Elisabeth Vilhjálmsson, fædd Schaffer, fæddist í borginni Landau í Þýskalandi 25. febrúar 1921. Hún andaðist á Landspítalanum í Fossvogi 11. desember síðastliðinn og var henni sungin sálumessa í Kristskirkju í Landakoti 22. janúar.

Í íslensku máli hafa orðið til orðatiltækin þýsk gæði, þýsk nákvæmni og þýsk þrautseigja. Hvenær eða hvernig þetta kom inn í bæði tal-, og ritmál veit ég ekki, en hitt veit ég að alla þessa eiginleika hafði Elisabeth til að bera. Fljótlega eftir að Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík var stofnað kom Elisabeth í félagið. Hún tók í upphafi þátt í flestum greinum, en fljótlega beindist áhugi hennar allur að bogfimi. Okkur sem vorum í forsvari fyrir félagið á þessum árum fannst í fyrstu nóg um hve kröfuhörð hún var um að allar reglur og upplýsingar væru skýrar og nákvæmar. Fljótt gerðum við okkur samt grein fyrir hve nauðsynlegt það var. Elisabeth vildi alltaf vita allt fullkomlega og aflaði sér því allra upplýsinga með að skrifa eftir þeim, lesa sér til og finna allar þær heimildir og upplýsingar sem þurfti. Ástríða hennar og ástundun í bogfiminni varð fljótt til þess að hún var ein besta og öflugasta bogaskytta á Norðurlöndunum. Hún hafði óstöðvandi áhuga á því að í Reykjavík, eins og í öðrum höfuðborgum Evrópu, yrði sköpuð útiaðstaða til að iðka bogfimi. Því fór hún um allt höfuðborgarsvæðið og leitaði eftir hentugum svæðum og teiknaði svo og hannaði bogfimivelli á þeim. Oft var sótt um leyfi og fé eftir tillögu hennar, en allt kom fyrir ekki. Alltaf var eitthvað til fyrirstöðu. Hún var samt óþreytandi og þetta var hennar hjartans mál. Nú hillir undir að útiaðstaða geti fengist, en því miður of seint til að hún geti notið hennar. Þó fullorðin væri tileinkaði hún sér strax tölvutæknina til að afla upplýsinga á netinu. Til að teikna og mála. Þar var nákvæmnin svo einstök að hún gaf færustu arkitektum ekkert eftir. Enda hafði hana dreymt um sem unga stúlku að læra til arkitekts, en aðstæður leyfðu ekki.

Elisabeth var fötluð frá fæðingu, en með einstökum dugnaði og m.a. með að hanna sín eigin hjálpartæki tókst henni að lifa lífinu lifandi og afkasta meira en margur ófatlaður maðurinn. Hvar sem málefni fatlaðra voru til umræðu, hvort heldur var hjá Sjálfsbjörg, Íþróttafélaginu, eða annars staðar, var hún oftast mætt og lagði sitt til málanna.

Nú þegar við kveðjum Elisabeth, þá er mér efst í huga þakklæti fyrir vináttuna og alla dugnaðinn við að byggja upp íþróttir fatlaðra og ekki síst bogfimiíþróttina.

Hvíl þú í friði, kæra vinkona.

Arnór Pétursson.