Línudans Róbert Gunnarsson, línumaðurinn sterki og leikmaður Gummersbach, kastar sér hér inn í vítateig Spánverja í Evrópuleiknum í Þrándheimi og skorar.
Línudans Róbert Gunnarsson, línumaðurinn sterki og leikmaður Gummersbach, kastar sér hér inn í vítateig Spánverja í Evrópuleiknum í Þrándheimi og skorar. — Árvakur/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„ÞAÐ er lítið hægt að segja eftir svona leik. Ég held að þetta hafi ekki komið manni neitt á óvart.

„ÞAÐ er lítið hægt að segja eftir svona leik. Ég held að þetta hafi ekki komið manni neitt á óvart. Við hefðum þurft að byrja þennan leik af miklum krafti til að geta hangið inni í honum,“ sagði Guðjón Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og fyrirliði FH, eftir að Ísland hafði tapað 26:33 fyrir Spánverjum í síðasta leik sínum á Evrópumótinu í handknattleik.

„Það var mikill missir að missa Fúsa. Það var ljóst að vörnin náði sér engan veginn á strik, sérstaklega ekki á miðjunni. Það vantaði alla grimmd – það var bara ekkert um að vera.

Ég hélt nú reyndar að þegar við vorum búnir að ná þeim seinni hlutann í fyrri hálfleik að nú væri að koma aftur kafli eins og í leiknum við Ungverja. En munurinn þá og núna var að vörnin virkaði ekki hjá okkur núna og markvarslan var engin. Við áttum því í rauninni aldrei möguleika nema vörn og markvarsla kæmist í gang en það gerðist ekki og því áttum við ekki möguleika.

Þetta tapaðist þegar við misstum þá í þriggja marka mun í lok fyrri hálfleiks og síðan sá maður þetta vonleysi sem hefur einkennt íslenska liðið svolítið í keppninni. Sjálfstraustið í upphafi síðari hálfleiks var lítið og kom það verulega á óvart því sjálfstraustið virtist í lagi tíu mínútum áður. Þetta er reyndar eitthvað sem hefur einkennt liðið í mótinu. Það hefur verið fljótt að gefast upp, fljótt að hrökkva inn í skelina sína. Mér finnst þetta standa dálítið upp úr eftir mótið, hversu fljótt liðið hefur brotnað og hugsanlegt er að tapið gegn Svíum í fyrsta leik hafi haft meiri áhrif á gengi liðsins í mótinu en maður taldi í fyrstu. Það var búið að setja þennan leik upp sem lykilleik og menn töldu sig eiga ágæta möguleika á að leggja Svía. Við lentum í vandræðum með þá í síðari hálfleiknum og leikurinn tapaðist. Síðan kemur skyldusigur á Slóvökum, erfiður leikur við Frakka þar sem ekkert gekk og síðan milliriðlarnir. Tapið í fyrsta leik virðast hafa valdið mönnum meiri vonbrigðum en menn halda,“ sagði Guðjón.

Sóknarleikinn sagði Guðjón svipaðan og í flestum leikjum á mótinu. „Það virðist vera í þessu móti að þegar eitthvað bjátar á einhvers staðar hjá liðinu þá er eins og allt fari. Ef sóknin hefði til dæmis náð að halda sínu í dag þá hefðum við náð að halda okkur inni í leiknum þó vörnin hefði ekki alveg verið að gera sig.

Markvarslan verður að vera meiri en hún var í dag og þó svo vörnin sé slök þá er svo mikilvægt að markverðirnir nái að verða fyrir einum 14 til 15 skotum í leik. Þeir verða að ná einhverjum af þessum langskotum,“ sagði Guðjón.

Hann sagði nokkra leikmenn hafa komist ágætlega frá leiknum. „Robbi komst vel frá sínu og Snorri þokkalega svona á heildina litið, en Guðjón Valur var okkar besti maður í dag. Aðrir leikmenn voru bara nóló, ekkert annað.

Um framhaldið hjá landsliðinu sagði Guðjón: „Nú krossleggur maður alla putta og vonar að liðið nái þessum möguleika á að komast á Ólympíuleikana. Ég vona að Alfreð taki þann pakka með okkur og treysti honum til að ná því besta út úr þessu liði. Það býr miklu meira í liðinu en það sýndi á þessu móti og við megum ekki gleyma því að það er ekki nema eitt ár síðan það munað einhverjum fimm sentímetrum að við kæmumst í undanúrslit á Heimsmeistaramótinu. Við vitum því alveg hvað þetta lið getur og ég held að við verðum að jafna okkur á þessu móti og byrja strax að huga að næsta verkefni.

Það þarf að koma mannskapnum í betra stand og við verðum að treysta á að lykilmenn okkar fái að spila með sínum félagsliðum því það er ekki hægt að koma inn í svona mót þegar menn hafa aðeins spilað 5-10 mínútur í leik í nokkra mánuði.

Við getum haldið þessum hópi óbreyttum í að minnsta kosti eitt og hálft ár í viðbót. Vonandi náum við að komast á Ólympíuleikana og gera góða hluti þar,“ sagði Guðjón.