„Skítseyði !“ Tommaso Barbato (annar f.v.) er haldið en áður hafði hann ausið fúkyrðum yfir einn af liðsmönnum flokks síns fyrir að styðja Prodi.
„Skítseyði !“ Tommaso Barbato (annar f.v.) er haldið en áður hafði hann ausið fúkyrðum yfir einn af liðsmönnum flokks síns fyrir að styðja Prodi. — Reuters
Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is BÚIST var við því í gærkvöld að Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, afhenti Giorgio Napolitano forseta lausnarbeiðni sína eftir að öldungadeild þingsins hafði samþykkt vantrauststillögu á miðju-vinstristjórn hans.

Eftir Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

BÚIST var við því í gærkvöld að Romano Prodi, forsætisráðherra Ítalíu, afhenti Giorgio Napolitano forseta lausnarbeiðni sína eftir að öldungadeild þingsins hafði samþykkt vantrauststillögu á miðju-vinstristjórn hans. Alls var 161 þingmaður samþykkur, 156 á móti og einn sat hjá en þrír voru fjarstaddir.

Forsetinn getur nú boðað til kosninga fyrir tímann eða sett á laggirnar bráðabirgðastjórn til að koma í gegn umbótum á kosningalöggjöfinni sem margir telja afar brýnt.

Prodi missti meirihlutann í kjölfar þess að Clemente Mastella, leiðtogi lítils miðjuflokks, UDEUR, dró flokkinn út úr samsteypustjórn forsætisráðherrans, en flokkurinn er með þrjú þingsæti í öldungadeildinni. Áður hafði Mastella orðið að segja af sér embætti dómsmálaráðherra vegna spillingarmáls sem eiginkona hans var einnig bendluð við. Hægrimaðurinn og auðkýfingurinn Silvio Berlusconi, sem er 71 árs og var lengi forsætisráðherra en varð að lúta í lægra haldi fyrir Prodi í kosningunum 2006, telur að nýjar kosningar muni færa sér völdin á ný og kannanir benda til að það geti orðið raunin.

Stjórn Prodis hefur verið við völd í tvö ár. Hún naut stuðnings níu flokka úr nánast öllu litrófinu, frá kommúnistum yfir í frjálshyggjumenn og var oft búið að spá henni falli vegna innbyrðis deilna.

Mikill hiti var í þingmönnum i umræðum áður en atkvæðagreiðslan hófst í gær. Einn af liðsmönnum UDEUR, Stefano Cusumano, skýrði óvænt frá því að honum hefði snúist hugur, hann hefði ákveðið að styðja Prodi, þrátt fyrir allt. Leiðtogi þingflokks UDEUR, Tommaso Barbato, missti þá algerlega stjórn á skapi sínu, hellti ókvæðisorðum yfir Cusumano og sagði að hann væri „kokkáll“ og „skítseyði“. Cusumano brast í grát og var loks borinn úr sal öldungadeildarinnar á sjúkrabörum.

Í hnotskurn
» Stjórn Prodis vann auðveldlega atkvæðagreiðslu um vantraust í fulltrúadeildinni á miðvikudag.
» Miðjumaðurinn Prodi hefur beitt sér fyrir auknu frjálsræði í efnahags- og atvinnulífi en lítið hefur þokast.