MARKAÐURINN brást of harkalega við áhyggjum af íslenskum fjárfestingarfélögum og refsaði íslensku bönkunum í kjölfar hremminga fjárfestingarfélagsins Gnúps.

MARKAÐURINN brást of harkalega við áhyggjum af íslenskum fjárfestingarfélögum og refsaði íslensku bönkunum í kjölfar hremminga fjárfestingarfélagsins Gnúps. Þetta segir í nýrri skýrslu franska bankans BNP Paribas þar sem fjallað er um íslensku bankana og ástæður fyrir hratt versnandi lánakjörum þeirra á alþjóðamarkaði. BNP segir ófarir Gnúps hafa hrundið af stað hækkunarhrinu á skuldatryggingarálag bankanna, sem er mælikvarði á kjörin sem þeim bjóðast.

„Íslenska bankakerfið er ekki að bráðna,“ er inntak umfjöllunarinnar en franski bankinn segist hafa þurft að endurskoða áður neikvæða stöðu sína gagnvart íslensku bönkunum. Telur hann að þegar kemur að lánshæfi þeirra standi Landsbankinn best, þá Glitnir og loks Kaupþing. En þrátt fyrir að viðbrögð markaðarins við Kaupþingi, líkt og hinum, hafi verið of hörð þá sitji eftir einhver uggur varðandi Kaupþing þar sem óttinn á Íslandi virðist kristallast í félaginu.

BNP segist þó eiga verulega erfitt með að sjá að Kaupþing geti ekki staðið við skuldbindingar sínar, þrátt fyrir hátt skuldatryggingarálag. Hins vegar ef álagið haldist áfram hátt og lausafjárstaðan batni ekki vakni spurningar um hvort fjármögnun Kaupþings muni verða vandamál. Landsbankinn er sagður í bestri stöðu hvað þetta varðar vegna þess hve hátt hlutfall innlána er á móti útlánum.

Jákvæður tónninn í skýrslu BNP og hækkanir á erlendum mörkuðum voru meðal þess sem rifu íslenska hlutabréfamarkaðinn upp úr eymdarástandinu í gær. Öll 14 félög úrvalsvísitölunnar hækkuðu í verði og vísitalan hækkaði um 3%. Exista, sem hafði lækkað mest frá áramótum, rétti úr kútnum líkt og helstu eignir félagsins, þ. á m. Sampo sem hækkaði um 7,2% og Storebrand tók stökkið upp um 12,4%. Krónan styrktist um 1,3%.