Galleríið Hluti Kling & Bang-hópsins við nýja húsnæðið. Frá vinstri: Snorri Ásmundsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Kristján Björn Þórðarson, Erling T.V. Klingenberg, Hekla Dögg Jónsdóttir og Úlfur Grönvold.
Galleríið Hluti Kling & Bang-hópsins við nýja húsnæðið. Frá vinstri: Snorri Ásmundsson, Sirra Sigrún Sigurðardóttir, Kristján Björn Þórðarson, Erling T.V. Klingenberg, Hekla Dögg Jónsdóttir og Úlfur Grönvold. — Morgunblaðið/Einar Falur
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Í SALARKYNNUM þar sem Samhjálp var áður til húsa, á Hverfisgötu 42, er búið að rífa út flestallar innréttingar og mála rúmgóðan sal hvítan.

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Í SALARKYNNUM þar sem Samhjálp var áður til húsa, á Hverfisgötu 42, er búið að rífa út flestallar innréttingar og mála rúmgóðan sal hvítan. Myndlistarmennirnir sem stofnuðu Kling & Bang-galleríið og ráku við Laugaveg 23 eru komnir með þetta nýja húsnæði fyrir galleríið.

Festar fasteignafélag, sem á húseignirnar á reitnum milli Laugavegar og Hverfisgötu ofan Klapparstígs, hefur afhent Kling & Bang húsnæðið leigulaust til þriggja til fimm ára, en galleríið þarf einungis að standa skil á gjöldum af húsnæðinu. Segjast forsvarsmenn Festa telja það afar jákvætt fyrir Hverfisgötu að fá mannlíf eins og það sem fylgir galleríinu á svæðið.

„Við höfum viljað koma hreyfingu á listir í kringum okkur. Það hefur síðan alltaf áhrif á mann sjálfan á endanum,“ segir Hekla Dögg Jónsdóttir sem er ásamt félögum sínum í húsnæðinu þegar blaðamaður lítur inn. „Við höfum viljað halda starfseminni sem hugsjón, það hefur haldið okkur gangandi,“ bætir Kristján Björn Þórðarson við. „Við höfum lagt meira í að sinna listamönnunum en huga að rekstrarmódelinu.“

„Enda erum við orðin rík af huglægum auðæfum!“ segir Erling T.V. Klingenberg.

Úlfur Grönvold segir þau hafa stofnað Kling & Bang til að sýna bæði verk eftir sig sjálf og aðra listamenn. „Og eftir yngri listamenn sem ganga ekki inn í hvaða sýningarrými sem er,“ bætir Erling við.

„Við höfum líka gert talsvert af því að flytja inn og sýna erlenda listamenn,“ segir Sirra Sigrún. „Það hefur auðgað menningarlífið og sumir þeirra hafa tengst íslenskum listamönnum sterkum böndum.“

„Við erum engin mafía sem sækist eftir völdum. Þvert á móti höfum við falast eftir samstarfi við fólk,“ segir Úlfur.

„Jú, ég vil algjör völd!“ heyrist þá lágt í Erling sem glottir.

Orkan fer í sýningarnar

Hópurinn hefur tekið þátt í fjölda sýninga og segja þau í bígerð að reyna að ljúka við bók sem spannar fimm ára feril gallerísins. Þeim hefur verið boðið að taka þátt í ýmsum uppákomum erlendis en eru ekki alltaf í stakk búin til að þiggja boðin.

„Eftir að við misstum húsnæðið í haust vorum við um tíma í Berlín með sýningu og það var nóg að gera þótt við værum orðin gallerí án þaks. Á tímabili vorum við sátt við það en finnum samt að við verðum að hafa stað til að vinna út frá.

Það fer þó mikill tími og orka í að halda starfseminni gangandi,“ segja þau og voru ekki viss um hvort þau vildu halda áfram með rekstur, fyrr en eigendur húsnæðisins við Hverfisgötu styrktu þau svo myndarlega og þá barst einnig styrkur upp á eina milljón frá borginni.

