Beint í æð Hreinar nálar eru nauðsyn til að koma í veg fyrir sýkingu.
Beint í æð Hreinar nálar eru nauðsyn til að koma í veg fyrir sýkingu. — Árvakur/Golli
Eftir Andra Karl andri@mbl.is AUKNING varð á tilvikum alvarlegra veikinda hjá sprautufíklum á Íslandi árið 2007 miðað við árin á undan.

Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

AUKNING varð á tilvikum alvarlegra veikinda hjá sprautufíklum á Íslandi árið 2007 miðað við árin á undan. Hópsýkingar af völdum HIV-smits og lifrarbólgu B valda miklum áhyggjum og þó svo að tilvikin hafi ekki verið mörg þykja þau gefa vísbendingar um framhaldið. Heilbrigðisstarfsmenn fylgjast grannt með þróun mála.

Fjallað var um málefni sprautufíkla á Læknadögum, sem fram fara á Hótel Sögu, í gærdag. Þar kom m.a. fram að á smitsjúkdómadeild og gjörgæsludeild LSH var árið 2007 eftirminnilegt vegna fjölda innlagna sprautufíkla. Jafnframt að talið sé að neyslumynstrið, þ.e. gríðarleg aukning í neyslu örvandi fíkniefna, sé ein helsta orsökin. Það hafi tvíþætt áhrif; annars vegar hverfur dómgreind fíklanna, m.a. sökum vellíðunaráhrifa, og verða þeir því kærulausir, stunda óvarin kynmök og ganga illa um sprautur og nálar – með tilheyrandi sýkingarhættu. Hins vegar eru það líffræðilegu áhrifin, en örvandi efni, s.s. amfetamín og kókaín, valda gríðarlegu álagi á hjarta og æðakerfið. Bendir ýmislegt til að þau áhrif ýti undir sýkingarhættu borið saman við t.d. ópíumefni.

Áframhaldandi aukning?

Fimm sprautufíklar greindust með sýkingu af völdum HIV á síðasta ári og fjórir þeirra voru bæði sýktir af HIV og lifrarbólgu B. Einn lést á árinu en fjórir eru enn í neyslu. Þetta var fyrsta hópsýkingin af völdum HIV sem greinist hjá sprautufíklum og miklar vangaveltur voru um það hvort áframhaldandi aukning verði í hópnum.

Talið er að um 700 virkir sprautufíklar séu á Íslandi og þrátt fyrir að nýgengi fari lækkandi frá ári til árs fer heildarfjöldinn sífellt vaxandi. Á milli sextíu til hundrað manns bætast í hópinn árlega.