Það lífgar upp á skammdegið að klæðast litríkum fötum og litirnir þurfa ekkert endilega að vera æpandi því dökkgrænn eða dumbrauður geta t.d. farið ágætlega með svörtu.

Það lífgar upp á skammdegið að klæðast litríkum fötum og litirnir þurfa ekkert endilega að vera æpandi því dökkgrænn eða dumbrauður geta t.d. farið ágætlega með svörtu. Ef þú ætlar hins vegar að klæða þig í áberandi föt skaltu vera viss um að þér finnist þægilegt að draga athyglina að þeim líkamshlutum sem litrík klæði hylja. Þá er talið gott ráð fyrir þá sem eru með mikla bauga eða poka undir augum að klæðast ekki svörtu of nálægt andlitinu.

Réttur haldari

Best er að klæðast brjóstahaldara sem er annað hvort í ljósari eða sama lit og fötin sem þú ert í. Góður og þægilegur brjóstahaldari er öllum konum nauðsynlegur. Hann styður við og mótar stór brjóst og hjálpar til við að lyfta undir með hinum minni. Auk þess er mikilvægt að brjóstahaldarinn passi vel svo hann fari betur undir fötunum.

Skart

Stórt og mikið skart í æpandi litum getur verið flott viðbót við svartan kjól eða sparibol. Langir eyrnalokkar eru kjörnir fyrir þær sem hafa hringlaga andlit og þær sem hafa stuttan háls ættu að forðast að vera með stórar hálsfestar sem liggja þétt að hálsinum.

Skórnir

Það er oft sagt að skór setji punktinn yfir i-ið og því mikilvægt að velja flotta skó sem passa vel við dressið. Svartir skór passa best við dökka liti, ekki klæðast svörtum skóm við ljósa liti nema skórnir séu fíngerðir. Að sama skapi skaltu velja þér ljósa skó eða skó í einhverjum lit í efninu þegar um litrík föt er að ræða. Einna mikilvægast er þó að skórnir séu þægilegir og henti tilefninu.