„Við höfum aldrei fyrr fengið jafngóðan styrk frá borginni en hann er samt bara hluti af því sem við þurfum,“ segir Kristján. „Við vinnum þó allt í sjálfboðavinnu, sem er skilyrði fyrir að geta haldið þessu metnaðarfulla sýningarstarfi úti.“

„Við verðum að vera duglegri að leita styrkja, nýta sambönd,“ bætir Hekla Dögg við. „Orkan hefur farið í sýningarnar, sem er auðvitað mjög jákvætt, en ætli við verðum ekki að sjá af smáorku í hitt líka.“

Þetta er saga rekstrarins, enginn fær borgað en þau hafa komist á hátíðir og sýningar erlendis með hjálp góðra styrkja, samtaka, vilja „og allir borga með sér. Það er ekki það vinsælasta fyrir fjölskyldufólkið en við höfum samt ekki látið það stoppa okkur. Við höfum framkvæmt alla þessa hluti og ekki ýtt ævintýrum frá okkur,“ segir Kristján.

Munum bjarga Hverfisgötunni

Flestir sýningarsalir í borginni eru reknir á öðrum forsendum.

„Eins og í orðaleiknum; við erum gallerí, þeir eru sellerí!“ segir Erling.

„Við höfum ekki verið áhugasöm um að vera sölugallerí, þótt við höfum alltaf selt eitthvað,“ segir Úlfur.

„Um leið og farið er að leggja áherslu á að selja verk þarf starfsfólk til að fylgja hlutunum eftir. Það hefur án efa áhrif á sýningarnar sem valdar eru inn. Við viljum því ekki fara í sölumennskuna, til að hún hafi ekki áhrif á listrænu stefnuna,“ segir Hekla Dögg.

Þótt fyrri staðsetning gallerísins sé beint fyrir ofan húsið við Hverfisgötu eru þau sammála um að það verði talsverð breyting að færa starfsemina þangað.

„Sennilega munum við bjarga Hverfisgötunni,“ segja þau hlæjandi. „Annars virðast menn almennt fagna því að fá gallerístarfsemi hingað, það er jákvætt fyrir götuna og á vonandi eftir að koma okkur til góða.“

Fimm ára sýningahald

Kling og Bang-galleríið var opnað á Laugavegi 23 vorið 2003. Galleríið hefur verið rekið af hópi átta listamanna, þeim Daníel Björnssyni, Erling T.V. Klingenberg, Heklu Dögg Jónsdóttur, Kristjáni Birni Þórðarsyni, Nínu Magnúsdóttur, Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur, Snorra Ásmundssyni og Úlfi Grönvold.

Í september síðastliðnum lokuðust dyr Kling & Bang á Laugaveginum, eftir tæp fimm ár. Á þeim tíma voru settar upp um 60 sýningar með um 100 listamönnum.

Klink & Bank verður til

Þá fór hópurinn að leita að nýju húsnæði, leit sem er nú lokið þar sem Kristján Björn opnar fyrstu sýninguna í nýju húsnæði Kling & Bang á Hverfisgötu 42 í marsbyrjun.

Í mars 2004 afhenti Landsbankinn hópnum Hampiðjuhúsið við Brautarholt tímabundið og starfsemi Klink & Bank hófst þar, í 5.000 fermetrum. Hvers kyns listræn starfsemi blómstraði í Brautarholtinu á næstu misserum. Samkvæmt upplýsingum hópsins unnu þegar mest var 137 myndlistarmenn, hönnuðir, kvikmyndagerðar- og tónlistarmenn í húsinu. Settar voru upp sýningar, málþing, leikrit og haldnir tónleikar, um þrír viðburðir á viku. Hefur hópurinn unnið með mörgum kunnum listamönnum, svo sem Jason Rhoades, Paul McCarthy og Christoph Schlingensief.

Í haust tók Kling & Bang þátt í sýningahaldi í Berlín og frekari boð hafa borist hópnum. Þannig var honum boðið að vera þátttakandi í Frieze-listastefnunni í London í haust.