórum til dæmis reglulega að versla saman, eins fór hún með okkur í berjamó og norður yfir heiðar að heimsækja sveitina sem hún dáði mest, Þingeyjarsýslu. Fyrir okkur systkinin í Ásabyggðinni á Akureyri var gott að vita að það væri stutt til Boggu frænku á Húsavík. Ég vil þakka Boggu minni fyrir samferðina, sem var löng og góð. Við fjölsyldan sendum Dísu og fjölskyldu og öldruðum systkinum Boggu innilegasta hlýhug við fráfall móðursystur minnar.

Ingibjörg R. Vigfúsdóttir (Dinda).

Móðursystir mín Sigurbjörg Guðmundsdóttir, Bogga frænka, er látin í hárri elli. Ég kynntist Boggu fyrst, þegar ég fór í Gagnfræðaskóla Húsavíkur haustið 1964, en þá var mér komið fyrir hjá Boggu, sem bjó á Hringbraut 7, Húsavík. Gatan heitir nú Laugarbrekka. Ég var hjá henni í þrjá vetur. Með þessu fetaði ég í fótspor Áslaugar stóru systur sem einnig var þrjá vetur á Húsavík. Þetta var góður tími og Bogga reyndist mér vel í alla staði. Hún skammaði mig sjaldan og ekki nema tilefni væri til. Ef ég man rétt þá vorum við sammála um flesta hluti nema Bítlana.

Á þessum árum hélt Bogga heimili á Hringbrautinni ásamt dóttur sinni Hjördísi. Einnig var hjá henni móðurbróðir hennar, Guðmundur Pálsson frá Brettingsstöðum, þá aldraður maður. Gunnar Gunnarsson, frændi minn frá Flatey, var hjá henni einn vetur áður en fjölskylda hans fluttist til Húsavíkur.

Bogga vann úti hálfan daginn og sá um heimilið. Þarna kynntist ég mörgum ættingjum mínum í móðurætt, því Bogga var eins konar tengiliður í fjölskyldunni og fylgdist vel með systkinum sínum og systkinabörnum og lét sér annt um þau.

Bogga var alla tíð dugleg, samviskusöm og heiðarleg manneskja. Hún var vel lesin og kunni ógrynni af ljóðum og átti erfitt með að sætta sig við það, þegar hún á efri árum missti sjónina og getuna til að lesa.

Bogga var 19 ára þegar móðir hennar dó. Systkinin voru þrettán, þar af tíu yngri en Bogga. Hún hélt heimili með föður sínum, fyrst í Flatey en síðan á Hringbraut 7, Húsavík uns hann dó 1958. Hún eignaðist Hjördísi einkadóttur sína 1957 og bjó áfram á Hringbraut 7 uns hún flutti suður. Hún var ein af þessum svokölluðu ofurkonum sem eru alla sína ævi að þjóna öðrum. Ég vil þakka henni fyrir mig og systkini mín.

Ég votta aðstandendum samúð mína. Megi guð blessa ykkur.

Guðmundur Björnsson.

Þegar við kveðjum okkar kæru stórfrænku kemur margt upp í hugann:

Stóra fjölskylduhúsið á Hringbraut 7, afahús, fullt af fólki af öllum kynslóðum þar sem Bogga réð ríkjum og þess vegna var það líka stundum kallað Bogguhús. Þar voru allir velkomnir jafnt á nóttu sem degi, skyldir og óskyldir. Hún var alltaf að annast sitt fólk.

Þetta var einmitt eitt af helstu einkennum Boggu: alltaf tilbúin að hjálpa hverjum sem hún gat, hvernig sem hún gat. Sem ung kona fór hún frá Akureyri heim í Flatey til að taka við heimilisstjórn fyrir afa eftir að amma dó og gæta yngstu systkinanna. Hún tók að sér uppeldi systkinabarna eftir því sem atvikin buðu og sinnti öldruðum á elliheimilinu Grund þar sem hún vann í áratugi. Þegar komið var að því að hún skyldi hætta þar störfum báðu stjórnendur Grundar hana að vinna ögn lengur og hún bætti nokkrum árum við starfstímann – síðustu misserin á aldur við suma vistmennina.

Annað atriði sem við minnumst úr Bogguhúsi: sögur, óendanlegar sögur, vísur og rímur og bænir og grín, hlátur og kleinur og kökur og ættfræði, söngur og aftur söngur. Drjúgur hluti þeirra kvæða og vísna sem við kunnum í dag er kominn beint úr Útibæ. Hún hafði skoðanir á öllum málum og lá ekki á þeim; hún átti ríka réttlætiskennd sem hún kunni að miðla til annarra og sáttfýsi svo af bar. Hún hafði líka einstakt lag á að koma þessum lífsskoðunum sínum þannig frá sér að það var bæði upplýsandi og skemmtilegt. Maður fór ævinlega betri af hennar fundi en maður kom.

Svo virðist sem fundir okkar frændsystkinanna og Boggu verði ekki fleiri að sinni – hvað svo sem kann að koma í ljós. Þess vegna viljum við þakka Boggu frænku fyrir allt það góða sem hún gaf okkur og var okkur fyrr og síðar. Jafnframt sendum við Dísu og hennar fjölskyldu og eftirlifandi Útibæjarsystkinum og þeirra fólki innilegar samúðarkveðjur.

Elísa Björg Þorsteinsdóttir

og Guðmundur Hallgrímsson.