Vinsæll Að sögn Einars hefur plata Garðars selst í næstum 70.000 eintökum í tveimur löndum.
Vinsæll Að sögn Einars hefur plata Garðars selst í næstum 70.000 eintökum í tveimur löndum. — Árvakur/Kristinn
Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson jbk@mbl.

Eftir Jóhann Bjarna Kolbeinsson

jbk@mbl.is

GARÐAR Thór Cortes og umboðsmaður hans, Einar Bárðarson, skelltu sér til Nashville í Bandaríkjunum í síðustu viku, en þar hittu þeir forsvarsmenn Universal-útgáfurisans sem hefur mikinn áhuga á að gefa plötu Garðars út vestanhafs. „Þeir hafa sýnt Garðari áhuga, en það hefur Sony líka gert, þannig að við erum ekkert að flýta okkur,“ segir Einar um málið. Ljóst er að annað hvort fyrirtækið mun gefa plötuna út, og segir Einar að þeir geti nánast valið á milli fyrirtækjanna tveggja. „Believer, útgáfufyrirtækið mitt, á útgáfuréttinn að plötunni, þannig að það er algjörlega í höndunum á mér og Garðari hvaða samningum er tekið,“ segir hann, en bætir því við að ómögulegt sé að segja til um hvenær platan muni koma út í Bandaríkjunum.

Tilnefndur til BRIT-verðlauna?

Umrædd plata heitir einfaldlega Cortes og hefur nú þegar komið út hér á landi og í Bretlandi. Að sögn Einars er hins vegar búið að skrifa undir samninga um útgáfu hennar í allri Mið-Ameríku, Singapúr, Hong Kong, Portúgal, Austurríki, Sviss og Þýskalandi, og því styttist í að platan komi út í þessum löndum. „Ég á von á að þeir sem fara fyrstir í loftið geri það í maí, sem er mjög jákvætt. Það er nú þegar búið að selja þessa plötu í næstum 70.000 eintökum sem er ágætt miðað við að það er bara búið að gefa út í tveimur löndum,“ segir Einar. „Svo bíður maður með öndina í hálsinum og vonar að Bretar sýni honum þá virðingu að tilnefna hann til bresku tónlistarverðlaunanna, hann á besta árangur nýliða í klassískri tónlist í Bretlandi,“ segir Einar, en tilnefningar verða kynntar í mars.

Í viðræðum við Disney

Ekki er hægt að sleppa Einari án þess að spyrja hann út í stúlknasveitina Nylon. Hann segir þær stöllur hafa tekið þá ákvörðun að vera áfram tríó, en á tímabili stóð til að ráða nýja manneskju í stað Emilíu Bjargar Óskarsdóttur sem hætti í sveitinni í júlí á síðasta ári. Aðspurður segir Einar ýmislegt í bígerð hjá stúlkunum. „Við erum til dæmis að vinna í ákveðnum málum með Disney í Los Angeles. Það er verið að skoða þáttaröð sem er verið að kynna fyrir Disney, en það er erfitt að tala um þetta á þessu stigi því þetta er hugmyndafræði sem er verið að bera á borð úti í heimi. Við höfum verið að vinna að þessu með strákunum í Latabæ, en það þarf margt að ganga upp til þess að þetta verði að veruleika,“ segir Einar, en bætir því við að um mjög stórt mál sé að ræða.